Nýr Birkiland?

Árið 1948 gaf Jóhannes S. Birkiland út bókina Harmsögu æfi minnar: Hvers vegna ég varð auðnuleysingi. Þjóðin brosti, ef til vill ekki alltaf góðlátlega, og Megas söng um hann vísur. Árið 2020 gefur Ólína Þ. Kjerúlf út bókina Spegil fyrir skuggabaldur: atvinnubann og misbeiting valds. Undirtitill hennar gæti verið: Hvers vegna enginn vill ráða mig í vinnu. Og þjóðin andvarpar og spyr, hvort blessuð konan ætti ekki að líta í eigin barm í leit að skýringu.

Í harmatölu sinni nefnir Kjerúlf þá kenningu, að bækur Halldórs Laxness hafi ekki komið út í Bandaríkjunum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, af því að íslensk og bandarísk stjórnvöld hafi lagst gegn því. Þessu til stuðnings nefnir hún ýmis skjöl um samskipti íslenskra og bandarískra ráðamanna frá árunum 1947–1949, sem fundist hafa í bandarískum söfnum.

Eins og ég benti á í Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 27. nóvember, eru þau skjöl alls ekki um neitt slíkt. Þau eru um áhuga stjórnvalda á að rannsaka, hvort Laxness hefði vantalið tekjur frá Bandaríkjunum í íslensku skattframtali sínu og brotið reglur um skil á gjaldeyristekjum, og reyndist svo hvort tveggja vera.

Brella Kjerúlfs er að veifa með fyrirgangi og þjósti skjölum um allt annað efni en verið er að tala um. Hún fetar þannig ekki aðeins í fótspor Birkilands, heldur líka Ólafs Friðrikssonar Möllers, kaffihúsaspekings í Reykjavík og eins helsta frumkvöðuls jafnaðarstefnu á Íslandi. Ungur og óreyndur vinstri maður ætlaði eitt sinn í framboði. Hann spurði Ólaf, hvernig hann skyldi bregðast við frammíköllum á fundum. „Uss, það er ekkert mál,“ svaraði Ólafur. „Þú gerir bara það sama og ég gerði einu sinni á fundi, þegar einhver náungi fór að kalla fram í fyrir mér. Þá hvessti ég á hann augun og sagði hátt og snjallt: Þú varst ekki svona borubrattur forðum, þegar þú grést úti í Viðey! Maðurinn snarþagnaði. Hann hafði sennilega aldrei komið út í Viðey. En við þessu átti hann ekkert svar.“

Þeir Jóhannes Birkiland og Ólafur Möller enduðu að vísu báðir á Kleppi. Sem betur fer hefur viðhorf okkar til furðufugla breyst.

(Fróðlieiksmoli í Morgunblaðinu 28. nóvember 2020.)


Til varnar Halldóri Laxness

Vandséð er, hvaða greiði Halldóri Laxness er gerður með því að efna til umræðna um skattframtöl hans og gjaldeyrisskil á fimmta áratug síðustu aldar, en upp komst árið 1947, að hann hefði brotið þágildandi reglur á Íslandi og hvorki talið hér fram tekjur sínar í Bandaríkjunum né skilað gjaldeyri, sem hann hafði aflað sér þar vestra. Hafði talsvert selst 1946 af Sjálfstæðu fólki, sem Alfred Knopf gaf þá út í enskri þýðingu, ekki síst vegna þess að hún var einn mánuðinn valbók í hinu fjölmenna Mánaðarritafélagi (Book-of-the-Month Club). Segi ég frá þessum málum í þriðja bindi verks míns um Laxness, sem kom út 2005.

Ranglátar reglur

Allt frá kreppuárunum voru hér í gildi strangar reglur um það, að menn yrðu að telja allar erlendar tekjur sínar fram og skila til ríkisins öllum þeim gjaldeyri, sem þeir öfluðu erlendis. Naut þó Samband íslenskra samvinnufélaga þeirra fríðinda að mega ráðstafa erlendum gjaldeyristekjum sínum til að greiða erlendar skuldir. Aðrir gátu iðulega ekki greitt slíkar skuldir fyrr en seint og illa, því að þeir fengu ekki nægar gjaldeyrisyfirfærslur. Svo sem vænta mátti, tregðuðust því flestir þeir, sem höfðu erlendar tekjur, til dæmis útflytjendur saltfisks, við að færa þær til Íslands. Málgagn íslenskra sósíalista, Þjóðviljinn, skrifaði ófáar greinar um það hneyksli. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að þessar reglur hafi verið ranglátar og þess vegna ekki við öðru að búast en menn brytu þær, þótt deila megi um, hvort það hafi verið siðferðilega réttmætt („borgaraleg óhlýðni“).

Þegar yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu skoðaði framtal Laxness fyrir 1946, komst hún að því, að hann hafði þar ekki talið fram erlendar tekjur sínar, eins og honum var þó skylt, en allir vissu af því, að Sjálfstætt fólk hafði selst vel í Bandaríkjunum. Hækkaði yfirskattanefnd því framtal hans verulega. Laxness skaut ákvörðun hennar til ríkisskattanefndar, en hún hækkaði framtal hans enn frekar, enda lagði hann ekki fram nein gögn um kostnað á móti tekjum sínum í Bandaríkjunum. Í rannsókn málsins kom í ljós, að Laxness hafði greitt skatt í Bandaríkjunum af tekjum sínum þar, en ekki til viðbótar skatt á Íslandi, eins og tilskilið var, og tókst sátt um, að hann greiddi verulega fjárhæð í skatt hingað, meira en yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði ákveðið honum, en minna en ríkisskattanefnd vildi.

Gjaldeyrisskil Laxness voru síðan sérstakt mál. Hann hafði ekki skipt í íslenskar krónur gjaldeyri, sem hann hafði fengið frá útlöndum, eins og honum var líka skylt, heldur geymt og notað til eigin þarfa. Dómsmálaráðuneytið bauð Laxness sátt um nokkra sekt fyrir þetta brot, en Laxness tók ekki því boði, og var þess vegna höfðað mál gegn honum, sem lauk með hæstaréttardómi árið 1955. Var hluti sakarinnar fyrndur, en Laxness var gert að greiða sekt í ríkissjóð. Þessi tvö mál komu til kasta tveggja opinberra aðila auk skattanefnda og dómstóla, sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og dómsmálaráðuneytisins. Sýslumaðurinn var Guðmundur Í. Guðmundsson, þingmaður Alþýðuflokksins, en dómsmálaráðherra Bjarni Benediktsson úr Sjálfstæðisflokknum. Voru þeir aðeins að framfylgja settum reglum eftir bestu samvisku, og raunar var Bjarni andvígur gjaldeyrishöftunum og beitti sér fyrir því, að þau voru afnumin í tveimur áföngum, 1950 og 1960.

Trimble og Bjarna skjátlaðist um Laxness

Brot Laxness á hinum ranglátu reglum, sem voru í gildi á Íslandi, eru að mínum dómi skiljanleg. Af hverju átti hann að þurfa að skila öllum gjaldeyristekjum sínum til ríkisins og fá fyrir krónur á óhagstæðu gengi í stað þess að ráðstafa sjálfur tekjunum erlendis? Nú gera vinstri menn eins og Ólína Þ. Kjerúlf og Halldór Guðmundsson hins vegar veður út af því, að samkvæmt skýrslum bandarískra sendimannna á Íslandi veltu þeir því fyrir sér, hvort ekki mætti nota brot Laxness honum til minnkunar. Skáldið var þá eindreginn stalínisti og hafði borið íslenska stjórnmálamenn landráðasökum í Atómstöðinni, sem kom út snemma árs 1948. Sendi William C. Trimble, sendifulltrúi Bandaríkjanna, skeyti til utanríkisráðuneytis lands síns í febrúar 1948: „Athugið, að orðstír Laxness myndi skaðast verulega, ef við komum því til skila, að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum, sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk.“ Hér skjátlaðist Trimble. Almenningur á þeirri tíð taldi brot á þessum reglum ekkert tiltökumál. Orðspor Laxness skaðaðist lítt, þótt upp um hann kæmist. 

Hitt finnst mér ámælisvert, ef menn leggja annan mælikvarða á Laxness, af því að hann var snjall rithöfundur, en á aðra þá, sem öfluðu gjaldeyristekna, svo sem saltfiskútflytjendur. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, líka Laxness. Tekjur hans erlendis voru eins og tekjur saltfiskútflytjenda vel fengið fé. Þetta var sjálfsaflafé, og hann átti eins og þeir að njóta þess sjálfur, en ekki horfa á ríkið gera það upptækt með rangri gengisskráningu og skilaskyldu. Öðru máli gegnir um illa fengið fé. Halldór Guðmundsson hefur yfirumsjón með þeim miklu eignum, sem eftir eru í búi bókafélagsins Máls og menningar, en upplýst hefur verið, að það félag hlaut stórkostlega fjármuni í styrki frá alræðisstjórninni í Moskvu á sjötta og sjöunda áratug og gat þess vegna reist stórhýsi við Laugaveg. Hefur þeirra fjármuna eflaust verið aflað með skógarhöggi og námugrefti í þrælabúðum norðan heimsskautsbaugs. Færi vel á, að þessum fjármunum væri skilað til Rússlands, til dæmis í myndarlegt framlag frá Máli og menningu til stofnunarinnar Minningar (Memorial) í Moskvu, sem hefur þann tilgang að halda á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans, en á undir högg að sækja undir stjórn Pútíns.

Bjarna Benediktssyni skjátlaðist ekki síður en Trimble. Í bandarískum skýrslum kemur fram, að hann velti fyrir sér, hvort Laxness fjármagnaði af erlendum tekjum sínum hina öflugu starfsemi íslenskra sósíalista. Bjarni hefur bersýnilega lítt verið kunnugur Laxness. Fátt hefði verið fjær skáldinu en að ráðstafa erlendum tekjum sínum í hugsjónastarf. Laxness klæddist vönduðustu fötum, sem völ var á, ók um á glæsikerru, bjó í skrauthýsi á íslenskum mælikvarða, lét gera sér fyrstu einkasundlaug á Íslandi og dvaldist langdvölum erlendis við munað, til dæmis á d’Angleterre í Kaupmannahöfn. Þetta var að mínum dómum skiljanlegt og jafnvel lofsvert. Auðvitað var sjálfsaflafé Laxness miklu betur varið í að búa honum þægilegar aðstæður til að skrifa af samúð og skilningi um fátæklingana á Íslandi en í blaðaútgáfu og fundahöld á vegum rifrildismanna. Í viðskiptum var Laxness sannur kapítalisti.

Órökstuddar getgátur

Þau Kjerúlf og Halldór vitna til gagna úr bandarískum skjalasöfnum, sem eiga að sýna samantekin ráð gegn Laxness. Að vísu verður að meta skýrslur erlendra sendimanna um samtöl við íslenska ráðamenn af meiri varúð en þau gera, en ég tel þau tvímælalaust hafa rétt fyrir sér um, að samantekin ráð hafi verið um að rannsaka, hvort Laxness hefði gerst brotlegur við íslenskar reglur um skattframtöl og gjaldeyrisskil, og það reyndist rétt vera. En þau Kjerúlf og Halldór ganga lengra og láta að því liggja, að samantekin ráð hafi líka verið um að stöðva útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Því er til að svara, að engin gögn hafa fundist um það. Um er að ræða órökstuddar getgátur, eins og Halldór viðurkennir raunar í grein sinni hér í blaðinu miðvikudaginn 25. nóvember. 

Er líklegt, að útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hafi ákveðið að gefa ekki út fleiri bækur Laxness vegna þeirra fyrirspurna, sem umboðsfyrirtæki skáldsins, Curtis Brown, og Mánaðarritafélaginu bárust um tekjur hans og skattgreiðslur? Óvíst er, að Knopf hafi vitað af þeim. Og jafnvel þótt hann hefði vitað af þeim, tel ég líklegt, að hann hefði haldið áfram að gefa út bækur Laxness, hefði hann séð í því hagnaðarvon. Knopf var sami kapítalistinn og Laxness sjálfur. Og hefði hann sjálfur horfið frá því af stjórnmálaástæðum, þá hefðu aðrir væntanlega stokkið til eftir sömu forsendu, að þeir sæju í því hagnaðarvon. Árið 1988 kom út í Bandaríkjunum bók eftir einn menningarrýnanda New York Times, Herbert Mitgang, og var hún um eftirlit alríkislögreglunnar í kalda stríðinu með ýmsum rithöfundum og menntamönnum, sem hún taldi varhugaverða. Einn þeirra var Alfred Knopf. Af því tilefni ræddi New York Times 5. febrúar við son Knopfs, sem sagðist vera steinhissa á þessu. „Hann var hinn dæmigerði kapítalisti,“ sagði hann um föður sinn. „En hann gaf út allt, sem honum fannst eiga erindi á prent. Hann skeytti engu um stjórnmálaskoðanir.“

(Grein í Morgunblaðinu 27. nóvember 2020.)


Nozick og íþróttakappinn

25.3.WiltChamberlainFyrir viku minntist ég hér á bandaríska heimspekinginn Robert Nozick, sem átt hefði afmæli 16. nóvember. Ég kynntist honum nokkuð, og hann var stórkostlegur maður. Hann samdi snjalla dæmisögu um, hvernig hugmyndir jafnaðarmanna um tekjudreifingu rekast á frelsi. Setjum svo, að þeim hafi tekist í landi einu að koma á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá mæti körfuknattleikskappinn Wilt Chamberlain til leiks og semji um, að hver maður greiði 25 sent af aðgöngumiðanum til hans beint. Milljón manns tekur boði hans. Eftir leiktímabilið er hann orðinn 250 þúsund dölum ríkari, en áhorfendur hans hver 25 sentum fátækari. Til er orðin tekjudreifing T2, sem er ójafnari en T1. Hvar er ranglætið? Allir eru ánægðir, jafnt íþróttakappinn sjálfur og aðdáendur hans.

Ég hef notað svipað dæmi. Setjum svo, að jafnaðarmönnum hafi tekist að koma á Íslandi á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá heimsæki Milton Friedman landið, auglýsi fyrirlestur og taki fyrir hann 10.000 kr. á mann. Húsfyllir verður: 500 manns hlustuðu á Friedman. Nú er Friedman 5 milljónum krónum ríkari og áheyrendur hans hver 10.000 krónum fátækari. En þeim fannst fyrirlesturinn vel þess virði. Til er orðin ójafnari tekjudreifing T2. Hvar er óréttlætið? Þorsteinn Gylfason heimspekingur notaði enn annað skemmtilegt dæmi, af Garðari Hólm stórsöngvara, sem kemur til Ólands og heldur tónleika. Ég hef bent á, að Nozick hefur hugsanlega fengið hugmyndina að dæmisögunni úr bókinni God and Man at Yale eftir William Buckley, en þar spyr höfundur, hvað sé að því, að hafnaboltakappinn Joe DiMaggio (sem var um skeið kvæntur þokkagyðjunni Marilyn Monroe) verði ríkur á því, að fólk vilji sækja leiki hans. 

Kjarni málsins er sá, að frelsi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum raskar hugmyndum jafnaðarmanna um réttláta tekjudreifingu. Fólk ráðstafar þeim stundum til einstaklinga með óvenjulega hæfileika, sem auðga mannlífið og sjálfa sig um leið. Ótal jafnaðarmenn hafa spreytt sig á að hrekja þessa dæmisögu Nozicks, en ekki tekist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2020.)


Ánægjuvél Nozicks

25.1 Nozick.GettyImages-53375871Næsta mánudag á bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick afmæli. Hann fæddist 16. nóvember 1938 og lést langt fyrir aldur fram 23. janúar 2002. Í væntanlegri bók á ensku um frjálslynda og íhaldssama stjórnmálahugsuði segi ég frá kynnum okkar, en við áttum merkilegar samræður um heima og geima. Bók Nozicks, Stjórnleysi, ríki og staðleysur (Anarchy, State and Utopia), vakti mikla athygli, þegar hún kom út 1974. Í fyrsta hlutanum svaraði hann stjórnleysingjum og sýndi fram á, að ríkið gæti sprottið upp án þess að skerða réttindi einstaklinganna. Í öðrum hlutanum svaraði hann jafnaðarmönnum og leiddi rök að því, að ekkert ríki umfram lágmarksríkið, sem fengist aðeins við að halda uppi lögum og rétti, væri siðferðilega réttlætanlegt. Í þriðja hlutanum benti hann á, að innan lágmarksríkisins gætu menn auðvitað stundað sósíalisma, stofnað sitt eigið draumríki, svo framarlega sem þeir neyddu aðra ekki inn í það.

Nozick telur, að hver maður sé tilgangur í sjálfum sér og hann megi ekki nota eingöngu sem tæki fyrir aðra. Hann andmælir þess vegna nytjastefnu, sem telur tilgang heildarinnar vera sem mesta ánægju sem flestra. Þetta getur kostað það, að einstaklingi sé fórnað fyrir heildina. En er ánægjan eftirsóknarverð í sjálfri sér? Nozick ímyndar sér vél, sem við gætum stigið inn í og valið þar um lífsreynslu að vild, til dæmis ánægjuna af að hafa samið stórkostlegt tónverk, drukkið höfug vín og eignast góða vini. Engar hliðarverkanir væru af dvölinni, og við gætum valið á tveggja ára fresti, hvort við vildum halda vistinni áfram. Myndum við stíga inn í þessa ánægjuvél? Nei, svarar Nozick, því að við viljum vera eitthvað og gera eitthvað sjálf, ekki lifa í manngerðum veruleika.

Ánægjuvél Nozicks er hugvitsamleg, en ég er dálítið hissa á, að enginn fræðimaður skuli hafa bent á, að þýski heimspekingurinn Friedrich Paulsen setti fram svipað dæmi, nema hvað hann hugsaði sér ódáinsdrykk, en ekki vél, í Siðferðislögmálum (System der Ethik), II. bók, II. kafla, 4. grein (Berlin 1889).

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020.)


Dreifstýrð Bandaríki

Fréttnæmast við úrslit kosninganna í Bandaríkjunum er ef til vill, hversu langt þau voru frá spádómum allra spekinganna, sem birst hafa á sjónvarpsskjám um allan heim og endurtekið tuggur hver frá öðrum. Þegar þetta er skrifað, virðast Lýðveldissinnar (Repúblikanar) hafa haldið velli í Öldungadeildinni og unnið nokkur sæti í Fulltrúadeildinni, og forsetaefni þeirra bíður nauman ósigur fyrir forsetaefni Lýðræðissinna (Demókrata). Minnihlutahópar hafa kosið Lýðveldissinna í meira mæli en oftast áður. Innan Lýðræðisflokksins heyrast nú raddir um, að fámenn klíka háværra vinstri manna megi ekki ráða þar ferð, en hún vill fella niður fjárveitingar til lögreglunnar og stórhækka skatta á hátekjumenn. Slíkir skattar lenda alltaf að lokum á miðstéttinni, því að hátekjumennirnir, sem eru einmitt einhverjir öflugustu stuðningsmenn Lýðræðisflokksins, kunna ótal ráð til að koma sér undan þeim. (Tveir ríkustu menn heims, Jeff Bezos og Carlos Slim, eiga mikið eða allt í Washington Post og New York Times, sem bæði styðja Lýðræðisflokkinn, og Twitter og Facebook veittu Lýðræðisflokknum grímulausan stuðning.)

Annað er líka umhugsunarefni, fávíslegar athugasemdir spekinganna á skjánum um bandarísk stjórnmál. Þeir virðast ekki vita, að Bandaríkin eru samband fimmtíu ríkja, og hvert ríki hefur sinn hátt á að kjósa til forseta og í öldungadeild og fulltrúadeild. Ríkin kjósa forsetann, en ekki sú merkingarlausa tala, sem fæst með því að leggja saman fjölda fólks með kosningarrétt í ríkjunum fimmtíu. Þess vegna var auðvitað líka viðbúið, að tafir yrðu sums staðar á talningu. Aðferðirnar eru ólíkar. Bandaríkin eru dreifstýrt land, ekki miðstýrt. Fullveldinu er þar skipt milli ríkjanna fimmtíu og alríkisins. Eins og Alexis de Tocqueville benti á í sínu sígilda verki um Bandaríkin, er dreifstýringin skýringin á því, hversu vel heppnað hið bandaríska stjórnskipulag er ólíkt hinu franska, sem lauk í byltingunni með ógnarstjórn og hernaðareinræði. Tocqueville nefndi ekki aðeins skiptingu valdsins milli einstakra ríkja og alríkisins, heldur líka sjálfstæði dómstóla og frumkvæði borgaranna í framfaramálum. Bandarískt stjórnskipulag er til þess gert að standast misjafna valdsmenn eins og skip eru smíðuð fyrir storminn, ekki lognið. Sé allt það rétt, sem andstæðingar núverandi forseta segja um hann, þá er það enn ein staðfestingin á greiningu Tocquevilles, að Bandaríkin skuli hafa komist bærilega af undir fjögurra ára stjórn hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband