Hann kaus frelsið

victor-kravchenko-enfonca-le-premier-coin-dans-l-image-de-l-union-sovietique-a-travers-le-proces-de-1949.jpgEin læsilegasta bókin í ritröð Almenna bókafélagsins, Safn til sögu kommúnismans, sem ég hef umsjón með, er Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Þótt heitið sé tuggukennt, er bókin sjálf full af örlagasögum, átakanlegum, en um leið forvitnilegum, svo að lesandinn leggur hana ógjarnan frá sér. Höfundur fléttar samar í eina heild ástarævintýri sín, skýrar svipmyndir af ógnarstjórn Stalíns, ótal dæmi af svikum og prettum, en líka af hjálpsemi og hugrekki.

Kravtsjenko fæddist 1905 og ólst upp í Úkraínu. Hann varð í upphafi sanntrúaður kommúnisti og lærði verkfræði, og var einn skólabróðir hans og góðkunningi Leoníd Brezhnev, sem síðar varð hæstráðandi í Ráðstjórnarríkjunum. En hungursneyðin í Úkraínu 1932-1933 hafði mikil áhrif á Kravtsjenko. Stalín olli þessari hungursneyð með því að taka uppskeruna af bændum og reka þá inn í samyrkjubú (eða flytja þá, sem óþjálastir voru, nauðungarflutningum til Síberíu). Talið er, að um sex milljónir manns hafi soltið til bana, aðallega í Úkraínu, sem er frá náttúrunnar hendi frjósamt landbúnaðarland. Fjöldi barna varð munaðarlaus og fóru þau í hópum um Rússland að leita sér matar. Tóku foreldrar Kravtsjenkos eina slíka stúlku inn á heimilið.

Kravtsjenko varð verksmiðjustjóri víðs vegar um Ráðstjórnarríkin og kynntist þess vegna aðeins óbeint hinum víðtæku flokkshreinsunum Stalíns, þegar einræðisherrann gekk milli bols og höfuðs á mörgum kommúnistum. Kravtsjenko sá líka álengdar fangana í þrælkunarbúðunum, Gúlaginu, eins konar lifandi vofur, sviptir öllum mannlegum virðuleik. Hann þoldi sífellt verr kúgunina í heimalandi sínu, og þegar honum var í stríðinu boðið starf í viðskiptanefnd Ráðstjórnarríkjanna í Washington-borg, tók hann því fegins hendi. Hann leitaði á náðir Bandaríkjastjórnar í aprílbyrjun 1944 og gaf út bók sína á ensku röskum tveimur árum síðar. Ærðust vestrænir kommúnistar yfir henni, og er af því löng saga.

Lárus Jóhannesson, lögfræðingur og alþingismaður (móðurbróðir Matthíasar Johannessens ritstjóra), vann það stórvirki að þýða bókina, sem var 564 þéttprentaðar blaðsíður í íslensku útgáfunni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018.) Myndin er af Kravtsjenko í réttarsal í París 1949, þegar hann höfðaði mál gegn frönskum kommúnistum fyrir meiðyrði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband