28.2.2018 | 15:02
Af högum mínum: Svar til blaðamanns
Hér er svar mitt við fyrirspurn blaðamanns:
Sæll, Sigmann Þórðarson.
Það er prentvilla í heiti skeytis þíns. Þetta á að vera Rannsóknarleyfi með s-i. En þú mátt hafa eftirfarandi eftir mér og þá allt, en ekki eitthvað klippt frá þér eftir þínum hentugleikum:
Mér finnst þessi spurningaleikur furðulegur. Ég er ekki fyrsti prófessorinn, sem fer í rannsóknarleyfi og þarf að ráðstafa námskeiðum sínum á meðan, og áreiðanlega ekki hinn síðasti. Hvers vegna er ég sérstaklega tekinn úr? Og hvers vegna er ætlunin að birta sérstaka frétt um rannsóknarleyfi mitt?
Annars er atburðarásin í þessu ekki-máli einföld. Ég hafði óskað eftir rannsóknarleyfi á vormisseri 2019. Síðan komst ég að því, að ég átti rétt á rannsóknarleyfi á haustmisseri 2018. Ég vildi samt ekki taka það þá, nema ég gæti ráðstafað kennslu minni á skaplegan hátt. Ég talaði við einn heimspekiprófessorinn, sem oft hefur verið mér ráðhollur. Hann stakk upp á því, að námskeið í heimspeki, sem er um margt sambærilegt við námskeið mitt, yrði látið koma í stað míns námskeiðs. Kvað hann eitthvað svipað oft hafa verið gert við svipaðar aðstæður. Forseti minnar deildar var sáttur við það, og kennari námskeiðsins var fús að taka þetta að sér. Þegar ég hafði þannig ráðstafað kennslunni á eðlilegan hátt, bað ég um að fá frekar rannsóknarleyfi á haustmisseri. Var orðið við því, eins og eðlilegt var.
Það var enginn þrýstingur á mig um eitt eða neitt í þessu máli. Það hefur gengið sinn venjulega og eðlilega gang. Öll mín samskipti við yfirmenn Háskólans hafa verið algerlega óaðfinnanleg. Ég þekki ekki þennan nemendalista, sem nefndur er í spurningalistanum. Enginn hefur minnst á hann við mig, en ég hef séð eitthvað smávegis um hann í fjölmiðlum. Annars er þetta ekkert nýtt. Það var skipulögð undirskriftasöfnun meðal nemenda 1988 til að reyna að fá menntamálaráðherra til að veita mér ekki lektorsembætti í stjórnmálafræði. Það hafði engin áhrif, hvorki á mig né ráðherrann og því síður á framtíðina, sem nú er nútíð.
Ég var mjög feginn því að fá meira tækifæri til rannsókna og þess vegna ánægður með að fá rannsóknarleyfið á haustmisseri. Ég er með fangið fullt af verkefnum. Ég er að skila af mér 320 bls. skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins til fjármálaráðuneytisins og hyggst auðvitað gefa út rannsóknir mínar á því máli, ef til vill næsta haust, þegar tíu ár verða liðin frá bankahruninu.
Ég hef síðan samið um og hef verið að ljúka þremur skýrslum eða rannsóknarritgerðum fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Þær eru um 5070 bls. hver.
Ein er Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights. Þar legg ég áherslu á þá staðreynd, að umhverfisvernd krefst verndara, einhverra, sem hafa hag af því að vernda umhverfið. Dæmið af landi er alþekkt. Það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Sjaldan grær gras á almenningsgötu. En ég nota þessa hugmynd á fiskistofna í ljósi reynslu Íslendinga og á þokkafull risadýr eins og hvali, fíla og nashyrninga. Hægt er að breyta veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki: með því að leyfa þeim að eignast dýrastofnana.
Önnur skýrslan er The Voices of the Victims: Notes towards a Historiography of Anti-Totalitarian Literature. Þar veiti ég yfirlit yfir rit, sem komu út um alræðisstefnuna, á meðan hún reið húsum í Evrópu, kommúnisma og nasisma, með sérstakri áherslu á kommúnismann, þar sem hann var langlífari og ekkert uppgjör var við hann eins og var við nasismann í Nürnberg. Ég ræði m. a. skoðanir Marx og Engels á smáþjóðum, skáldsögur Zamjatíns, Orwells, Koestlers og Rands um alræðisstefnuna, bækur Víktors Kravtsjenkos, Valentíns González (El campesino), Margarete Buber-Neumann, Elinors Lippers, Ottos Larsens o. fl.
Þriðja skýrslan er Lessons for Europe from the Icelandic Bank Collapse. Þar bendi ég á þrjá lærdóma, sem aðrir virðast ekki hafa dregið af bankahruninu. (Flestir menntamenn gera ekkert annað en endurtaka þúsund ára gamlar og margtuggnar prédikanir gegn ágirnd.) Einn er, að það kostar ekki algert hrun hagkerfisins að láta banka falla. Ísland blómstrar, þótt bankarnir hafi fallið. Annar lærdómur er, að ríkisábyrgð á innstæðum er óþörf, ef það er gert, sem Íslendingar gerðu og var mjög snjallt, að veita innstæðueigendum forgang í kröfum á bú banka. Aðalatriðið er ekki að bjarga bönkum, heldur að afstýra öngþveiti, sem örvæntingarfullir innstæðueigendur myndu stofna til. Þriðji lærdómur er, að geðþóttavald, eins og skapað var með hryðjuverkalögunum bresku, verður fyrr eða síðar misnotað. Dæmið af beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum sýnir það. Þá var lögunum beitt vegna stjórnmálahagsmuna þeirra Gordons Browns og Alistairs Darlings, sem vildu sýna Skotum, hvað sjálfstæði kostaði, og sýna breskum kjósendum, hversu harðir þeir væru í horn að taka.
Síðan hef ég líka unnið að skýrslu fyrir aðra hugveitu í Brüssel um Totalitarianism in Europe: Two Case Studies, þar sem ég birti rannsóknir mínar á tveimur málum: ævi og störfum Elinors Lippers, sem var um margt merkileg, og sögu gyðingakonu, sem varð Íslendingur (Henny Goldstein), og nasista, sem varð kommúnisti (Bruno Kress), og hvernig örlög þeirra fléttuðust saman á Íslandi og víðar. Ég datt niður á þessi rannsóknarefni í íslenskum og erlendum skjalasöfnum.
Þá er ég að halda áfram að gera á ensku útdrætti úr helstu Íslendinga sögum. Ég hef þegar gert útdrætti úr Egils sögu, Brennu-Njáls sögu og Guðrúnar sögu (eins og mér finnst eðlilegast að kalla Laxdælu) og ætla að gera sameiginlegan útdrátt úr Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, sem ég mun kalla samheitinu Guðríðar saga, því að sögurnar hverfast í kringum Guðríði Þorbjarnardóttur, sem fæddist á Íslandi, bjó í Vesturheimi og fór í pílagrímsferð til Rómar. Nafnbreytingarnar á þessum Íslendinga sögum eru mitt litla framlag til kvenréttindabaráttunnar, jafnframt því sem ég reyni að kynna það, sem við Íslendingar ættum að vera stoltastir af, í stað þess að tala landið niður, eins og sumir gera því miður.
Enn fremur er ég að vinna að ævisögu Péturs Magnússonar, bankastjóra, ráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ætla í því sambandi við fyrsta tækifæri að rannsaka betur skjalasöfn hans og þeirra Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar (sem eru á Borgarskjalasafni). Mig skortir því svo sannarlega ekki verkefni næsta haust eða lengur.
Með von um vandaðri vinnubrögð í framtíðinni og góðri kveðju,
Hannes H. Gissurarson
Hér er fyrirspurn blaðamannsins:
Sæll Hannes,
Sigmann heiti ég og er nemandi í blaða- og fréttamennsku og blaðamaður student.is.
Við á student.is höfum í hyggju að fjalla um fjarveru þína á komandi haustmisseri sem veldur því að áfanginn um stjórnmálaheimspeki, sem þú hefur hingað til kennt, verður þar af leiðandi ekki á dagskrá.
Okkur langar að vita hvort þú hafir áhuga á að tjá þig um þetta rannsóknarleyfi sem þú hefur óskað eftir og leggjum fyrir þig eftirfarandi spurningar:
1. Óskaðir þú sjálfur eftir því að fara í rannsóknarleyfi?
2. Er það rétt að þú hafir í fyrstu óskað eftir rannsóknarleyfi á vormisseri en breytt því í haustmisseri?
- Ef "já":
a. Hvers vegna breyttist það?
b. Var þrýst á þig af deildinni/háskólanum að breyta þessu?
c. Hafði listi þeirra 65 nemenda, sem óskuðu eftir að áfangi þinn yrði ekki kenndur sem skylduáfangi lengur, eitthvað með breytinguna að gera?
3. Hvað finnst þér um þá niðurstöðu; að áfangi þinn um stjórnmálaheimspeki verði ekki kenndur næsta vetur?
4. Hvað hyggst þú rannsaka í þessu leyfi sem þú óskar eftir?
Fréttin birtist n.k. þriðjudag, 6. mars, og óskum við því eftir svörum fyrir þann tíma.
Virðingarfyllst,
Sigmann Þórðarson
- Student.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook
24.2.2018 | 10:11
Hann kaus frelsið
Ein læsilegasta bókin í ritröð Almenna bókafélagsins, Safn til sögu kommúnismans, sem ég hef umsjón með, er Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Þótt heitið sé tuggukennt, er bókin sjálf full af örlagasögum, átakanlegum, en um leið forvitnilegum, svo að lesandinn leggur hana ógjarnan frá sér. Höfundur fléttar samar í eina heild ástarævintýri sín, skýrar svipmyndir af ógnarstjórn Stalíns, ótal dæmi af svikum og prettum, en líka af hjálpsemi og hugrekki.
Kravtsjenko fæddist 1905 og ólst upp í Úkraínu. Hann varð í upphafi sanntrúaður kommúnisti og lærði verkfræði, og var einn skólabróðir hans og góðkunningi Leoníd Brezhnev, sem síðar varð hæstráðandi í Ráðstjórnarríkjunum. En hungursneyðin í Úkraínu 1932-1933 hafði mikil áhrif á Kravtsjenko. Stalín olli þessari hungursneyð með því að taka uppskeruna af bændum og reka þá inn í samyrkjubú (eða flytja þá, sem óþjálastir voru, nauðungarflutningum til Síberíu). Talið er, að um sex milljónir manns hafi soltið til bana, aðallega í Úkraínu, sem er frá náttúrunnar hendi frjósamt landbúnaðarland. Fjöldi barna varð munaðarlaus og fóru þau í hópum um Rússland að leita sér matar. Tóku foreldrar Kravtsjenkos eina slíka stúlku inn á heimilið.
Kravtsjenko varð verksmiðjustjóri víðs vegar um Ráðstjórnarríkin og kynntist þess vegna aðeins óbeint hinum víðtæku flokkshreinsunum Stalíns, þegar einræðisherrann gekk milli bols og höfuðs á mörgum kommúnistum. Kravtsjenko sá líka álengdar fangana í þrælkunarbúðunum, Gúlaginu, eins konar lifandi vofur, sviptir öllum mannlegum virðuleik. Hann þoldi sífellt verr kúgunina í heimalandi sínu, og þegar honum var í stríðinu boðið starf í viðskiptanefnd Ráðstjórnarríkjanna í Washington-borg, tók hann því fegins hendi. Hann leitaði á náðir Bandaríkjastjórnar í aprílbyrjun 1944 og gaf út bók sína á ensku röskum tveimur árum síðar. Ærðust vestrænir kommúnistar yfir henni, og er af því löng saga.
Lárus Jóhannesson, lögfræðingur og alþingismaður (móðurbróðir Matthíasar Johannessens ritstjóra), vann það stórvirki að þýða bókina, sem var 564 þéttprentaðar blaðsíður í íslensku útgáfunni.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018.) Myndin er af Kravtsjenko í réttarsal í París 1949, þegar hann höfðaði mál gegn frönskum kommúnistum fyrir meiðyrði.
19.2.2018 | 10:18
Hugleiðingar á 65 ára afmælinu
Í dag er ég 65 ára: Ég fæddist á fæðingardeild Landspítalans 19. febrúar 1953. Ég var aufúsugestur í heiminn, frumburður foreldra minna, sem höfðu nýlega gengið í hjónaband og vildu gjarnan eignast barn. Þau eru því miður bæði látin. Faðir minn, Gissur Jörundur Kristinsson, framkvæmdastjóri Verkamannabústaðanna í Kópavogi, var raunar aðeins 62 ára, þegar hann varð bráðkvaddur. Móðir mín, Ásta Hannesdóttir kennari, lést úr krabbameini 74 ára. Bæði voru þau langt undir meðalaldri síns kyns, sem er ískyggilegt, ef úrslitum um heilsu og langlífi ræður forritið úr foreldrunum, en ég get huggað mig við, að ég hef alltaf verið við hestaheilsu. Mig vantaði ekki einasta dag úr skóla vegna veikinda alla mína tíð. Ég bjó við gott atlæti í bernsku, ólst upp í Laugarneshverfinu, varð aldrei var við allt það böl, sem ég les nú um í blöðunum, varð snemma lestrarhestur, hafði gaman af að ganga í skóla. Eftirlætisgreinar mínar í æsku voru landafræði og saga, og ég man, hversu eftirvæntingarfullur ég var, þegar ég hóf að læra erlendar tungur. Þá opnuðust fyrir mér nýir heimar. Ég sé raunar eftir að hafa ekki lært fleiri erlendar tungur, frönsku, ítölsku, rússnesku. Mér leið vel í skóla, en líklega best í Oxford-háskóla, þar sem ég var 19811985. Mér leið líka vel á vinnustað mínum í Háskóla Íslands, en ekki síður í Stanford-háskóla, þar sem ég var öðru hvoru gistifræðimaður á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Nú hin síðari ár hef ég brugðið á sama hátt og farfuglarnir og hvalirnir og haldið á suðlægar slóðir, þegar veturinn sverfur að á Íslandi. Þar stunda ég aðallega mitt grúsk, rannsaka það, sem ég hef ekki tóm til að gera heima, sinni ritstörfum í næði. En eins og hvalirnir og farfuglarnir kem ég alltaf aftur, þegar vorar. Ég vona, að ég eigi eftir að koma oft heim aftur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook
17.2.2018 | 12:34
Sartre og Gerlach á Íslandi
Franski heimspekingurinn Jean-Paul Sartre var í talsverðum metum á Íslandi um og eftir miðja síðustu öld. Eftir hann hafa þrjú rit komið út á íslensku, skáldsagan Teningunum er kastað, minningabókin Orðin og heimspekiritið Tilvistarstefnan er mannhyggja. Í heimspeki Sartres eru heilindi eitt aðalhugtakið. Menn skapa sjálfa sig með gerðum sínum í guðlausum heimi og verða að vera trúir sjálfum sér. Sartre heimsótti Ísland haustið 1951.
Tvö leikrit Sartres voru flutt í Ríkisútvarpinu, Í nafni velsæmisins 1949 og Dauðir án grafar 2003, og þrjú sett á svið, Flekkaðar hendur 1951, Læstar dyr 1961 og Fangarnir í Altona 1964. Síðast nefnda leikritið er um efnaða þýska nasistafjölskyldu, von Gerlach. Annar sonurinn ber nafnið Werner von Gerlach. Það er einkennileg tilviljun, að þessi söguhetja Sartres er alnafni þýska ræðismannsins á Íslandi 1939-1940, hins ákafa nasista Werners Gerlachs, nema hvað von hefur verið skotið á milli fornafns og ættarnafns.
Eða er það engin tilviljun? Eftir að Bretar tóku Gerlach höndum við hernámið vorið 1940 fluttu þeir hann til Manar, þar sem hann var geymdur ásamt öðrum stríðsföngum frá Íslandi. Haustið 1941 komst hann til Þýskalands í fangaskiptum, og árin 1943-1944 var hann menningarfulltrúi í þýska sendiráðinu í París. Sartre bjó þá í París og hefur væntanlega vitað af menningarfulltrúanum.
Sartre hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1964, en hafnaði þeim. Það hlýtur hins vegar að vera áhugamönnum um heilindahugtak hans rannsóknarefni og jafnvel ráðgáta, að Sartre hafði 1975 samband við Sænska lærdómslistafélagið, sem úthlutar verðlaununum, til að grennslast fyrir um, hvort hann gæti fengið verðlaunaféð, þótt hann hefði hafnað heiðrinum. Var málaleitan hans hafnað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2018.)
10.2.2018 | 13:50
Hún líka
Femínistar eru ýmist hófsamir eða róttækir. Hófsama hópinn skipa jafnréttissinnar, sem vilja fjarlægja hindranir fyrir þroska einstaklinganna, svo að þeir geti leitað gæfunnar hver á sinn hátt, konur jafnt og karlar. Ég tel mig slíkan femínista. Í róttæka hópnum eru kvenfrelsissinnar, sem halda því fram, að konur séu þrátt fyrir jafnrétti að lögum enn kúgaðar. Kunnur talsmaður þeirra er franski heimspekingurinn Simone de Beauvoir.
Víst er að hófsamir jafnréttissinnar deila ekki öllum viðhorfum með henni. Í samtali, sem bandaríski kvenskörungurinn Betty Friedan átti við hana og birtist í Rétti 1978, var hún spurð, hvort ekki ætti að auðvelda konum að velja um, hvort þær vildu helga sig heimili og börnum eða fara út á vinnumarkaðinn. Hún svaraði: Nei, það er skoðun okkar, að ekki sé rétt að setja neinni konu þessa valkosti. Engin kona ætti að hafa eindregna heimild, nánast löggildingu, til þess að vera heima við í því skyni að ala upp börn sín. Þjóðfélagið ætti að vera allt öðru vísi. Konur ættu ekki að eiga slíkt val beinlínis vegna þess, að sé slíkur valkostur fyrir hendi, er hætt við því, að allt of margar konur taki einmitt hann.
De Beauvoir bjó með heimspekingnum Jean-Paul Sartre, en var tvíkynhneigð. Hún kenndi í menntaskóla í París og flekaði þá sumar námsmeyjar sínar, þrátt fyrir að þær væru undir lögaldri. Ein þeirra, Bianca Lamblin, rakti í minningabók, hversu grátt de Beauvoir hefði leikið sig, kornunga, stóreyga og saklausa. De Beauvoir neytti einnig yfirburða sinna til að fá aðra stúlku undir lögaldri, Natalie Sorokin, til fylgilags við sig. Móðir Natalie kærði de Beauvoir til yfirvalda, og var henni vikið úr starfi árið 1943. Vitanlega breyta einkahagir de Beauvoir engu um gildi hugmynda hennar, en mér finnst samt skrýtið, að ég hef hvergi séð á þetta minnst í fræðum íslenskra kvenfrelsissinna. Beindust orð de Beauvoir og verk ekki gegn konum?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2018.)
3.2.2018 | 13:07
Spurning drottningar
Þegar Elísabet II. Bretadrottning heimsótti Hagfræðiskólann í Lundúnum, London School of Economics, 5. nóvember 2008 í því skyni að vígja nýtt hús skólans, minntust gestgjafar hennar á fjármálakreppuna, sem þá stóð sem hæst. Drottning spurði: Hvers vegna sá enginn hana fyrir, úr því að hún reyndist svo alvarleg? Eitthvað stóð í viðstöddum gáfumönnum að svara þessari einföldu spurningu.
Þess vegna settust nokkrir breskir spekingar niður í júní 2009 og ræddu hugsanlegt svar, og upp úr þeim umræðum sömdu tveir þeirra, prófessorarnir Tim Besley og Peter Hennessy, bréf til drottningar. Í bréfinu kváðu þeir ýmsa vissulega hafa varað við kreppunni vegna misgengis hagstærða og jafnvægisleysis. Enginn hefði samt haft yfirsýn yfir fjármálakerfið. Flestir hefðu haldið, að bankamenn vissu, hvað þeir væru að gera með því að taka í notkun alls konar ný fjármálatæki. Kerfið hefði skilað miklum hagnaði og allir því verið ánægðir. Sú trú hefði verið almenn, að glíma ætti við kreppur, þegar þær skyllu á, ekki reyna að afstýra þeim. Seðlabankar hefðu einbeitt sér að því að tryggja stöðugt verðlag, ekki fjármálastöðugleika.
Í niðurlagi bréfsins skrifuðu prófessorarnir tveir: Til þess að gera langa sögu stutta, Yðar Hátign, átti kreppan sér margar orsakir. En meginástæðan til þess, að ekki var séð fyrir, hvenær hún skylli á og hversu víðtæk og djúp hún yrði, var, að fjöldinn allur af snjöllu fólki gat ekki í sameiningu ímyndað sér, hversu mikil áhættan væri fyrir kerfið í heild.
Heldur er þetta fátæklegt svar við spurningu drottningar: Við erum snjallir, en veruleikinn er of flókinn til þess, að við skiljum hann. Það var eflaust hvort tveggja rétt, en hinir kurteisu viðmælendur drottningar sneiddu hjá öðrum skýringum á kreppunni. Margir rekja hana til misráðinna ríkisafskipta, tilrauna til að keyra niður verð á fjármagni með of ódýrum húsnæðislánum, of lágum vöxtum og öðrum þeim brellum, sem auðvelda fólki að eyða um efni fram, þótt það hefni sín til lengdar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2018.)
27.1.2018 | 05:41
Andmælti Davíð, en trúði honum samt
Ég gat þess hér á dögunum, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingiskona sat seint á árinu 2007 trúnaðarfund í Þjóðmenningarhúsinu með seðlabankastjórum, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þar sem Davíð Oddsson reifaði áhyggjur af því, að bankakerfið gæti hrunið. Andmælti hún þá honum. Eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2010, fengu þau Þorgerður og maður hennar, sem var í stjórnendahóp Kaupþings, síðan í febrúar 2008 undanþágu frá reglum Kaupþings, svo að þau gætu flutt mestöll hlutabréf sín í bankanum og skuldbindingar sínar þeirra vegna í einkahlutafélag. Með því minnkuðu þau áhættu sína stórkostlega, nokkrum mánuðum eftir að Þorgerður hafði hlustað á viðvaranir Davíðs á trúnaðarfundi.
Það af hlutabréfum sínum, sem Þorgerður og maður hennar fluttu ekki í einkahlutafélag sitt, var leyst úr veðböndum. Þau seldu það fyrir 72,4 milljónir króna þriðjudaginn 30. september 2008, eins og fram kemur í Hæstaréttardómi í máli nr. 593/2013, sem kveðinn var upp 10. apríl 2014. Það var að morgni þess dags, sem Davíð Oddsson kom á ríkisstjórnarfund og sagði, að bankakerfið yrði hrunið innan 10-15 daga. Á fundinum andmælti Þorgerður honum og sagði, að ámælisvert væri að koma og dramatísera hlutina. Davíð svaraði, að þetta ástand væri svo alvarlegt, að það væri ekki hægt að dramatísera. Síðar sama dag seldu þau hjónin þau hlutabréf sín, sem laus voru úr veðböndum. Þótt Þorgerður hefði andmælt Davíð, trúði hún honum. Eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skrifaði Þorgerður næsta dag Geir H. Haarde forsætisráðherra tölvubréf og krafðist þess, að Davíð yrði rekinn.
Hvor er sú Þorgerður, sem nú býður fram krafta sína í íslenskum stjórnmálum: Sú, sem andmælti Davíð á fundunum tveimur, eða hin, sem trúði honum?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:05 | Slóð | Facebook
20.1.2018 | 07:36
Svipmynd úr bankahruninu
Bankahrunið haustið 2008 stendur okkur enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Á fjölum Borgarleikhússins er sýnt leikrit, sem er að miklu leyti samið upp úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um það, og nýlega var rifjað upp smánarlegt umsátur um heimili stjórnmálamanna. Þótt bankastjórar Seðlabankans hefðu hvað eftir annað varað við útþenslu bankanna og í kyrrþey undirbúið þær aðgerðir, sem björguðu því, sem bjargað varð, beindist reiðin ekki síst að Seðlabankanum.
Laugardaginn 24. janúar 2009 hélt Seðlabankinn fjölsótta árshátíð á gistihúsinu Nordica. Mótmælendur fréttu af fagnaðinum og reyndu að brjóta sér leið inn í hátíðarsalinn. Dundi í hurðum við atgang þeirra, og varð mörgum innan dyra ekki um sel. Einn bankastjórinn, Davíð Oddsson, kvaddi sér þá hljóðs og sagðist þurfa að gera athugasemdir við störf árshátíðarnefndar. Hún hefði skipulagt svo skemmtilega samkomu, að greinilega kæmust færri að en vildu. Andrúmsloftið léttist nokkuð við þetta meinlausa spaug.
Brátt þyngdist andrúmsloftið þó aftur. Utan dyra fjölgaði ofbeldismönnum, og loks hafði lögreglan samband við Davíð og kvaðst ekki lengur geta tryggt öryggi hans. Aðgerðirnar væru honum til höfuðs. Fóru Davíð og kona hans þá út um bakdyr gistihússins á annarri hæð, þar sem bíll frá Seðlabankanum beið þeirra. Einhver sá til þeirra hjóna yfirgefa salinn og kom boðum til mótmælenda, sem þustu að bakdyrunum og veifuðu sumir bareflum. Bíllinn renndi af stað í þann mund er óeirðaseggina bar að, og urðu þeir að láta sér nægja að steyta ýmist hnefa eða slá með bareflum sínum út í loftið.
Þegar Davíð settist í framsætið, rakst hann á eitthvað á milli sín og bílstjórans, Garðars Halldórssonar, gamals og trausts lögreglumanns, mikillar kempu. Davíð spurði, hvað þetta væri. Jú, svaraði Garðar hinn rólegasti, þegar ég fór að heiman í kvöld, sá ég, að gömlu lögreglukylfuna mína langaði með, og ég leyfði henni það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2017.)
20.1.2018 | 07:34
Koestler og bæjarstjórnarkosningar
Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð heimsfrægur fyrir skáldsöguna Darkness at Noon eða Myrkur um miðjan dag, sem kom út á ensku 1941 og íslensku 1947. Þar reyndi hann að skýra hinar furðulegu játningar sakborninganna í sýndarréttarhöldum Stalíns á fjórða áratug. Skýringin var í fæstum orðum, að í huga sanntrúaðra kommúnista hefði aðeins verið til sannleikur flokksins. Ef flokkurinn skipaði félaga að vera sekur, þá var hann það, líka í eigin augum. Koestler þekkti slíkt sálarlíf af eigin raun, því að hann hafði um skeið verið eindreginn kommúnisti. Skáldsaga hans kom út á frönsku 1945 og átti nokkurn þátt í því, að í maí 1946 töpuðu franskir kommúnistar í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar.
Hitt vita færri, að Koestler skipti líka nokkru máli í kosningum á Íslandi. Hann hafði 1945 gefið út ritgerðasafnið The Yogi and the Commissar, Skýjaglópinn og flokksjálkinn. Þar er löng ritgerð um Ráðstjórnarríki Stalíns. Lýsti Koestler meðal annars hungursneyðinni í Úkraínu 1932-1933, fjöldabrottflutningum frá Eystrasaltslöndunum 1941 og hinu víðtæka þrælabúðaneti Stalíns, Gúlageyjunum. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fékk Jens Benediktsson blaðamann til að þýða ritgerðina, og fyllti hún fjörutíu blaðsíður í Lesbók Morgunblaðsins 29. desember 1945, nokkrum vikum fyrir bæjarstjórnarkosningar.
Íslenskir kommúnistar brugðust við hart og gáfu út sérstakt blað, Nýja menningu, til höfuðs Koestler, og dreifðu í hús bæjarins. Ungur hagfræðingur, nýkominn frá Svíþjóð, Jónas H. Haralz, skrifaði einnig í Þjóðviljann, málgagn kommúnista, að falsspámaðurinn Koestler hefði verið afhjúpaður. Skipaði Jónas sjötta sæti á lista Sósíalistaflokksins í bæjarstjórnarkosningunum, og gerðu kommúnistar sér vonir um, að hann næði kjöri. Valtýr Stefánsson svaraði Jónasi fullum hálsi og varði Koestler. Úrslit kosninganna urðu kommúnistum vonbrigði. Þeir fengu aðeins fjóra bæjarfulltrúa kjörna. Sigurganga þeirra á Íslandi var stöðvuð, ef til vill að einhverju leyti með aðstoð Koestlers.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2017.)
20.1.2018 | 07:31
Koestler og tilvistarspekingarnir
Áhorfendur kvikmynda hafa gaman af Forrest Gump, sem virtist hafa verið alls staðar nálægt, þegar eitthvað bar til tíðinda á tuttugustu öld. Sama hugmynd er að baki sögunni af Allan Karlsson, sem skreið út um glugga á hundrað ára afmælinu.
Stundum slær þó veruleikinn listinni við. Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler var iðulega nálægur í átökum og umræðum á tuttugustu öld. Móðir hans var í meðferð hjá Sigmund Freud. Hann var gyðingur og málkunnugur öllum helstu forystumönnum síonista. Á meðan hann var kommúnisti ferðaðist hann um Ráðstjórnarríkin með bandaríska skáldinu Langston Hughes. Í miðju borgarastríðinu spænska skemmti hann sér með breska skáldinu (og Íslandsvininum) W.H. Auden í Valencia, en lenti síðan í dýflissu Francos. Hann var aðstoðarmaður þýska áróðursmeistarans Willis Münzenbergs, sem margir íslenskir kommúnistar þekktu. Ungur að árum snæddi Koestler eitt sinn hádegisverð með Tómasi Mann, og síðar fékk hann sér í staupinu með Dylan Thomas og varð einkavinur Georges Orwells.
Skáldsaga Koestlers, Myrkur um miðjan dag, kom út á frönsku 1945 og átti þátt í ósigri franskra kommúnista í kosningum 1946. Um þær mundir dvaldist Koestler oft í París og umgekkst tilvistarspekingana Simone de Beauvoir, Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Ef skilgreina á tilvistarspeki stuttlega, þá er hún sú skoðun, að lífið sé tilgangslaust, en menn gæði það tilgangi með gerðum sínum. Koestler deildi hart við Beauvoir og Sartre um kommúnisma. Þótt þau gerðu sér grein fyrir ýmsum göllum kommúnismans höfðu þau óbeit á kapítalisma, einkum hinum bandaríska. Koestler var annálaður kvennamaður, og tókst honum eitt sinn að sænga hjá Beauvoir, sem annars var oftast förunautur Sartres. Ég var drukkin, og þetta gerðist aðeins einu sinni, sagði Beauvoir síðar. Koestler samdi betur við Camus, sem aðhylltist eins og hann efahyggju. Engum skugga brá á, þótt Camus og kona Koestlers, Mamaine Paget, ættu um skeið vingott. En þegar kalda stríðið hófst vildu þau Sartre og Beauvoir ekki lengur umgangast Koestler og Camus. Þau reyndu að gæða líf sitt þeim tilgangi að særa burt kapítalismann, en mistókst, sem betur fer.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2017.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2018 kl. 07:52 | Slóð | Facebook