Afturköllunarfárið

Kress.HÍ.1986Siðfræðingarnir uppi í Háskóla eru fljótir að taka til máls, þegar menn af hægri væng eru taldir misstíga sig. Til dæmis hefur Henry Alexander Henrysson krafist þess opinberlega, að Illugi Gunnarsson, þingmenn Miðflokksins og Kristján Þór Júlíusson segi af sér, ýmist fyrir vináttu við aðra eða ógætileg ummæli í einkasamtölum. En ég hef ekki orðið var við, að Henry Alexander eða hinir siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni, þeir Vilhjálmur Árnason og Jón Ólafsson, hafi sagt neitt um mál Róberts Spanós, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, sem þáði í september síðast liðinn heiðursdoktorstitil í Istanbul, þótt þúsundir tyrkneskra háskólakennara hefðu nýlega verið flæmdar úr stöðum sínum. Jafnframt heimsótti hann borgarstjórann í Mardin, sem Erdogan forseti skipaði eftir að hafa sett löglega kjörinn borgarstjóra af.

Þögn siðfræðinganna um þetta mál er æpandi, en aðrir minntu á, að Gunnar Gunnarsson þáði heiðursdoktorstitil í Heidelberg á valdatíma nasista. Sá munur er þó á, að Gunnar var ekki embættismaður. Hann þurfti ekki að sitja í dómarasæti yfir tyrkneskum stjórnvöldum eins og Spanó á væntanlega eftir að gera. En ef til vill er enn forvitnilegra, hvort afturkalla eigi heiðursdoktorstitla, eins og nú er að verða algengt. Nokkrir bandarískir háskólar hafa til dæmis ógilt slíkar nafnbætur leikarans Bills Cosbys, eftir að uppvíst varð um kynferðisbrot hans. Árið 2007 afturkallaði Edinborgarháskóli doktorstitil Roberts Mugabes, leiðtoga Simbabve, vegna síendurtekinna mannréttindabrota. Elsta dæmið, sem ég kann, var, þegar Pennsylvaníu-háskóli afturkallaði í ársbyrjun 1918 heiðursdoktorstitla þeirra Vilhjálms II. Þýskalandskeisara og sendiherra Þýskalands í Bandaríkjunum, Johanns von Bernstorffs.

Sjálfum finnst mér nóg um þetta afturköllunarfár (cancel culture). Það er samt umhugsunarefni. Árið 1980 afturkallaði Keele-háskóli í Bretlandi heiðursdoktorstitil Kurts Waldheims, forseta Austurríkis, eftir að í ljós kom, að hann hafði verið í þýska hernámsliðinu í Júgóslavíu á stríðsárunum, þótt engir stríðsglæpir hefðu sannast á hann. Og við eigum íslenskt dæmi. Árið 1975 veitti Háskólinn þýska málfræðingnum Bruno Kress heiðursdoktorstitil. Hann var ákafur nasisti fyrir stríð, félagi nr. 3.401.317 í Nasistaflokknum þýska og styrkþegi „rannsóknarstofnunar“ SS-sveitanna, Ahnenerbe, Arfleifðarinnar, en forstjóri hennar og fleiri starfsmenn reyndust sekir um alvarlega stríðsglæpi. Hefði Háskólinn átt að fara að dæmi Keele-háskóla? Sjálfur er ég ekki viss um það. En siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni ættu ef til vill að ræða það í sömu andrá og mál Spanós.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. desember 2020.)


Ólíkt höfðust prófessorarnir að

Erlendur.Barzani

Fyrir nokkrum dögum bar ég til grafar dr. Erlend Haraldsson sálfræðiprófessor. Ungur hafði hann farið í svaðilför til Kúrdistan, en því svæði er skipt upp milli fjögurra ríkja, Tyrklands, Íraks, Írans og Sýrlands. Kúrdar eru sérstök þjóð, sem talar kúrdísku, en hún er skyld persnesku. Sæta þeir síharðnandi ofsóknum í Tyrklandi. Erlendur samdi árið 1964 ágæta bók um för sína, Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan. Þar lýsti hann af samúð og skilningi þessari hálfgleymdu og aðþrengdu þjóð án ríkis.

Þá rifjaðist upp fyrir mér, að í september síðast liðnum fór fyrrverandi lagaprófessor, Róbert Spanó, sem nú er fulltrúi Íslands í Mannréttindadómstól Evrópu og raunar forseti dómsins, til Tyrklands í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Í förinni hitti hann Erdogan, forseta Tyrklands, sem tekið hefur sér einræðisvald, og lét smella af sér mynd með honum. Spanó þáði heiðursdoktorstitil við Háskólann í Istanbul, en þar og í öðrum háskólum Tyrklands hafa þúsundir manna verið flæmdar úr störfum sakir ætlaðrar andstöðu við stjórn Erdogans. Aðrar þúsundir dómara og saksóknara hafa líka verið sviptar embættum. Tyrkland hefur smám saman verið að breytast í einræðis- og jafnvel alræðisríki. Fangelsi eru þar troðfull.

Spanó lét sér þetta ekki nægja, heldur fór með tyrkneskri vinkonu sinni, fulltrúa Tyrklands í dómstólnum, Saadet Yüksel, í skóla í Mardin í Suðaustur-Tyrklandi. Fjölskylda Yüksels kostar skólann, en þar er nemendum innrættur íslamskur rétttrúnaður. Vandamenn Yüksels gegna trúnaðarstörfum í stjórn Erdogans. Jafnframt hitti Spanó að máli borgarstjórann í Mardin, Mahmut Demirtas, en Erdogan setti hann í embætti, eftir að hann hafði rekið hinn löglega kjörna borgarstjóra úr röðum Kúrda. Um helmingur íbúanna í héraðinu eru Kúrdar. Með augljósu skeytingarleysi sínu um kúgunina í Tyrklandi og undirokun Kúrda hefur Spanó sett blett á Mannréttindadómstólinn, eins og Ingibjörg Sólrún GísladóttirÖgmundur Jónasson og fleiri hafa bent á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. desember 2020.)

Erdogan.Spano


Nokkrar fleiri villur í bók Kjartans um kommúnista

Draumar_og_veruleiki_72_TilnefningÍ ritdómi mínum í Morgunblaðinu 10. desember 2020 um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika (í næsta bloggi hér á undan) nefndi ég nokkrar villur í bókinni. Þær eru margar fleiri, þótt ég vildi ekki eyða of miklu rými í að telja þær upp. Hér eru nokkrar, flestar smávægilegar, ef  bókin verður einhvern tíma endurprentuð (en eitthvað er líka af stafvillum, sem ég hirti ekki um að leiðrétta):

Lærimeistari Einars Olgeirssonar í Berlín hét Duncker, ekki Duncher (bls. 21).

Höfuðborg Eistlands heitir Tallinn, ekki Tallin (bls. 24).

Samband ungra kommúnista var ekki stofnað 12.–16. nóvember 1924 (bls. 27), þótt það þing þess hafi verið nefnt stofnþing. Sambandið var stofnað í febrúar 1924 í kyrrþey.

Stjórn SUK, sem Kjartan nefnir (bls. 27), var ekki fyrsta stjórn Sambandsins, heldur önnur. Í fyrstu stjórninni frá því í febrúar 1924 voru Hendrik S. Ottósson, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Jón Brynjólfsson, Guðmundur Sveinsson og Haukur S. Björnsson. Fljótlega settust þó Brynjólfur Bjarnason og Ársæll Sigurðsson í stjórnina í stað Hendriks og Jóns.

Í annarri stjórninni var enginn Þórarinn Pétursson (bls. 27). Kjartan hlýtur að eiga við Þorstein Pétursson, sem sat í stjórninni.

Maður í annarri stjórninni og síðar forseti SUK hét Sigurgeir Björnsson, ekki Siggeir (bls. 27).

Nathan Friedmann var ekki munaðarlaus (bls. 30), þegar hann kom til Íslands. Hann átti móður á lífi og raunar ættingja í Sviss.

Ólafur Friðriksson hafði ekki forgöngu um fyrstu kröfugönguna 1. maí 1923 (bls. 32), þótt hann væri formaður undirbúningsnefndar. Það var Hendrik Ottósson, sem bar fram tillögu um kröfugöngu á fundi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík í aprílbyrjun.

Í sambandi ungra kommúnista voru ekki tvö félög (bls. 32), heldur þrjú, í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Tvö hin síðarnefndu voru hins vegar vissulega nafnið eitt.

Kjartan nefnir Verklýðssamband Norðurlands Verkalýðssamband (bls. 59, 87 og víðar). Þetta er auðvitað smáatriði, en í umsögn í Tímariti Máls og menningar 1993 um rit eftir Árna Snævarr um íslenska kommúnista var sérstaklega fundið að því, að hann hefði ranglega kallað málgagn þeirra Verkalýðsblaðið, ekki Verklýðsblaðið. Leyfi ég mér því að nefna þetta.

Garnaslagurinn í Reykjavík var ekki haustið 1930, heldur 11. desember (bls. 85).

Einn af böðlum Stalíns hét Lazar Kaganovítsj, ekki Lazsar (bls. 118).

Kjartan hefur eftir Arnóri Hannibalssyni (bls. 120), að óvíst sé, hver Stefánsson sé, sem Komintern hafi valið í stjórnmálanefnd (miðstjórn) kommúnistaflokksins 1934, en ég bendi á í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, að þetta var Benedikt Stefánsson, mágur Hjalta Árnasonar.

Kjartan segir, að fyrsta íslenska sendinefndin hafi farið til Ráðstjórnarríkjanna haustið 1931 (bls. 126), en fyrr á árinu höfðu þeir Stefán Ögmundsson og Haraldur Bjarnason raunar farið saman þangað austur í boðsferð. Enn fremur höfðu þrír fulltrúar frá Íslandi setið verkalýðsmót í Moskvu 1930 og síðan ferðast suður á bóginn.

Finnland hlaut ekki sjálfstæði árið 1918 (bls. 201), heldur í desember 1917.

Kjartan segir, að kröfugöngur hafi verið farnar í Reykjavík 1. maí ár hvert allt frá 1923 (bls. 228), en þær lágu niðri í nokkur ár frá 1927.

Mynd af Laxness að halda ræðu 1. maí (bls. 322) er frá 1936, eins og ég get um í bók minni, ekki 1937.

Á einum stað (bls. 25) segir Kjartan réttilega, að FUK hafi verið stofnað 23. nóvember 1922 (á ársafmæli svokallaðs Drengsmáls), á öðrum (bls. 31) ranglega, að það hafi verið stofnað 3. nóvember.

Kjartan er maður háaldraður og gerði eflaust sitt besta, enda er bók hans skrifuð af heiðarleika og einlægni, og auðvitað gjörþekkir hann sögu Sósíalistaflokksins á sjötta og sjöunda áratug, þegar hann starfaði þar. Þar eru miklu færri villur en í fyrri hlutanum. En útgefandinn hefði átt að fá einhvern vandvirkari mann en Jón Ólafsson til að fara yfir handritið. Og sá yfirlesari hefði haft gott af því að skoða bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna betur en þeir Kjartan og Jón gera, en raunar er ekki minnst á bók Snorra, Roðann í austri, í bók Kjartans. Hefur Snorri þó gert rækilegar frumrannsóknir á sögu kommúnistahreyfingarinnar, og er mér ánægja að segja frá því, að bráðlega er væntanlegt hjá Almenna bókafélaginu tveggja binda verk Snorra um kommúnistahreyfinguna íslensku. Fer hann þar í saumana á ýmsum álitamálum.

Ég sleppti líka í ritdómi mínum hugleiðingum um aðgang að heimildum, en um það mál má margt segja. Kjartan hefur haft aðgang að heimildum, sem ekki voru tiltækar, þegar ég skrifaði bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, aðallega fróðlegum bréfum Stefáns Pjeturssonar til Einars Olgeirssonar, en einnig að önnur skjölum, sem hann segir geymd á góðum stað. Breyta þessar heimildir þó engu um  bók mína. Kjartan segir líka frá skjölum, sem hafi horfið, og er á honum að skilja, þótt hann segi það ekki beint, að Einar Olgeirsson hafi fjarlægt þau úr skjalasafni Sósíalistaflokksins. Mér er sagt, að enn sé talsvert af slíkum skjölum í vörslu einkaaðila. Er þetta mál allt hið dularfyllsta, en ráðlegt að segja sem minnst um það að sinni.


Ritdómur um bók Kjartans Ólafssonar

Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn

Draumar og veruleiki

Stjórnmál í endursýn

eftir Kjartan Ólafsson
Mál og menning, 2020. 568 bls.

Á jóladag 1991 var hinn rauði fáni Ráðstjórnarríkjanna dreginn niður í síðasta sinn í Kremlkastala. Mannfrekasta tilraun mannkynssögunnar hafði mistekist, en saga hennar er rækilega rakin í Svartbók kommúnismans, sem kom út á íslensku 2009 og ætti að vera skyldulesning í öllum skólum. Heimskommúnisminn teygði sig snemma norður til Íslands, þar sem sannfærðir kommúnistar störfuðu fyrst í vinstri armi Alþýðuflokksins, stofnuðu síðan eigin flokk 1930, lögðu hann niður 1938 og sameinuðust vinstri jafnaðarmönnum í Sósíalistaflokknum, lögðu hann niður 1968 og sameinuðust vinstri þjóðernissinnum í Alþýðubandalaginu, sem breyttist þá úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Alþýðubandalagið var loks lagt niður 1998, og gengu flestir liðsmenn þess ýmist í Samfylkinguna eða Vinstri græna. Nú hefur Kjartan Ólafsson háaldraður gefið út þætti úr sögu þessarar hreyfingar. Hann þekkir hana flestum öðrum betur, en hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins 1962–1968, starfsmaður Alþýðubandalagsins 1968–1972 og ritstjóri Þjóðviljans um árabil.

Sannir trúmenn: Einar, Brynjólfur og Kristinn

EinarBók Kjartans er mikil að vöxtum, í stóru broti og prýdd fjölda mynda, sem sumar hafa ekki birst áður. Hún er lipurlega skrifuð að hætti þjálfaðs blaðamanns, þótt talsvert sé um endurtekningar og lýsingar séu ósjaldan langdregnar. Það lífgar upp á verkið, að Kjartan beinir einkum sjónum að þremur helstu forystumönnum hreyfingar kommúnista og vinstri sósíalista á Íslandi, þeim Einari Olgeirssyni, Brynjólfi Bjarnasyni og Kristni E. Andréssyni, en þeim kynntist hann öllum og þó misvel. Gátan, sem hann reynir að ráða, er, hvers vegna þessir þrír hæfileikamenn urðu grjótharðir stalínistar, sem þrættu fram á grafarbakkann fyrir augljósar staðreyndir. Meginskýring Kjartans er hin sama og Halldór Laxness varpaði fram í Skáldatíma árið 1963: Kommúnismi er trú frekar en stjórnmálaskoðun, draumur um paradís á jörðu, og trúmenn loka augunum fyrir því, sem fellur ekki að sannfæringu þeirra. Þeir vilja ekki vakna til veruleikans.

Eflaust er margt til í þessari skýringu, en ég myndi bæta við tveimur öðrum. Líf sumra manna er öðrum þræði veðmál í valdabaráttu, og þessir þrír menn og aðrir í þeirra liði voru sannfærðir um, að þeir hefðu veðjað rétt á framtíðina. Þeir myndu von bráðar breytast úr utangarðsfólki í innanbúðarmenn. Persónulegar fórnir þeirra væru tímabundnar. Í öðru lagi skildu kommúnistar ekki, að kenning þeirra er óframkvæmanleg. Þekkingin dreifist á mennina,  og þess vegna verður líka að dreifa valdinu á þá, ef ekki á illa að fara. Sameign á framleiðslutækjunum er hugmynd, sem ekki gengur upp, en einmitt þess vegna urðu þeir kommúnistar, sem náðu völdum, að velja um það að sleppa þeim eða herða tökin, og þeir brugðu oftast á seinna ráðið.

Löðrungar og Rússagull

BrynjólfurKjartan þakkar þessum þremur öflugu forystumönnum meira brautargengi sósíalista á Íslandi en víðast annars staðar. Hann hefur bersýnilega sterkari taugar til Einars en þeirra Brynjólfs og Kristins, og var þó Einar blendinn maður samkvæmt lýsingu hans, elskulegur og hlýr á yfirborði, en langrækinn og undirförull. Margt gerðist skrýtið í tíð Kjartans. Til dæmis varð Einar ofsareiður á landsfundi Sósíalistaflokksins 1962, þegar Lúðvík Jósepsson stjórnaði samblæstri um að fella marga kommúnista úr miðstjórn. Eftir atkvæðagreiðsluna æddi Einar að næsta Lúðvíksmanni, sem hann sá, Ásmundi Sigurðssyni, og gaf honum kinnhest (bls. 423). Þegar Hannibal Valdimarsson mætti eitt sinn með tvo fylgdarmenn óboðna á samningafund með Einari og fleiri sósíalistum, snöggreiddist Einar, stökk á fætur, þreif í Hannibal og rak meðreiðarsveina hans út, og gekk þá Hannibal með þeim á dyr (bls. 452). Sjálfur slapp Kjartan ekki undan höggum. Brynjólfur vatt sér að honum og rak honum löðrung eftir fund í Sósíalistaflokknum 1966, þar sem Brynjólfur varð undir í átökum um, hvort leggja ætti flokkinn niður og breyta Alþýðubandalaginu í stjórnmálaflokk (bls. 455).

Kjartan fer fremur lauslega yfir fjárstuðning Kremlverja við kommúnistahreyfinguna íslensku (fram til 1938), enda eru heimildir um hann gloppóttar. Hann hefur þó verið talsverður, og nýlega kom út í Danmörku bók, Rauða neðanjarðarhreyfingin (Den røde underverden) eftir Niels Erik Rosenfeldt prófessor og fleiri, þar sem staðfestar eru upplýsingar Þórs Whiteheads prófessors um, að sænski kommúnistinn Signe Sillén hafi séð um leynileg samskipti Moskvumanna við norræna kommúnista, þar á meðal hina íslensku. Kjartan gerir hins vegar eins skilmerkilega grein fyrir hinum mikla fjárstuðningi Kremlverja við Sósíalistaflokkinn og hann getur (frá 1938). Hann segist ekki hafa vitað af honum, fyrr en skjöl fundust um hann í Moskvu, en heldur því fram, að féð hafi allt runnið til bókafélagsins Máls og menningar. Hann virðist þó ekki gera ráð fyrir þeim möguleika, að einhver fjárstuðningur til viðbótar hafi verið veittur á vegum leynilögreglunnar, sem síðast hét KGB, eða leyniþjónustu hersins, GRÚ, og eru engin gögn þessara stofnana aðgengileg.

Kjartan skýrir enn fremur frá því, að sumir Alþýðubandalagsmenn hafi ekki virt samþykkt flokksins frá 1968 um að rjúfa öll tengsl við þau kommúnistaríki, sem réðust það ár inn í Tékkóslóvakíu. Lúðvík Jósepsson vildi taka slík tengsl upp aftur og hitti oft fulltrúa Kremlverja á laun. Ingi R. Helgason hafði líka að minnsta kosti tvisvar samband við sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík samkvæmt skýrslum þess og bauðst til að taka við greiðslum fyrir sýndarstörf, og myndi hann síðan láta þær renna til flokksins, en þessum boðum hans var hafnað. Deilir Kjartan hart á þá fyrir þetta.    

Lítið gert úr ofbeldiseðli og austurtengslum

Þótt Kjartan vilji vera heiðarlegur í uppgjöri sínu við fortíðina, gerir hann miklu minna en efni standa til úr ofbeldiseðli hinnar íslensku hreyfingar og austurtengslum hennar. Skiptingin í kommúnista og jafnaðarmenn var ekki einungis um afstöðuna til fyrri heimsstyrjaldar, eins og er á Kjartani að skilja (bls. 19), heldur líka og miklu frekar um afstöðuna til ofbeldis. Jafnaðarmenn höfnuðu því og vildu fara þingræðisleiðina, taka völdin friðsamlega. Kommúnistar voru hins vegar byltingarmenn, sem skeyttu því engu, hvort þeir hefðu lýðræðislegt umboð.

Eitt dæmi um tilhneigingu Kjartans til að gera of lítið úr austurtengslunum er svokallað Stalínsbréf, en í rússnesku tímariti haustið 1931 gagnrýndi Stalín allt samstarf kommúnista við vinstri jafnaðarmenn. Kjartan segir (bls. 100 og 139), að þetta bréf hafi aldrei birst á íslensku þrátt fyrir brýningar Moskvumanna, og hefur hann það til marks um, að íslenskir kommúnistar hafi ekki alltaf verið þægir í taumi. En eins og ég bendi á í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, birtist Stalínsbréfið í fjölritaða tímaritinu Bolsjevikkanum í maí 1934. Raunar skiptir Stalínsbréfið ekki eins miklu máli og sú staðreynd, að íslenskir kommúnistar fylgdu umyrðalaust þeirri línu frá Moskvu í nokkur ár, að jafnaðarmenn væru „höfuðstoð auðvaldsins“, og höfnuðu öllu samstarfi við þá, þótt það ætti eftir að breytast með nýrri línu frá Moskvu.  

KristinnÝmislegt fleira er hæpið eða rangt. Kjartan lætur að því liggja, að stofnun Sósíalistaflokksins haustið 1938 hafi verið í óþökk Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns (bls. 192–193), en Þór Whitehead hefur hrakið þá kenningu með gildum rökum. Kjartan minnist ekki heldur á skjal frá 1939, sem ég fann í gögnum Sósíalistaflokksins á Landsbókasafni og get um í bók minni. Það er bréf frá forseta Alþjóðasambands ungra kommúnista í Moskvu til formanns æskulýðssamtaka Sósíalistaflokksins, þar sem einmitt er lýst ánægju með hinn nýja flokk og stefnu hans. Það segir líka sitt, þegar Kristinn E. Andrésson gaf skýrslu um Sósíalistaflokkinn í Moskvu vorið 1940, að þá var ekki vikið einu orði að því, að íslenskir kommúnistar hefðu stofnað flokk í óleyfi.

Furðuleg yfirsjón

Furðulegasta yfirsjón Kjartans er, þegar hann fullyrðir (bls. 214), að allt frá skýrslugjöf Kristins vorið 1940 hafi forystumenn Sósíalistaflokksins ekki verið í neinu sambandi við Kremlverja, uns sendiráð Ráðstjórnarríkjanna var sett á laggir í Reykjavík snemma árs 1944. Þetta er ekki rétt, þótt sambandið væri vissulega stopult vegna stríðsins. Í júlí 1941 tóku Kremlverjar því illa, þegar þingmenn sósíalista greiddu atkvæði gegn herverndarsamningi við Bandaríkin. Íslensku sósíalistarnir voru á gömlu línunni frá Moskvu, sem var að telja „auðvaldsríki“ eins og Bretland og Bandaríkin engu skárri en þýska nasista. Hafði Einar Olgeirsson, ritstjóri Þjóðviljans, ráðist heiftarlega á breska hernámsliðið og þess vegna verið hnepptur í fangelsi í Bretlandi. Nú hafði Hitler hins vegar ráðist á Rússland, og vildu Kremlverjar ólmir fá liðsinni Bandaríkjanna í stríðinu við Nasista-Þýskaland. Vjatseslav Molotov utanríkisráðherra hringdi í Georgí Dímítrov, forseta Kominterns, og skipaði honum að leiðrétta línuna til Íslands. Dímítrov sendi skeyti til Williams Gallachers, þingmanns kommúnistaflokksins breska, sem hafði tal af Einari Olgeirssyni, en Einar var þá að búa sig til heimferðar eftir fangelsisdvöl sína ytra. Eftir heimkomuna hélt Einar fund með innsta hring sósíalista og tilkynnti þeim, að nú hlytu þeir að söðla um og veita Bandaríkjunum alla þá aðstoð, sem þeir mættu. Urðu sósíalistar um skeið „háværustu vinir Bandaríkjanna“ á Íslandi, eins og bandarískur sendiherra sagði í skýrslu.

Annað dæmi um austurtengsl á þessu tímabili er, að sumarið 1942 kom nefnd frá flotamálaráðuneytinu í Moskvu í kynnisför til Íslands. Með í för voru menn úr leyniþjónustu flotans, sem sneru sér til sérstaks trúnaðarmanns Kremlverja á Íslandi, Eggerts Þorbjarnarsonar (sem Kjartan starfaði með um skeið). Eggert kom á leynifundi Einars Olgeirssonar með leyniþjónustumönnum, og sagði Einar þeim, að hann vildi taka aftur upp samband við Kremlverja, sem rofnað hefði vegna stríðsins. Skýrsla um þennan fund er í skjalasafni leyniþjónustunnar og því ekki aðgengileg, en afrit af henni var sent á skrifstofu kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, og þess vegna er vitað um hann. Sérstakir kaflar eru um bæði þessi atvik í bók minni.

Smíðagallar og smávillur

Þótt bók Kjartans sé fróðleg, eru á henni ýmsir smíðagallar. Mörg rússnesk manna- og staðanöfn eru nefnd í bókinni. Ég er hissa á Kjartani að nota ekki umritunarreglur Árnastofnunar, sem kunnáttumenn settu saman fyrir mörgum árum. Þess í stað stafsetur Kjartan stundum rússnesk nöfn á þýsku! Hann skrifar til dæmis Kharkow í stað Kharkov (bls. 128) og telur Stalín á einum stað vera Vissarionowitsch (bls. 130), ekki Víssaríonovítsj. Skírnarnafn Stalíns er mjög á reiki í verkinu, ýmist Jósef, Jósep eða Josif, en ætti að vera Josíf. Málið er ekki heldur eins hreint og ég hefði búist við af gömlum nemanda í Menntaskólanum á Akureyri. Kjartan notar til dæmis dönskuslettuna „glimrandi“ (bls. 388) og segir „riftað“ (bls. 391) í stað þess að nota sterku beyginguna, rift.

Furðumargar smávillur eru í ritinu. Til dæmis var Ólafur Friðriksson ekki formaður Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur veturinn 1920–1921, heldur varð hann formaður í janúar 1922 (bls. 17). Bréf frá Ársæli Sigurðssyni fyrir hönd Sambands ungra kommúnista til Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur var ritað 1925, ekki 1923 (bls. 27). Þetta væri í sjálfu sér aukaatriði (eða meinlaus prentvilla), væri ekki fyrir það, að höfundur leggur sérstaklega út af því. Kjartan heldur því fram, að þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson hafi verið gestir, ekki fulltrúar á Komintern-þinginu 1920 (bls. 30 og 251). Um þetta höfum við Snorri G. Bergsson sagnfræðingur báðir skrifað langt mál, en Kjartan gengur alveg fram hjá þeim skrifum og minnist raunar ekki á stórfróðlega bók Snorra um upphafsár kommúnistahreyfingarinnar, Roðann í austri. Hníga ýmis rök að því að trúa Hendrik um það, að hann hafi verið fullgildur fulltrúi, en hugsanlega hefur Brynjólfur verið áheyrnarfulltrúi eða gestur. Kjartan segir réttilega á einum stað (bls. 25), að Jafet Ottósson hafi verið fyrsti formaður Félags ungra kommúnista í Reykjavík, en ranglega annars staðar (bls. 31 og 136), að Hendrik Ottósson hafi verið fyrsti formaður félagsins. Svo mætti lengi telja, en þess ber að geta, að beinum villum fækkar, þegar frásögnin færist nær samtíma Kjartans.

Oftast sanngjarnir dómar

Ýmsa hnökra þessa yfirgripsmikla verks hefði mátt fjarlægja, hefði útgefandinn lagt eins mikið í yfirlestur handrits og hann gerir í útlit bókarinnar og frágang. En þakklátustu lesendur Kjartans verða áreiðanlega gömul flokkssystkini hans. Hann lýsir vel ferð þeirra um lífið. Jafnframt munu áhugamenn um sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi hafa gaman af bók hans. Þar er margt forvitnilegt, auk löngu kaflanna um Einar, Brynjólf og Kristin til dæmis styttri þættir um þá Inga R. Helgason, Guðmund J. Guðmundsson, Guðmund Hjartarson, Eðvarð Sigurðsson og fleiri. Dómar Kjartans um gamla samherja eru oftast sanngjarnir. Hann reynir að draga ekkert undan, hvorki gott né slæmt. En kjarninn í gagnrýni hans á þessa samherja á við um hann sjálfan: Kjartan horfir fram hjá því, sem fellur ekki að heimsmynd hans, þótt vissulega sé mynd hans raunhæfari en þeirra.

(Ritdómur í Morgunblaðinu 10. desember 2020.)


Erlendur Haraldsson

erlendurErlendur Haraldsson sálfræðiprófessor bar ekki með sér að vera ævintýramaður. Hann var hávaxinn og beinn í baki, fríður sýnum, grannvaxinn og samsvaraði sér vel. Ungur hafði hann mikið svart hár, sem hann skipti í miðju, en með árunum þynntist það og gránaði, en hvarf þó ekki. Erlendur var hógvær og prúður í framkomu og virtist jafnvel vera hálfgerður meinlætamaður: hann var grænmetisæta og drakk aðeins blátært vatn, hvorki kaffi né áfenga drykki. En þar átti við sem annars staðar, að hann var ekki allur, þar sem hann var séður, því að hann neitaði sér síður en svo um ástir kvenna. Og þótt hann væri sjálfur óáleitinn, sýndi hann festu og röggsemi, þegar að honum var sótt á deildarfundum, en við kenndum um árabil saman í félagsvísindadeild Háskólans. Mættu þar orðskáustu menn deildarinnar fullkomnum jafnoka, og höfðum við hin gaman af.

Því segi ég, að Erlendur hafi verið ævintýramaður, að hann var einn víðförlasti Íslendingur sinnar tíðar og lenti ósjaldan í hremmingum. Frægast var, þegar hann lagði leið sína til Kúrdistan árið 1962. Hann hafði kynnst nokkrum Kúrdum í Berlín, þar sem hann stundaði nám, fyllst áhuga á sjálfstæðisbaráttu þessarar aðþrengdu fjallaþjóðar og ákveðið að fara austur. Í Bagdad náði hann sambandi við neðanjarðarhreyfingu Kúrda, sem kom honum inn í Íran, og þaðan laumaðist hann til íraska Kúrdistan. Á heimleiðinni handtók íranska lögreglan hann, en hann slapp úr haldi hennar og gaf út bókina Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan árið 1964. Var hún þýdd á þýsku tveimur árum síðar. Erlendur varð góður vinur margra helstu leiðtoga Kúrda.

Í fræðunum var Erlendur líka ævintýramaður, því að í sérgrein sinni valdi hann sér afar óvenjulegt viðfangsefni, hið yfirskilvitlega. Hann skrifaði margar bækur um rannsóknir sínar á yfirnáttúrlegum fyrirbærum, og hafa þær komið út á helstu heimstungum, en líklega seldist best rit, sem hann samdi um indverska trúarleiðtogann Sai Baba, en af töfrabrögðum (eða brellum?) hans ganga ótrúlegar sögur. Segir Erlendur frá þessu öllu í endurminningum sínum, Á vit hins ókunna, en þær komu út hjá Almenna bókafélaginu árið 2012. Í rannsóknum sínum slakaði Erlendur þó aldrei á vísindalegum kröfum. Áhugi hans á Kúrdum og val viðfangsefna í sálfræði sýndu, hversu óhræddur hann var við að fara ótroðnar slóðir, um leið og hann var jafnan varfærinn og vandvirkur. Hugur hans var alla tíð opinn, eins og sönnum vísindamanni sæmir. Hef ég fyrir satt, að erlendis sé hann einn nafnkunnasti prófessor Háskóla Íslands. Að honum er sjónarsviptir.

(Minningargrein í Morgunblaðinu 9. desember 2020.)


Kvöldstund á Hótel Sögu

Ég er einn fjölmargra, sem notaði tækifærið vegna frádráttar virðisaukaskatts fyrir vinnu til að betrumbæta heimilið. Á meðan verið var að slípa parkettið, flutti ég út á Hótel Sögu, sem hafði boðið mér kostakjör. Eitt septemberkvöldið sat ég þar yfir gin og tonic í vínstúkunni, niðursokkinn í fróðlega bók Kjartans Ólafssonar, Draumar og veruleiki (sem ég er að ritdæma fyrir Morgunblaðið). Þegar ég leit upp, sá ég skyndilega í einu horninu þá Steingrím J. Sigfússon og Róbert Spanó stinga saman nefjum. Ég vildi ekki trufla slíka fyrirmenn, svo að ég flýtti mér upp í herbergi. En hvað skyldu þeir hafa verið að tala um? Mannréttindabrot í Tyrklandi? Þeir hljóta að hafa verulegar áhyggjur af þeim.

1227235


Upprifjun um Atómstöðina

Halldór_Kiljan_Laxness_1955Furðulegt upphlaup varð á dögunum, þegar Halldór Guðmundsson bókmenntaskýrandi hélt því fram, að Bjarni Benediktsson og bandarísk stjórnvöld hefðu í sameiningu komið í veg fyrir, að bækur Halldórs Laxness kæmu út í Bandaríkjunum eftir 1946, en það ár birtist þar Sjálfstætt fólk og seldist bærilega, enda valbók einn mánuðinn í Mánaðarritafélaginu (Book-of-the-Month Club). Gallinn við kenninguna er, að engin gögn styðja hana.

Setjum þó svo, að skjöl fyndust um það, að hinn bandaríski útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hefði hætt að gefa verk hans út, af því að honum hefði blöskrað eindreginn stuðningur skáldsins við stalínisma í miðju kalda stríðinu. Hann hefði auðvitað verið í sínum fulla rétti til þess. Atómstöðin, sem birtist í febrúar 1948, var heiftarleg árás á Bandaríkin og þá Íslendinga, sem töldu varnarsamstarf við þau æskilegt. Hún hefði verið lítt fallin til vinsælda í Bandaríkjunum. Ég tel þó langlíklegustu skýringin á því, að bækur Laxness hættu að koma út í Bandaríkjunum eftir 1946, almennt áhugaleysi bandarískra lesenda um þær flestar. Sjálfstætt fólk er eina verk Laxness, sem virðist hafa einhverja skírskotun til Bandaríkjamanna, sennilega af því að þeir misskilja það og telja hetjusögu Bjarts.

Hitt er annað mál, að íslenskur stjórnarerindreki talaði vissulega gegn útgáfu á verkum Laxness erlendis þessi misserin. Kristján Albertsson, sem þá starfaði í utanríkisþjónustunni, hafði spurnir af því haustið 1948, að Martin Larsen, sendikennari í Háskóla Íslands, hefði verið beðinn um að þýða Atómstöðina á dönsku. Lét Kristján í ljós vanþóknun á þeirri hugmynd, og tók Larsen verkið ekki að sér. Jakob Benediktsson og dönsk kona hans þýddu þá bókina. Fjórum árum síðar, sumarið 1952, átti Kristján erindi við forstjóra Gyldendal, sem sagði honum, að Atómstöðin væri að koma út á dönsku, og hafði Kristján þá hin verstu orð um bókina. Það breytti engu um útkomu hennar, sem þegar var ráðin. Raunar var heift Laxness svo mikil um þær mundir, að hann varaði Dani við að skila handritunum til Íslands, því að ráðamenn kynnu að selja þau til Bandaríkjanna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2020.)


Orð Hayeks staðfest

17.10 Hayek á fyrirl. 5.4Einar Már Jónsson fornfræðingur minnist á mig í pistli sínum á Stundinni 3. desember 2020, og er ekki nema sjálfsagt, að ég svari honum stuttlega. Hann telur, að frjálshyggjumenn hafi gert gagnbyltingu í hugmyndaheiminum, náð hinu andlega forræði, sem ítalski marxistinn Antonio Gramsci taldi mikilvægast. Þeir hafi nú að vísu misst þetta andlega forræði, en haldi enn völdum víðast á Vesturlöndum og noti tækifærið til að einkavæða allt, sem þeir geta, með misjöfnum árangri.

Það er rétt, að sósialistar misstu sitt andlega forræði um og upp úr 1980. En hvers vegna var það? Ástæðurnar voru tvíþættar. Í kommúnistaríkjunum höfðu þeir fylgt stefnu, sem ekki gekk upp, sameign á framleiðslutækjunum og miðstýringu atvinnulífsins. Þegar árið 1921 hafði Ludwig von Mises bent á, að allsherjarskipulagning atvinnulífsins hlyti að mistakast, því að frjáls markaður með fjármagn (framleiðslutækin) væri ómissandi. Hayek, sem Einar Már gerir að goði frjálshyggjumanna, hafði síðan komið orðum að tveimur voldugum hugmyndum, að dreifing þekkingar krefjist dreifingar valds og að samkeppni á markaði sé þrotlaus þekkingarleit. Það er aðeins með samkeppni á markaði sem við komumst að því, hvar hæfileikar manna nýtast öðrum til heilla. Hrun Ráðstjórnarríkjanna varð um leið hrun vinnubúðasósíalismans.

Á Vesturlöndum höfðu sósíalistar horfið frá kröfunni um sameign á framleiðslutækjunum og studdu blandað hagkerfi, sem kallað er. Þar var aðalmarkmiðið full atvinna í anda Johns Maynards Keynes. En upp úr 1970 kom í ljós, að sú stefna gekk ekki heldur upp. Ríkið gat ekki til lengdar örvað atvinnulífið með því að dæla peningum í það. Valið var ekki um atvinnuleysi eða verðbólgu, heldur fór atvinnuleysið saman við verðbólguna. Þetta skildi Margrét Thatcher í Bretlandi, og hún hvarf frá þessari stefnu, þótt það kostaði hörð átök við verkalýðsfélög, sem snerust til varnar úreltum framleiðsluháttum og reyndu með ofbeldi að hindra fólk í að vinna, til dæmis námumenn og prentara. Thatcher taldi, að það væri ekki ríkisins að tryggja fulla atvinnu, heldur yrðu menn að semja um kaup og kjör á frjálsum markaði. Ríkið átti ekki að reka atvinnufyrirtæki með stórfelldu tapi (sem þannig sogaði til sín fé úr arðbærari framkvæmdum). Hinum megin Norðursjávarins, í Svíþjóð, höfðu sósíalistar gengið mjög langt í að hækka skatta og auka ríkisafskipti, en um 1990 varð ljóst, að komið var í óefni. Framkvæmdamenn höfðu flúið skattáþjánina í Svíþjóð, og einu nýju störfin voru í opinbera geiranum. Sátt varð smám saman um það í Svíþjóð að hverfa af þessari braut, lækka skatta og veita framkvæmdamönnum og frumkvöðlum aukið svigrúm. Með stefnubreytingunum í Bretlandi og Svíþjóð hrundi vöggustofusósíalisminn.

Sósíalisminn hafði mistekist, jafnt í austri sem vestri. En hafði frjálshyggjan tekist? Einar Már notar sömu samtalstækni og aðrir sósíalistar. Hann segir sögur, aðallega af vondum frjálshyggjumönnum. En sögur sanna ekkert, enda eru þær oft ónákvæmar. Gera þarf almennan samanburð á hagkerfum til að komast að einhverjum niðurstöðum um kosti þeirra og galla. Þetta hefur hópur vísindamanna gert allt frá 1996 með vísitölu atvinnufrelsis, Index of Economic Freedom. Þeir hafa smíðað vísitölu, sem sett er saman úr mörgum þáttum, til dæmis hversu traustur einkaeignarrétturinn er, hversu stöðugt peningakerfið er, hversu frjáls utanríkisviðskipti eru og hversu háu hlutfalli landsframleiðslu einstaklingarnir ráðstafa sjálfir. Gera þeir nákvæma grein fyrir forsendum sínum í skýrslum, sem birtast árlega. Þeir hafa sífellt reynt að endurbæta mælingu sína og notast eftir föngum við opinberar, viðurkenndar hagtölur, en reyna að forðast matskenndar stærðir.

Niðurstöðurnar eru svo sannarlega merkilegar. Í nýjustu skýrslunni, sem birtist í september 2020, fyrir tveimur mánuðum, og tekur til ársins 2018, kemur fram eins og oft áður, að sterk fylgni og raunar órúlega sterk fylgni er milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara. Sé þeim 162 löndum eða svæðum, sem mælingin nær til, skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá er landsframleiðsla á mann árið 2018 í frjálsasta fjórðungnum að meðaltali $44.198 (kaupmáttarleiðréttir dalir frá 2017), en í ófrjálsasta fjórðungnum að meðaltali $5.754. En hvað um hina fátækustu? Í frjálsasta fjórðungnum voru meðaltekjur fátækustu 10% $12.293, en í ófrjálsasta fjórðungnum voru þær $1.558. Ég vek sérstaklega athygli á einu. Meðaltekjur fátækasta tíunda hluta þjóðarinnar í frjálsasta fjórðungnum voru tvöfalt hærri en allar meðaltekjur í ófrjálsasta fjórðungnum. Orð Hayeks um sköpunarmátt og leiðréttingarmátt dreifstýringar í atvinnulífi, um kerfi séreignar, samkeppni og takmarkaðs ríkisvalds, hafa svo sannarlega verið staðfest.

Mæling þessa hóps vísindamanna, sem tengdir eru Fraser-stofnuninni í Vancouver í Bresku Kolumbíu, sýnir líka, að atvinnufrelsi hefur almennt aukist í heiminum síðustu áratugi. Í þeim skilningi að minnsta kosti hefur frjálshyggjan sigrað, hvað sem líður andlegu forræði hennar. Það er síðan enginn vafi á því, hvað almenningur myndi kjósa, ef og þegar hann getur kosið með fótunum. Hann myndi kjósa kapítalisma, betri lífskjör, fleiri tækifæri. Hann fer frá Kína til Hong Kong, frá Norður-Kóreu til Suður-Kóreu, frá Mexíkó (þar sem auðlindir eru í ríkiseign) til Texas (þar sem auðlindir eru í einkaeign), frá Kúbu til Flórida, frá Venesúela til Íslands. Ef Einar Már bendir réttilega á, að maðurinn lifi ekki af brauði einu saman, þá er svarið, að maðurinn verði að minnsta kosti að hafa brauð til að lifa. Við kapítalisma starfa mörg blómleg bakarí, en við sósíalisma eru jafnan langar biðraðir eftir því litla brauði, sem er á boðstólum, eftir að valdastéttin hefur hirt sitt.

(Grein í Stundinni 4. september 2020. Myndin er af Hayek á Íslandi 5. apríl 1980.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband