Þrælar í íslenskum sagnritum

thomas-sowell-documentary-trailerEinn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna um þrælahald er hagfræðingurinn Thomas Sowell, sem hefur ef til vill frjálsari hendur en flestir aðrir um djarflegar kenningar, af því að hann er dökkur á hörund. En þrennt í bókmenntum og sögu Íslands styrkir kenningar hans.

Ein kenningin er, að þrælahald sé líklegt til að deyja út við venjulegar aðstæður, enda sé þræll meira virði frjáls en í ánauð. Hann sé þá líklegri til að láta uppskátt um hæfileika sína og njóta þeirra. Eins og Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur og Ragnar Árnason hagfræðingur hafa bent á, lagðist þrælahald á Íslandi fljótlega niður, og nærtækt er að álykta, að það sé, af því að það borgaði sig ekki. Í upphafi var skortur á fólki, en ekki landi, en þetta snerist við, þegar landið var fullbyggt og allar jarðir numdar. Þá lækkuðu laun frjálsra verkamanna í hlutfalli við afrakstur af landi, og ekki borgaði sig lengur að halda þræla.

Önnur kenningin er, að varða þurfi færan veg úr þrælahaldi í frelsi. Þessu lýsir sagnritarinn Snorri Sturluson vel í Heimskringlu, þegar hann segir frá Erlingi Skjálgssyni, sem leyfði þrælum sínum að hirða afrakstur af aukavinnu sinni og kaupa sig frjálsa, en með því fé keypti hann aðra þræla, sem unnu síðan til frelsis. Vísaði hann leysingjum sínum til fiskveiða eða í búskap. „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Þriðja kenningin er, að þrælahald sé ekki í eðli sínu kúgun hvítra manna á svörtum, heldur hafi það tíðkast að fornu og á öðrum menningarsvæðum. Til dæmis voru líklega fleiri hvítir þrælar í Tyrkjaveldi soldánsins en svartir þrælar á ekrum Suðurríkjanna. Þetta ættu Íslendingar að vita öðrum fremur, því að hingað komu sjóræningjar frá Salé og Algeirsborg árið 1627, rændu um 400 Íslendingum og seldu í þrældóm. Varð aðeins um fimmtíu þeirra endurkomu auðið. Séra Ólafur Egilsson skrifaði merka bók um Tyrkjaránið, en hann var sendur frá Algeirsborg til Danmerkur að útvega lausnargjöld. Í bók hans kemur raunar fram, að Íslendingur hafi verið á einu skipinu og aðstoðað sjóræningjana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. maí 2021.)


Bloggfærslur 15. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband