Knattspyrnuleikur eða dagheimili?

Þegar ég fylgdist með heimsmeistaramótinu í knattspyrnu 2018, rifjaðist upp fyrir mér samanburður, sem Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði á hægri- og vinstristefnu á ráðstefnu Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, 18. mars 1961. Hægrimenn teldu, að ríkið ætti að gegna svipuðu hlutverki og dómari og línuverðir í knattspyrnuleik. Það skyldi sjá um, að fylgt væri settum reglum, en leyfa einstaklingunum að öðru leyti að keppa að markmiðum sínum á sama velli. Vinstrimenn hugsuðu sér hins vegar ríkið eins og fóstru á dagheimili, sem ætti að annast um börnin, en um leið ráða yfir þeim. Alkunn hugmynd sænskra jafnaðarmanna um „folkhemmet“ er af þeirri rót runnin.

Auðvitað er hvorug líkingin fullkomin. Lífið er um það frábrugðið knattspyrnuleik, að ekki geta allir verið íþróttakappar. Börn, gamalmenni, öryrkjar og sjúklingar þarfnast umönnunar, þótt búa megi svo um hnúta með sjúkratryggingum og lífeyrissjóðum, að sumt geti þetta fólk greitt sjálft fyrir umönnun annarra. Hin líkingin er þó sýnu ófullkomnari. Með skiptingunni í fóstrur og börn er gert ráð fyrir, að einn hópur hafi yfirburðaþekkingu, sem aðra vanti, svo að hann skuli stjórna og aðrir hlýða. Sú er hins vegar ekki reyndin í mannlegu samlífi, þar sem þekkingin dreifist á alla mennina.

Vinstrimenn hafa því margir horfið frá hugmyndinni um ríkið sem barnfóstru. Þeir viðurkenna, að lífið sé miklu líkara knattspyrnuleik en barnaheimili. En þeir vilja ekki láta sér nægja eins og hægrimenn að jafna rétt allra til að keppa á vellinum, heldur krefjast þess líka, að niðurstöður verði jafnaðar. Ef eitt lið skorar átta mörk og annað tvö, þá vilja vinstrimenn flytja þrjú mörk á milli, svo að fimm mörk séu skráð hjá báðum. Hægrimenn benda á það á móti, að þá dragi mjög úr hvatningunni til að leggja sig fram, jafnframt því sem upplýsingar glatast um, hverjir séu hæfastir. Það er einmitt tilgangur sérhverrar keppni að komast að því, hver skari fram úr hvar, svo að ólíkir og misjafnir hæfileikar þeirra geti nýst sem best.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júlí 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband