Spurning drottningar

landscape-1448053183-queen-elizabeth-ii-braemar-highland-games-september-2015.jpgÞegar Elísabet II. Bretadrottning heimsótti Hagfræðiskólann í Lundúnum, London School of Economics, 5. nóvember 2008 í því skyni að vígja nýtt hús skólans, minntust gestgjafar hennar á fjármálakreppuna, sem þá stóð sem hæst. Drottning spurði: „Hvers vegna sá enginn hana fyrir, úr því að hún reyndist svo alvarleg?“ Eitthvað stóð í viðstöddum gáfumönnum að svara þessari einföldu spurningu.

Þess vegna settust nokkrir breskir spekingar niður í júní 2009 og ræddu hugsanlegt svar, og upp úr þeim umræðum sömdu tveir þeirra, prófessorarnir Tim Besley og Peter Hennessy, bréf til drottningar. Í bréfinu kváðu þeir ýmsa vissulega hafa varað við kreppunni vegna misgengis hagstærða og jafnvægisleysis. Enginn hefði samt haft yfirsýn yfir fjármálakerfið. Flestir hefðu haldið, að bankamenn vissu, hvað þeir væru að gera með því að taka í notkun alls konar ný fjármálatæki. Kerfið hefði skilað miklum hagnaði og allir því verið ánægðir. Sú trú hefði verið almenn, að glíma ætti við kreppur, þegar þær skyllu á, ekki reyna að afstýra þeim. Seðlabankar hefðu einbeitt sér að því að tryggja stöðugt verðlag, ekki fjármálastöðugleika.

Í niðurlagi bréfsins skrifuðu prófessorarnir tveir: „Til þess að gera langa sögu stutta, Yðar Hátign, átti kreppan sér margar orsakir. En meginástæðan til þess, að ekki var séð fyrir, hvenær hún skylli á og hversu víðtæk og djúp hún yrði, var, að fjöldinn allur af snjöllu fólki gat ekki í sameiningu ímyndað sér, hversu mikil áhættan væri fyrir kerfið í heild.“

Heldur er þetta fátæklegt svar við spurningu drottningar: „Við erum snjallir, en veruleikinn er of flókinn til þess, að við skiljum hann.“ Það var eflaust hvort tveggja rétt, en hinir kurteisu viðmælendur drottningar sneiddu hjá öðrum skýringum á kreppunni. Margir rekja hana til misráðinna ríkisafskipta, tilrauna til að keyra niður verð á fjármagni með of ódýrum húsnæðislánum, of lágum vöxtum og öðrum þeim brellum, sem auðvelda fólki að eyða um efni fram, þótt það hefni sín til lengdar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband