Nýi samningurinn eins óeðlilegur og sá gamli

Kjarni Icesave-málsins er, að íslenska ríkið, og um leið íslenskir skattgreiðendur, bera ekki ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum Tryggingarsjóðs fjárfesta og innstæðueigenda, sem settur var upp hér á landi samkvæmt reglum EES (Evrópska efnahagssvæðisins) eins og í öðrum löndum á svæðinu. Ef sjóðnum er um megn að standa við skuldbindingar sínar við eigendur innstæðna á Icesave-reikningum, þá verður hann gjaldþrota, en getur ekki framsent reikninginn til íslenskra skattgreiðenda, komandi kynslóða.

Íslenskir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson prófessor, sérfræðingur í Evrópurétti, og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa bent á, að ekki er stafkrókur í reglum EES og alþjóðasamningum um slíka ríkisábyrgð. Forstöðumaður hins norska sjóðs, sem þar var settur upp eftir sömu reglum og hinn íslenski, þvertekur fyrir, að á honum sé ríkisábyrgð. Fjármálaráðherra Hollands og seðlabankastjóri Evrópu hafa báðir einnig tekið fram, að ábyrgðarkerfi það, sem komið var upp fyrir banka á Evrópska efnahagssvæðinu, á ekki við, þegar um bankahrun er að ræða, en það er einmitt það, sem gerðist á Íslandi.

Ekki má heldur gleyma því, að ein helsta ástæðan til þess, að allir íslensku bankarnir hrundu, nánast í einu, var fautaskapur Breta. Þeir neituðu Singer & Friedlander einum breskra banka um fyrirgreiðslu á þeim tíma, en hann var í eigu Kaupþings, og tóku þess í stað yfir rekstur bankans. Og þeir settu Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök! Með þessu felldu þeir auðvitað stórlega í verði þær eignir bankanna, sem koma á móti skuldum þeirra við innstæðueigendur. Ætla má, að Bretar hafi gert þar stórfelld mistök, þótt engin rannsókn hafi úr því skorið. Í fyrsta lagi hafi þeir haldið, að um miklu meiri og óeðlilegri flutninga fjármagns frá Bretlandi til annarra landa væri að ræða en reyndin virðist hafa verið. Í öðru lagi hafi þeir ekki gert sér fulla grein fyrir muninum, sem var á rekstrarfyrirkomulagi banka Kaupþings (dótturfélags) og banka Landsbankans (útibús). Þetta mál er órannsakað og þess vegna óupplýst.

Til að bæta gráu ofan á svart: Eftir að Bretar höfðu átt sinn þátt í að fella íslensku bankana í október 2008, greiddu þeir upp á sitt einsdæmi út stórfé til breskra eigenda innstæðna í íslensku bönkunum, sem þeir hafa síðan reynt að krefja íslenska ríkið, og um leið skattgreiðendur, um. En eins og Davíð Oddsson orðaði það í frægum Kastljóssþætti haustið 2008, eiga Íslendingar ekki að greiða skuldir óreiðumanna erlendis. Gildir þá einu, hversu góð vaxtakjör eru á þessum lánum. Þetta er ekki okkar skuld, og við eigum ekki að greiða hana.

Raunar eiga rök Sigurðar Líndals hér við, en hann hefur látið opinberlega í ljós efasemdir um, að Alþingi megi af stjórnskipulegum ástæðum samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar stórkostlegar fjárhagsskuldbindingar, sem enginn veit á þessari stundu, hverju nema, enda fara þær eftir því, hvernig tekst að koma eignum Landsbankans í verð.

Hvers vegna er þessi asi hvort sem er? Getur málið hugsanlega ekki horfið af sjálfu sér? Komið hefur smám saman í ljós, að eignir Landsbankans erlendis fara hátt í að nægja til að greiða Bretum og Hollendum það, sem þeir lögðu út í upphafi bankahrunsins og hafa reynt að krefja íslenska ríkið um í Icesave-málinu. Af hverju er ekki haldið áfram af rósemi og hyggindum að selja þessar eignir? Ef í ljós kemur, að þær nægja fyrir höfuðstólnum, þá er málinu lokið. Ef eitthvað vantar smávægilegt upp á, þegar málinu lýkur, þá ættu Íslendingar að koma sér saman við Breta og Hollendinga um það, hvernig það verður leyst.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hljóta ekki aðeins að greiða atkvæði gegn þessum samningi, heldur krefjast þess, að hann verður lagður í þjóðaratkvæði. Það geta hinir kunnu áhugamenn um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarflokkunum ekki annað en samþykkt.

Margir hafa síðustu dagana hins vegar orðið til að benda á þá sjálfstæðu staðreynd, að fyrri samningurinn, sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gerðu 2009 með atbeina Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, var miklu verri, og var þó reynt að troða þeim samningi ofan í kok þjóðarinnar með stórfelldum hrakspám. Hefði sá samningur kostað Íslendinga miklu meira en sá, sem nú hefur verið gerður, líklega 432 milljarða króna. Hefur sennilega ekki áður í Íslandssögunni fengist jafnskýr mæling á það, hversu mikið vanhæfni einstakra manna kostar, jafnvel þótt þá tækist að afstýra því slysi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband