Afhrópun Kristjáns X.

CristiàXdeDinamarcaÞegar ég las nýlega Íslandsdagbækur Kristjáns X., velti ég enn fyrir mér, hvers vegna Íslendingar afhrópuðu kónginn. Það var hvergi gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum frá 1918, að konungssambandið væri uppsegjanlegt.

Ég hef rakið ýmsar sögur um hranalega framkomu Kristjáns X. við Íslendinga. En setjum svo, að konungur hefði verið sami Íslandsvinurinn og faðir hans Friðrik VIII., heimsótt landið reglulega og orðið hvers manns hugljúfi. Ríkið hefði keypt Bessastaði fyrir konungssetur og dönsku konungshjónin unað sér þar vel. Hefði konungur þá verið afhrópaður? Nýja Sjáland er enn í konungssambandi við Stóra Bretland, þótt það sé hinum megin á hnettinum, og Elísabet II. er þjóðhöfðingi margra annarra samveldisríkja.

Þetta dæmi geymir eitt svar. Þótt Nýja Sjáland sé langt frá Bretlandseyjum, byggðist það þaðan. Nýsjálendingar og Bretar tala sama tungu og deila sömu menningu. Ísland byggðist ekki frá Danmörku. Við tölum ekki dönsku, og menning okkar er ekki dönsk, þótt vissulega megi greina hér margvísleg menningaráhrif frá Danmörku, flest heldur til bóta.

Annað ræður þó líklega úrslitum. Nýja Sjáland, Ástralía og Kanada hafa jafnan fylgt Stóra Bretlandi í stríði og friði, þótt sjálfstæð séu. Í fyrri heimsstyrjöld kom hins vegar áþreifanlega í ljós, að Ísland var á valdsvæði Breta, þótt það teldist dönsk hjálenda. Bretar sendu hingað ræðismann, sem tók utanríkisviðskiptin í sínar hendur og ritskoðaði fréttir þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi Danmerkur. Þetta varð enn skýrara í seinni heimsstyrjöld, þegar Danmörk var hernumin af Þjóðverjum og Ísland af Bretum. Danmörk gerðist jafnvel 1941 aðili að sáttmála Þýskalands, Japans, Ítalíu og Spánar gegn Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern.

Þegar dró að lokum stríðsins, vildu Íslendingar skiljanlega vera óbundnir af því, sem kynni að verða í Danmörku. Öðru máli hefði gegnt, hefði ákvörðun um konungssambandið verið tekin, eftir að Danmörk og Ísland voru bæði orðin aðilar að Atlantshafsbandalaginu og undir vernd Bandaríkjanna. Þá hefði það hugsanlega getað gengið upp.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. maí 2021.)
 

Kristján X. og Íslendingar

Christian_X_-_Peter_ElfeltÍ árslok 2018 kom út bók í Danmörku, Christian X og Island, en hún hefur að geyma dagbókarfærslur og athugasemdir Kristjáns X. um Ísland, en þær færði konungur til sérstakrar bókar, og sá prófessor Knud V. J. Jespersen um útgáfuna. Kristján var konungur Íslands frá 1918 fram að lýðveldisstofnun, því að með sambandslagasáttmálanum við Dani varð Ísland sjálfstætt og fullvalda konungsríki, þótt Danir færu til bráðabirgða eftir það með utanríkismál og landhelgisgæslu.

Mér þykir bókin öll hin merkilegasta. Konungur virðist hafa verið miklu samviskusamari og góðviljaðri maður en ég hafði talið, en hér uppi á Íslandi naut hann takmarkaðra vinsælda fyrir hranalega framkomu, og eru til af henni frægar sögur. En um leið skil ég betur, hvers vegna konungssambandið hlaut að slitna, þótt hvergi væri raunar gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum 1918, að það væri uppsegjanlegt. Konungur var Stórdani eins og það var iðulega kallað. Hann hafði takmarkaðan áhuga á hinum böldnu þegnum sínum í norðri og skildi illa viðleitni þeirra til sjálfstæðis. Hann var umfram allt konungur Danmerkur, ekki Íslands.

Þetta kemur meðal annars fram í tveimur samtölum, sem Kristján færir til bókar. Hið fyrra átti hann við Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Dana, 3. desember 1913. Þeir andvörpuðu báðir yfir kröfuhörku Íslendinga, en Zahle sagði, að hófsamir menn þar nyrðra hlytu að virða samstarfsvilja Dana. Án Danmerkur ætti Ísland sér engan bakhjarl. Norðmenn væru ágengir, en Bretar áhugalausir. Zahle taldi það kaldhæðni örlaganna, að háværustu Danahatararnir kæmu úr röðum íslensku stúdentanna í Kaupmannahöfn, sem notið hefðu rausnarlegra Garðstyrkja. Konungur var sammála forsætisráðherra sínum og varaði hann við að láta um of undan Íslendingum.

Seinna samtalið átti konungur 14. desember 1914 við danskan sjóliðsforingja, Paul Erhardt Saabye, sem gegnt hafði herþjónustu við strendur Íslands. Kvartaði sjóliðsforinginn undan Danahatri á Íslandi. Landsmenn væru almennt fáfróðir. Allir læsu þeir þó og kynnu Íslendingasögur, og það virtist ala á þvermóðsku þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. maí 2021.)


Þrælar í íslenskum sagnritum

thomas-sowell-documentary-trailerEinn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um þrælahald er hagfræðingurinn Thomas Sowell, sem hefur ef til vill frjálsari hendur en flestir aðrir um djarflegar kenningar, af því að hann er dökkur á hörund. En þrennt í bókmenntum og sögu Íslands styrkir kenningar hans.

Ein kenningin er, að þrælahald sé líklegt til að deyja út við venjulegar aðstæður, enda sé þræll meira virði frjáls en í ánauð. Hann sé þá líklegri til að láta uppskátt um hæfileika sína og njóta þeirra. Eins og Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur og Ragnar Árnason hagfræðingur hafa bent á, lagðist þrælahald á Íslandi fljótlega niður, og nærtækt er að álykta, að það sé, af því að það borgaði sig ekki. Í upphafi var skortur á fólki, en ekki landi, en þetta snerist við, þegar landið var fullbyggt og allar jarðir numdar. Þá lækkuðu laun frjálsra verkamanna í hlutfalli við afrakstur af landi, og ekki borgaði sig lengur að halda þræla.

Önnur kenningin er, að varða þurfi færan veg úr þrælahaldi í frelsi. Þessu lýsir sagnritarinn Snorri Sturluson vel í Heimskringlu, þegar hann segir frá Erlingi Skjálgssyni, sem leyfði þrælum sínum að hirða afrakstur af aukavinnu sinni og kaupa sig frjálsa, en með því fé keypti hann aðra þræla, sem unnu síðan til frelsis. Vísaði hann leysingjum sínum til fiskveiða eða í búskap. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Þriðja kenningin er, að þrælahald sé ekki í eðli sínu kúgun hvítra manna á svörtum, heldur hafi það tíðkast að fornu og á öðrum menningarsvæðum. Til dæmis voru líklega fleiri hvítir þrælar í Tyrkjaveldi soldánsins en svartir þrælar á ekrum Suðurríkjanna. Þetta ættu Íslendingar að vita öðrum fremur, því að hingað komu sjóræningjar frá Salé og Algeirsborg árið 1627, rændu um 400 Íslendingum og seldu í þrældóm. Varð aðeins um fimmtíu þeirra endurkomu auðið. Séra Ólafur Egilsson skrifaði merka bók um Tyrkjaránið, en hann var sendur frá Algeirsborg til Danmerkur að útvega lausnargjöld. Í bók hans kemur raunar fram, að Íslendingur hafi verið á einu skipinu og aðstoðað sjóræningjana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. maí 2021.)


Hvers vegna drap Gissur Snorra?

2.1 Snorri_sturluson_1930Síðustu misseri hef ég lesið aftur verk Snorra Sturlusonar og skrifað talsvert um hann, þar á meðal kafla í bókinni Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem kom út í Brüssel í desember 2020. Að mörgu er að hyggja. Mér sýnist, að helsti heimildarmaðurinn um Snorra, Sturla Þórðarson, hafi ekki alltaf látið föðurbróður sinn njóta sannmælis. Sturla tekur til dæmis fram, að Snorri hafi verið fjöllyndur. En hann var ekki fjöllyndari en aðrir höfðingjar á hans tíð, til dæmis fósturfaðir hans Jón Loftsson og fósturbræður hans í Odda.

Þótt Sturla gefi í skyn, að Snorri hafi í Noregsferðum sínum lofað að reyna að koma landinu undir konung, ber að veita því athygli, að hann talar jafnan um óskir Norðmanna, ekki fyrirheit Snorra sjálfs. Raunar er ljóst, að hann hefur ekki lofað neinu slíku, heldur aðeins því að vernda norska kaupmenn fyrir ágengni annarra goða. Það sést best á því, að eftir fyrri Noregsferð sína sendi Snorri son sinn, Jón murt, til hirðar konungs, en síðan fékk Jón leyfi til að snúa heim. Það hefði hann ekki fengið, hefði faðir hans rofið einhver gefin fyrirheit í Noregi. Órækasti vitnisburðurinn um skoðanir Snorra á konungsvaldi eru ræður Þórgnýs lögmanns hins sænska og Einars Þveræings í Heimskringlu. Ég er ekki heldur viss um, að Snorri hafi verið eins sérgóður og deigur og ætla mætti af lýsingum Sturlu.

Mestu máli skiptir, að Sturla var ólíkt Snorra konungssinni, sannfærður um, að Íslandi væri best borgið í veldi Noregskonungs. Hann forðaðist ætíð að styggja Norðmenn. Þess vegna lætur Sturla að því liggja, að Gissur Þorvaldsson hafi ákveðið upp á sitt eindæmi að drepa Snorra í Reykholti 1241. En það er afar ólíklegt. Snorri var maður friðsamur, og Gissuri stafaði engin hætta af honum. Þá var hins vegar svo komið, að Hákon Noregskonungur bar þungan hug til Snorra vegna þess, að hann taldi hann hafa stutt uppreisn gegn sér. Eina eðlilega skýringin á drápi Snorra er, að konungur hafi gefið Gissuri bein fyrirmæli um það, en Sturla hafi ekki viljað segja frá því berum orðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. maí 2021.)


Undirstaðan réttleg fundin

Í gær, hinn 30. apríl 2021, voru þrjátíu ár frá því, að Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. Hann átti eftir að verða forsætisráðherra í nær fjórtán ár, lengst allra manna, jafnt samfellt og samtals. Enginn vafi er á því, að þá urðu tímamót í Íslandssögunni, þótt margt væri í rökréttu framhaldi af því, sem áður hafði áunnist.

Stefna Davíðs var einföld og tvíþætt. Í fyrsta lagi vildi hann færa íslenska hagkerfið nær því, sem stóð í grannríkjunum, en hér voru enn margvísleg höft í gildi. Þetta tókst vonum framar. Árið 1991 var atvinnufrelsi á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum mælingum minnst á Norðurlöndum, en árið 2004 var það mest.

Í öðru lagi vildi Davíð færa völd og fjármagn úr höndum ríkisins, embættismanna og atvinnustjórnmálamanna, í hendur almennings, skattgreiðenda, neytenda og fjárfesta. Þetta tókst með skattalækkunum og sölu ríkisfyrirtækja. Skattalækkanirnar höfðu ekki í för með sér lægri tekjur ríkissjóðs, því að skattstofnar stækkuðu. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Sala ríkisfyrirtækja fól í sér, að fjármagnið varð virkt í stað þess að vera dautt. Hinir nýju eigendur gátu lagt niður fyrirtæki, sameinað þau öðrum, hlutað þau í sundur eða rekið þau áfram eftir efnum og ástæðum. Áður höfðu þessi fyrirtæki lotið sama lögmáli og kampavínið: þegar illa gengur, þarftu þess með; þegar vel gengur, verðskuldarðu það. Tap var talið sýna, að meiri framlaga væri þörf. Gróði var talinn sýna, að meiri framlög væru skynsamleg. Ekki var hreyft við neinu, allt gert eins og áður.

Sumir hafa bankahrunið 2008 til marks um, að stefnan hafi brugðist. Þessu er þveröfugt farið. Eins og ég sýndi fram á í skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið fyrir nokkrum árum, féllu íslensku bankarnir, af því að þeir fengu ekki þá lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabönkum stærri landa, sem bjargaði til dæmis Danske Bank í Danmörku, RBS í Skotlandi og UBS í Sviss, en án hennar hefðu þessir bankar og fleiri fallið. Íslenskt atvinnulíf var þó ekki lengi að ná sér eftir áfallið. „Varðar mest til allra orða, undirstaðan sé réttleg fundin,“ orti Eysteinn Ásgrímsson í Lilju. Ástæðan til þess, að vel gekk, er, að undirstaðan, sem lögð var 1991–2004, var traust. Hún var réttleg fundin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. maí 2021.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband