Á útlendum krám

Hinn kunni enski málfræðingur og orðabókarhöfundur dr. Samuel Johnson minnist tvisvar í verkum sínum á Ísland. Hann hreykti sér af því við ævisöguritara sinn, James Boswell, að hann kynni heilan kafla í Íslandsbók Níelsar Horrebows utanbókar. Það var að vonum. 72. kafli bókarinnar heitir »Um slöngur á Íslandi«. Hljóðar hann svo: »Slöngur eru alls ekki til á Íslandi.«

Ekki hefur Johnson hrifist af lýsingunni á Íslandi, því að hann sagði árið 1784: »Þótt Dyflinn sé miklu verri staður en Lundúnir, er hann ekki eins slæmur og Ísland.«

Hvað sem þessu líður hafa margir Íslendingar tekið undir það, sem dr. Johnson sagði við annað tækifæri, að maðurinn hafi ekkert fundið upp sem veitti jafnmikla hamingju og góð krá.

Veitingaþjónn á krá í Kaupmannahöfn, sem Íslendingar vöndu komur sínar á í lok nítjándu aldar, skipti þeim til hægðarauka í tvo hópa, Briemere og Bløndalare. Sagði hann: »Briemerne, de er gode betalere, men dårlige sangere. Bløndalerne, de er gode sangere, men dårlige betalere.« Briemarnir greiða vel, en syngja illa. Blöndælirnir syngja vel, en greiða illa.

Hins vegar lá við, að illa færi fyrir vöskum íslenskum sjómanni, Stefáni Pálssyni skipstjóra, í Grimsby á útmánuðum 1913. Þjóraði hann þar á öldurhúsum kvöld eitt og gerðist alldrukkinn, uns að því kom að vísa átti honum á braut. Lét Stefán sér það ekki lynda og var hann slíkur maður að burðum að sex fíleflda lögregluþjóna þurfti loks til að yfirbuga hann. Skrifuðu blöð staðarins um hinn »íslenska Herkúles«. Þegar Stefán kom fyrir rétt, mælti dómarinn við hann hin fleygu orð: »Þér eruð sterkir, Íslendingur. En gleymið því aldrei, að skoska viskíið er sterkara.« Gerði hann Stefáni að greiða nokkra sekt.

Eftir heimsstyrjöldina síðari vöndu Íslendingar í Lundúnum komur sínar á Harrington Pub þar í borg. Þegar nálgaðist lokunartíma, kallaði gestgjafinn jafnan upp hátt og snjallt: »Frúr mínar og herrar, og Íslendingar líka, við erum að loka!« 

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í nýútkominni bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. desember 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband