Kristján X. og Íslendingar

Christian_X_-_Peter_ElfeltÍ árslok 2018 kom út bók í Danmörku, Christian X og Island, en hún hefur að geyma dagbókarfærslur og athugasemdir Kristjáns X. um Ísland, en þær færði konungur til sérstakrar bókar, og sá prófessor Knud V. J. Jespersen um útgáfuna. Kristján var konungur Íslands frá 1918 fram að lýðveldisstofnun, því að með sambandslagasáttmálanum við Dani varð Ísland sjálfstætt og fullvalda konungsríki, þótt Danir færu til bráðabirgða eftir það með utanríkismál og landhelgisgæslu.

Mér þykir bókin öll hin merkilegasta. Konungur virðist hafa verið miklu samviskusamari og góðviljaðri maður en ég hafði talið, en hér uppi á Íslandi naut hann takmarkaðra vinsælda fyrir hranalega framkomu, og eru til af henni frægar sögur. En um leið skil ég betur, hvers vegna konungssambandið hlaut að slitna, þótt hvergi væri raunar gert ráð fyrir því í sambandslagasáttmálanum 1918, að það væri uppsegjanlegt. Konungur var Stórdani eins og það var iðulega kallað. Hann hafði takmarkaðan áhuga á hinum böldnu þegnum sínum í norðri og skildi illa viðleitni þeirra til sjálfstæðis. Hann var umfram allt konungur Danmerkur, ekki Íslands.

Þetta kemur meðal annars fram í tveimur samtölum, sem Kristján færir til bókar. Hið fyrra átti hann við Carl Theodor Zahle, forsætisráðherra Dana, 3. desember 1913. Þeir andvörpuðu báðir yfir kröfuhörku Íslendinga, en Zahle sagði, að hófsamir menn þar nyrðra hlytu að virða samstarfsvilja Dana. Án Danmerkur ætti Ísland sér engan bakhjarl. Norðmenn væru ágengir, en Bretar áhugalausir. Zahle taldi það kaldhæðni örlaganna, að háværustu Danahatararnir kæmu úr röðum íslensku stúdentanna í Kaupmannahöfn, sem notið hefðu rausnarlegra Garðstyrkja. Konungur var sammála forsætisráðherra sínum og varaði hann við að láta um of undan Íslendingum.

Seinna samtalið átti konungur 14. desember 1914 við danskan sjóliðsforingja, Paul Erhardt Saabye, sem gegnt hafði herþjónustu við strendur Íslands. Kvartaði sjóliðsforinginn undan Danahatri á Íslandi. Landsmenn væru almennt fáfróðir. Allir læsu þeir þó og kynnu Íslendingasögur, og það virtist ala á þvermóðsku þeirra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. maí 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband