Stolt þarf ekki að vera hroki

Þótt enskan sé auðug að orðum, enda samruni tveggja mála, engilsaxnesku og frönsku, á hún aðeins eitt og sama orðið, „pride“, um tvö hugtök, sem íslenskan hefur eins og vera ber um tvö orð, stolt og hroka. Þess vegna er sagt á ensku, að „pride“ sé ein af höfuðsyndunum sjö. Íslendingar myndu ekki segja það um stolt, sem hefur jákvæðan blæ, þótt þeir myndu vissulega telja hroka vera synd.

Ég minnist á þetta vegna þess, að íslenska þjóðin fylltist stolti vegna frábærs árangurs landsliðsins í knattspyrnu síðustu tvö árin. Íslendingar eru fámennasta þjóð, sem keppt hefur til úrslita í heimsmótinu í knattspyrnu. En hvers vegna fylltumst „við“ stolti? Vegna þess, að okkur finnst við eiga eitthvað örlítið í sigurgöngu íslenska landsliðsins. Þótt liðsmennirnir, þjálfararnir og aðrir hlutaðeigendur hafi vissulega unnið sigrana, en ekki við hin, deilum við öll með þeim einhverju sérstöku, kunnuglegu og dýrmætu, þótt það sé ekki beinlínis áþreifanlegt: Þjóðerni.

Spekingar fræða okkur á því, að þjóðernisvitund sé mannasetning frá nítjándu öld. Hvað sem öðrum líður, á það ekki við um Íslendinga. Við höfum frá öndverðu verið sérstök þjóð. Snemma á elleftu öld var Sighvatur Þórðarson skáld staddur í Svíþjóð, og hafði kona ein orð á því, að hann væri svarteygur ólíkt mörgum Svíum. Orti þá Sighvatur, að hin íslensku augu sín hefðu vísað sér langt um „brattan stíg“. Enn kvað hann, að hann hefði gengið „á fornar brautir“, sem ókunnar væru viðmælandanum. Um svipað leyti, árið 1033, gerðu Íslendingar fyrsta alþjóðasamning sinn, og var hann við Noregskonung.

Spekingar vara okkur líka við hroka. En stolt er ekki hroki og þjóðrækni ekki þjóðremba. Um eitt minnir lífið á knattspyrnuleik: Stundum hittum við í mark og stundum fram hjá, öðru hvorum megin. Fyrir bankahrunið 2008 gætti nokkurs hroka með sumum Íslendingum, en eftir það virtust sumir vilja miða fram hjá markinu hinum megin og gera minna úr þjóðinni en efni standa til. Við hittum í mark með því að vera þjóðræknir heimsborgarar, stolt af þjóð okkar án lítilsvirðingar við aðra, hvorki hrokagikkir né undirlægjur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband