16.3.2011 | 11:21
Hugsað til Japans
Hamfarir þær og hættur, sem Japanir búa nú við, eru ótrúlegar. Jarðskjálftarnir voru svo öflugir, að þeir hnikuðu til möndli jarðar, að því er mér skilst. En ef einhverjir eru menn til að ráða fram úr erfiðleikum, þá búa þeir á þessum eyjum í Kyrrahafi. Japanir eru kunnir að þrautseigju og hetjulund.
Ég hef þrisvar verið í Japan. Fyrst var það árið 1988, þegar ég sótti þar ráðstefnu í Tokýo og Kýoto. Þá var allt fáránlega dýrt þar, enda eigna- og lánsfjárbóla í landinu, sem sprakk. Ég fór með hinni kunnu hraðlest á milli borganna tveggja og dáðist að því, hversu vel Japanir hafa nýtt sér tækni til að létta sér lífið.
Næst var ég þar eystra sem Sasakawa-styrkþegi árið 2000, og þá kynntist ég betur landi og þjóð. Japanir eru agaðir, vinnusamir, hreinlátir með afbrigðum, vinsamlegir og kurteisir, en samt grunar mig, að þeir hafi fordóma gegn öðrum þjóðum. Fáir tala ensku vel, og japanska er mjög erfið Vesturlandabúum. Landið er fallegt, en mestallt afar þéttbýlt. Ég bjó í Roppongi-hverfinu í Tokýo og flutti fyrirlestra við ýmsa háskóla.
Síðast var ég í Japan haustið 2001, og þá varð ég svo frægur að hitta keisarann og tala við hann. Hann hélt boð fyrir nokkra helstu gestafyrirlesarana á ráðstefnu Fiskifélags Japans í Yokohama, en hann er eins og faðir hans sjávarlíffræðingur að mennt. Þyrfti langt mál til að lýsa þeim helgisiðum, sem fylgt er í samtölum við keisarann.
Raunar hljóma orð eins og samtal við keisarann forneskjulega á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld. En aðalatriðið er, að nú glíma þegnar hans við mikinn vanda, og hljótum við öll að óska þeim velfarnaðar í þeirri glímu.
15.3.2011 | 15:41
Vonir Íslendinga og vonbrigði
Íslendingar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Önnur ástæðan er auðvitað, að þau hafa ekki risið undir ábyrgð. Þau létu heift í garð gamalla andstæðinga ráða ferð, þegar Davíð Oddsson var rekinn úr Seðlabankanum og Geir H. Haarde leiddur fyrir landsdóm. Þau brutu rétt á mönnum, þegar þau laumuðust til að ráða gamla trotskistann í Seðlabankann, áður en umsóknarfrestur um seðlabankastjórastöðuna var liðinn. Þau hafa haldið verndarhendi yfir skuldakóngnum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í bönkunum, af því að þau hafa viljað hafa stuðning af fjölmiðlum hans. Alvarlegustu afglöp þeirra voru þó Icesave-samningarnir. Þar sömdu þau um mörg hundruð milljarða króna hærri greiðslur til Breta og Hollendinga en seinna reyndist að mati þeirra eigin manna nauðsynlegt að greiða.
Hin ástæðan tengist þeim Jóhönnu og Steingrími hins vegar ekki beint sem einstaklingum. Hún er sú skoðun, að í stjórnmálum sé að finna ráð við hverjum vanda, að skapa megi verðmæti á fundum og því meiri verðmæti sem fundirnir standi lengur. Menn, sem binda vonir sínar við stjórnmál til lausnar mála, verða óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. Þeir ætlast til of mikils af stjórnmálamönnum. Verðmæti eru ekki sköpuð á fundum og því síður löngum fundum, heldur af hagsýnum einstaklingum, hverjum í sínu horni, sem láta stjórnast af ávinningsvon og fá sæmilegar upplýsingar með gróða og tapi á frjálsum markaði um það, hvar ávinningurinn sé mestur, hvernig best sé að fullnægja þörfum náunganna fyrir vöru eða þjónustu.
Stjórnmál eru nauðsynleg. Við þurfum að ráða saman úr ýmsum málum. En þau eru háð mjög miklum takmörkunum og eru lítt til þess fallin að leysa úr ýmsum öðrum málum, til dæmis ákvörðunum um neyslu eða fjárfestingu og um leið um framtíðarvöxt atvinnulífsins. Ískyggilegt er, hvernig mikið vald hefur síðustu misseri verið fært frá hinum 330 þúsund einstaklingum, sem á Íslandi búa, og í hendur 63 atvinnustjórnmálamanna, sem eiga að heita fulltrúar þeirra. Borgararnir munu halda áfram að verða fyrir vonbrigðum með þessa fulltrúa sína, því að þeir ætlast til of mikils af þeim. Við þurfum dreifstýringu í stað miðstýringar, lága skatta í stað hárra, viðskipti í stað valdboðs, verðlagningu í stað skattlagningar, dugnað í stað mælskubragða.
13.3.2011 | 10:31
Talan sjö
Einkennilegt er, hversu margt í lífinu er sjöfalt. Eitt kunnasta dæmið er sjö skeið eða afbrigði mannsævinnar, sem William Shakespeare telur upp í 2. þætti leikritsins Sem yður þóknast: Barnið, unglingurinn, æskumaðurinn rómantíski, hermaðurinn, frár á fæti, dómarinn með ístru, öldungurinn og loks ellisljótt gamalmennið.
Ég benti á það í Laxness, þriðja bindi ævisögu nóbelsskáldsins, sem kom út árið 2005, að smásögurnar í Sjöstafakverinu svara að sumu leyti til þessara sjö skeiða mannsævinnar.
Dauðasyndirnar, sem Guð fyrirgefur ekki á efsta degi samkvæmt kenningum kirkjufeðranna, fara einnig sjö saman: dramb, ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi.
Höfuðdygðirnar voru að vísu aðeins fjórar í heiðnum sið, dómgreind, réttsýni, hófsemi og hugrekki. En í kristnum sið bættust við trú, von og kærleikur, og þá eru þær orðnar sjö.
Undur veraldar voru að fornu sjö talsins: egypsku pýramídarnir, hangandi garðar Babýlon-borgar, Artemisarhofið í Efesos, Seifsstytta Fídíasar, grafhýsi Mausolosar í Halikarnossos, risastytta af sólguðnum á Ródos og vitinn við Alexandríuborg í Egyptalandi.
Í fjörlega skrifaðri bók Díógenesar Laertíusar, Ævisögum heimspekinga, segir frá »vitringunum sjö« í Grikklandi hinu forna, og höfðu þeir hver sitt einkunnarorð.
Sólon Aþeningur sagði: Kynnstu sjálfum þér. Kílon frá Spörtu varaði við: Í upphafi skyldi endinn skoða. Þales frá Míletos mælti: Sá, sem er óttalaus, þarf ekkert að óttast. Bías frá Príene fullyrti: Flestir menn eru illir. Kleóbúlos frá Lindon kvað: Varist öfgar. Pittakos frá Mýtilene minnti á: Nýtið tímann. Og Períandros frá Korinþu benti á: Allt er framtakssömum fært.
Enn má nefna »Systurnar sjö«, en þær eru stjörnuþyrping í Nautsmerkinu. Á íslensku eru þær oftast nefndar »sjöstirnið« eða »sjöstjarnan«. Sjö virtir kvennaháskólar í Bandaríkjunum voru enn fremur nefndir »systurnar sjö«, Barnard, Bryn Mawr, Mount Holyoke, Radcliffe, Smith, Vassar og Wellesley. Þetta nafn hefur líka verið notað um sjö stærstu olíufélög heims.
Ekki má gleyma ævintýrinu um sjösofendur. Þeir voru sjö kristnir unglingar frá Efesos, sem leituðu um miðja þriðju öld skjóls undan ofsóknum Rómverja í helli einum og voru múraðir inni. Guð lét svefn falla á þá, og þeir vöknuðu ekki aftur fyrr en að hálfri annarri öld liðinni, en þá var Rómaveldi orðið kristið. Lögðust þeir þá aftur til svefns og sofa að eilífu. Hér á landi talaði Jónas Jónsson frá Hriflu stundum um vökumenn annars vegar og sjösofendur hins vegar.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2011 og er sóttur víða í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, en ætti ekki síður að henta til fermingar- en jólagjafa.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook
12.3.2011 | 08:07
Kjartan Ólafsson um verk Þórs Whiteheads
Ég skil vel, að fortíðin hvíli þungt á ýmsum fyrrverandi forystumönnum íslenskra kommúnista og sósíalista. Kommúnisminn er einn ljótasti kaflinn í sögu tuttugustu aldar, eins og skýrt kemur fram í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út á vegum Háskólaútgáfunnar sumarið 2009. Kostaði hann hátt í hundrað milljón manns lífið.
Umræðustjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, leiddi einn fyrrverandi forystumann íslenskra sósíalista, Kjartan Ólafsson, fram í sjónvarpsþætti sínum sunnudaginn 6. mars 2011. Þar andmælti Kjartan harðlega greiningu dr. Þórs Whiteheads prófessors á íslenskum kommúnisma í stórmerkri bók, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, sem kom út fyrir jólin 2010.
Kjartan gerði eina staðhæfingu Þórs sérstaklega að umræðuefni. Hún var, að íslenskir kommúnistar hefðu á fjórða áratug fengið þjálfun í vopnaburði í Moskvu. Kjartan sagði, að margt annað en vopnaburður hefði verið kennt í skólum þeim (og nær væri raunar að kalla þjálfunarbúðir), sem Komintern (alþjóðasamband kommúnista, sem íslenski kommúnistaflokkurinn var aðili að) rak í Moskvu og um þrjátíu Íslendingar sóttu. Það er rétt. En aðalatriðið var, að vopnaburður var þar kenndur. Um það nefnir Þór órækar heimildir. Það má auðvitað gera lítið úr þeim heimildum, ef menn vilja. En skóli, þar sem vopnaburður er kenndur, jafnvel aðeins hluta námstímans, er í eðli sínu öðru vísi en skóli, þar sem aðeins er stundað venjulegt nám.
Kjartan kvað engar heimildir til um, að Íslendingar hefðu eftir nám í þessum skólum dvalist í herbúðum Rauða hersins, eins og venja var um nemendur, sem fengu þjálfun í Moskvu. En Þór benti neðanmáls í bók sinni á eina heimild, sem ég hef sjálfur kannað og get ekki skilið öðru vísi: Hún er grein eftir Hallgrím Hallgrímsson (sem seinna barðist í spænska borgarastríðinu og komst þar til nokkurra metorða sem stjórnmálafulltrúi, enda dyggur stalínisti) í málgagni ungra kommúnista, Rauða fánanum, 5. árg., 2. tbl. (1933). Heitir greinin Lífið í Rauða hernum. Raunar má líka spyrja, hvers vegna hefðu átt að gilda aðrar reglur um íslenska kommúnista en aðra nemendur í þessum skólum.
Ekki þarf að lesa lengi í bók Hallgríms um spænska borgarastríðið, Undir fána lýðveldisins, til að sjá, að höfundur hafði í senn mikla þekkingu og logandi áhuga á vopnaburði. Þess má einnig geta, að eftir Hallgrím birtist í Þjóðviljanum 22. febrúar 1943 greinin Úr sögu rauða hersins í tilefni 25 ára afmælis hersins.
Ég held, að niðurstaða allra óvilhallra fræðimanna, sem rannsaka íslensku kommúnistahreyfinguna, hljóti að vera hin sama: Íslenskir kommúnistar voru hvorki betri né verri en kommúnistar annars staðar. Þeir voru blátt áfram sömu kommúnistarnir og annars staðar, en það merkti, að þeir hikuðu ekki við að beita ofbeldi til þess að ná markmiðum sínum. Þar skildi einmitt með þeim og lýðræðisjafnaðarmönnum og öðrum lýðræðissinnum. Og um leið og fjölmennur hópur hættir að virða leikreglurnar, breytist leikurinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook
6.3.2011 | 23:28
Í nýju ljósi
Það er aðalsmerki frumlegra höfunda, að þeir sjá hlutina í nýju ljósi. Þegar við lesum verk þeirra, verður okkur að orði við okkur sjálf: Já, þetta hafði ég ekki hugsað út í! Einn slíkur höfundur var þýski rithöfundurinn Georg Christian Lichtenberg, sem uppi var 17421799. Skemmtilegt er að fletta ritsafni hans, Schriften und Briefe, Ritverk og sendibréf, sem til er á Þjóðarbókhlöðunni.
Þar leggur Lichtenberg á einum stað út af fleygum ummælum í Leikritinu Don Carlos eftir Schiller, þar sem Filippus II. Spánarkonungur er látinn segja: Sólin hnígur ekki til viðar í veldi mínu. Spánverjar réðu þá mestum hluta Vesturheims og miklum löndum í Austurálfu.
Við þessu segir Lichtenberg: Það skiptir ekki máli, hvort sólin sest aldrei í ríkjum einhvers konungs, eins og frægt var forðum um Spán, heldur hvað hún fær að sjá á gangi sínum um slík ríki.
Því má raunar bæta við, að hugsunin að baki hinum fleygu ummælum Schillers er miklu eldri. Gríski sagnritarinn Heródótos skrifaði í Sögu Persastríðanna, sem samin var á fimmtu öld fyrir Krist, að Xerxes Persakeisari hefði talað við herforingja sína um, að sólin myndi ekki hníga til viðar neins staðar handan veldis síns, eftir að Persaher hefði lagt undir sig Grikkland.
Karl V., faðir Filippusar II., á að hafa sagt, að í veldi sínu hnigi sólin ekki til viðar. Ítalska skáldið Giovanni Guarini skrifaði í formála leikritsins Il pastor fido 1585, að Katrín, dóttir Filippusar II., ætti föður, sem ríkti yfir löndum, þar sem sólin hnigi ekki til viðar, þótt nótt væri.
Rússneski herforinginn Konstantín Petrovítsj Kauman lýsti einnig veldi keisara síns með þessum frægu orðum, þegar hann hélt 1878 ræðu yfir emírnum af Afganistan.
Önnur frumleg athugasemd Lichtenbergs er: Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn. Í því sambandi má rifja upp hin fleygu orð, sem höfð eru eftir Óskari Wilde: Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 5. mars 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)
5.3.2011 | 18:19
Mönnum sést yfir tvö einföld atriði Icesave-málsins
Sleppum í bili málalengingum um lögfræðileg sjónarmið í Icesave-málinu og einbeitum okkur að tveimur einföldum atriðum þess.
Annað atriðið er, að eignir þrotabús Landsbankans eru að sögn sérfræðinga að skila meiri verðmætum en áætlað hafði verið. Þess vegna liggur ekkert á. Við eigum að tefja málið eins lengi og við getum. Tíminn vinnur með okkur.
Hitt atriðið er, að auðvitað eykst lánstraust okkar til langs tíma, ef við bætum ekki (hinni óvísu) Icesave-upphæð inn í heildarskuldir okkar. Ef Íslendingar taka ekki að sér þessar skuldir óreiðumanna, þá eru þeir ekki eins skuldugir og ella og þá eru aðrir reiðubúnari að lána þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook
4.3.2011 | 10:57
Útfarir á Þingvöllum
Jónas Jónsson frá Hriflu var kappsamur, að hverju sem hann gekk. Eitt helsta áhugamál hans upp úr 1940 var að stofna þjóðargrafreit fyrir merkismenn á Þingvöllum, og hafði hann í huga, að ýmsir frægir Bretar eru jarðsettir í Westminster-kirkju í Lundúnum. Tókst Jónasi að sjá um, að Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson væru grafnir á Þingvöllum. Þótti Jónas raunar svo áhugasamur um grafreitinn á Þingvöllum, að frægðarmenn óttuðust að sögn gárunganna kviksetningu þar.
Hvað sem því líður, hitti Jónas Halldór Kiljan Laxness á förnum vegi um þær mundir, er deilt var hvað harðast um grafreitinn. Sagði Jónas við Kiljan: Þú verður grafinn á Þingvöllum. Kiljan svaraði: Já, en þú verður grafinn í Svínahrauni.
Í Atómstöðinni, sem kom út 1946, skopaðist Kiljan að útför Jónasar Hallgrímssonar á Þingvöllum, sem fram fór haustið 1946, um svipað leyti og Ólafur Thors gerði Keflavíkursamninginn svokallaða við Bandaríkjastjórn. Kallaði hann Jónas þar blýgráa sorglega manninn sem hafði gefið út blaðið.
Jónas hafði gefið út blaðið Landvörn til stuðnings frekari varnarsamstarfi við Bandaríkjastjórn, en því voru stalínistar eins og Kiljan afar andvígir, eins og vænta mátti.
Í Atómstöðinni beitti Kiljan sama stílbragði og oft fyrr og síðar, að láta eina sögu bergmála aðra og magna hana með því: Þjóðin horfði á eftir skáldinu niður í jörðina og sjálfstæðinu út í buskann (að dómi Kiljans). Selja land, grafa bein.
Því var raunar haldið fram, að líkamsleifarnar, sem jarðsettar voru á Þingvöllum haustið 1946, væru ekki af Jónasi, heldur dönskum bakara. Séra Bjarni Jónsson, sem talaði yfir moldum hins látna, var maður gamansamur. Á meðan á athöfninni stóð, sagði hann í hálfum hljóðum við Ágúst, son sinn: Ætli það sé nú ekki vissara, að ég segi hér nokkur orð á dönsku.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2011 og er sóttur í Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út eftir mig fyrir jólin 2010.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook
26.2.2011 | 23:44
Guðríðar saga
Furðulegur nöldur- og vanmetatónn er í sumu fólki þessi misserin. Til dæmis vitnar Egill Helgason með velþóknun á bloggi sínu í einhvern kynjafræðing, sem sagði á ráðstefnu:
Landafundirnir eiga sérstaklega að vera söluvænn atburður, 1000 ára gömul ímynd sem engir Íslendingar kannast við á neinn hátt. Guðríður Þorbjarnardóttir er allt í einu orðin ofsaleg þjóðhetja, fyrsta konan sem eignaðist hvítt barn í Ameríku. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt á þessa konu minnst.
Þetta er haft eftir fræðimanni og sett á bók! Takið ekki aðeins eftir tóninum, heldur líka hinu klúra götumáli: ofsaleg. Hér talar einstaklingur, sem kann að vera skólagenginn, en er ekki menntaður.
Ég man vel eftir flugvélinni Guðríði Þorbjarnardóttur, sem Loftleiðir ráku og skírðu í höfuðið á þessari hetju. Og allir þeir, sem lesið hafa Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, og það eiga allir Íslendingar að hafa gert, vita, hver Guðríður Þorbjarnardóttir var.
Raunar hafa sumir fræðimenn sagt, að Eiríks saga rauða hefði frekar átt að heita Guðríðar saga Þorbjarnardóttur (eins og Laxdæla hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur).
Sýnt hefur verið með fornleifarannsóknum á Anse-aux-Meadows á norðurodda Nýfundnalands, að norrænir menn höfðu þar búsetu. Frásagnir Guðríðar sögu Þorbjarnardóttur og Grænlendinga sögu hafa því verið staðfestar að einhverju leyti, þótt auðvitað megi ekki taka sögurnar bókstaflega um allt.
Það var merkilegt afrek að sigla alla þessa leið á litlum farkostum. Í hinni bráðskemmtilegu bók, Ævisögu þorsksins, eftir Mark Kurlansky segir, að fornmenn hafi getað þetta vegna þorsksins: Hann varðveitti næringargildi sitt betur en annar fiskur.
Einnig verður að hafa í huga, að um árið 1000, þegar Guðríður og hennar fólk sigldu vestur um haf, var miklu hlýrra en síðar varð. Það er fyrst nú, sem er að verða jafnhlýtt og var fyrstu öldina eftir landnám.
Og ef satt er, að Guðríður hafi líka gengið suður (sem merkir aðeins eitt, að fara í pílagrímsför til Rómar), þá var hún svo sannarlega víðförlasta kona í heimi um langan aldur. Það er í frásögur færandi.
25.2.2011 | 20:18
WSJ, Ríkisútvarpið og málstaður Íslendinga
Andriki.is vekur athygli á því, að hið virta stórblað Wall Street Journal tekur afstöðu með Íslendingum í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Í leiðara blaðsins 23. janúar er bent á, að aðgerðir breskra og hollenskra stjórnvalda haustið 2008 voru ekki til að hjálpa Íslendingum, heldur breskum og hollenskum sparifjáreigendum:
Sú ákvörðun að bjarga innlánseigendum á Icesave kostaði ríkisstjórnir [Bretlands og Hollands] 3,1 milljarð punda. En allir þeir fjármunir fóru til þeirra eigin þegna sem höfðu tekið þá ákvörðun að leggja sparifé sitt inn á Íslandi. Þessar aðgerðir voru á engan hátt liður í því að koma í veg fyrir nær algert hrun íslenska bankakerfisins eða hrun gjaldmiðilsins.
Einnig segir í leiðaranum, að framkoma Breta og Hollendinga gagnvart Íslandi frá bankahruninu hafi síst verið þeim til sóma.
Ef ríkisstjórnir Bretlands og Hollands töldu þessar björgunaraðgerðir nauðsynlegar þá var það þeirra mál. En það kemur vart á óvart að Íslendingar vilji ljúka málinu eins og nýleg skoðanakönnun bendir til. En það ætti ekki að taka sem réttlætingu fyrir því að í tvö og hálft ár hafa Bretar og Hollendingar úthrópað Ísland.
Financial Times hefur tekið í sama streng. Hvers vegna getur íslenska Ríkisútvarpið ekki lagt málið fyrir á þennan eðlilega hátt, eins og hin erlendu stórblöð, í stað þess að tala sífellt um Icesave-skuldina, þegar ekki er um neina skuld að ræða, heldur aðeins kröfu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook
23.2.2011 | 12:37
Til er leið út úr Icesave-vandræðunum
Það sjónarmið er eðlilegt og fullgilt, að smáþjóð eins og Íslendingum er lítt vært í sífelldum deilum við stærstu viðskipta- og grannþjóðir okkar eins og Breta og Hollendinga. Auðvitað verðum við að leysa ágreiningsmál okkar friðsamlega. Það er allra hagur.
Eflaust er það þetta, sem hefur vakað fyrir nokkrum stuðningsmönnum nýgerðs Icesave-samkomulags úr stjórnarandstöðuflokkunum, þótt alls ekki væri hyggilegt af þeim að taka ábyrgð á því, sem ríkisstjórnin á ein að taka ábyrgð á, enda verður að vera skýr verkaskipting stjórnar og stjórnarandstöðu.
En sum ágreiningsmál eru þess eðlis, að betra er að fara sér hægt. Icesave-málið er slíkt mál. Furðulegt er að heyra suma spekinga segja, að erfitt sé að hafa þetta mál yfir sér? Gera þeir sér ekki grein fyrir, að vandræðin minnka af sjálfum sér með hverjum deginum, af því að heimtur úr þrotabúi Landsbankans verða skárri með hverjum deginum? Þess vegna á að bíða eins lengi og kostur er með að leiða málið til lykta.
Það var líka auðheyrt á aðalsamningamanni Íslendinga, Lee Buchheit, sem mun hafa unnið mjög gott starf í samninganefndinni við Breta og Hollendinga ásamt Lárusi Blöndal hæstaréttarlögmanni, fulltrúa stjórnarandstöðunnar, að hann taldi dómstólaleiðina vænlega.
Málið snýst um, hvort ríkissjóður Íslands beri að lögum ábyrgð á skuldbindingum hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var eftir lögum og reglum EES, Evrópska efnahagssvæðisins.
Íslendingar hafa haldið því fram, að ríkissjóður beri ekki slíka lagalega ábyrgð, enda er hvergi stafkrók um það að finna í evrópskum lögum og reglum, eins og Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson, prófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hafa báðir bent á.
Forstöðumaður hins norska sjóðs, sem starfar eftir nákvæmlega sömu evrópsku reglum og hinn íslenski, aftekur, að ríkissjóður Noregs beri ábyrgð á skuldbindingum hins norska sjóðs.
Hvergi var sagt opinberlega og afdráttarlaust, að ríkissjóður bæri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins, þótt auðvitað væri ekki unnt að segja hið gagnstæða skýrt á erfiðum stundum, þar sem það hefði óhjákvæmlega haft í för með sér áhlaup á íslensku bankana og raunar sennilega á fleiri banka.
Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ríkið reynt að halda bönkunum gangandi, þótt engin opinber og yfirlýst ábyrgð væri á skuldbindingum þeirra við innstæðueigendur. En kringumstæður voru ekki eðlilegar haustið 2008, enda höfðu fjármálaráðherra Hollands og aðalseðlabankastjóri Evrópu báðir lýst yfir því, að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóða banka samkvæmt reglum EES ætti ekki við, þegar fjármálakerfi heillar þjóðar væri í voða.
Það var vegna ótta við áhlaup á aðra banka sem breska og hollenska ríkið snöruðu út tryggingu til allra innstæðueigenda í útbúum Landsbankans í þessum löndum, þegar ljóst var, að Tryggingarsjóðurinn íslenski gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er þetta fé, sem þessir aðilar eru nú að krefja íslenska ríkið um.
Ein ástæðan til þess, að íslensku bankarnir voru verr staddir en ella, var, að breska ríkið hafði lokað útbúum Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi í stað þess að veita þeim neyðarlán eins og öllum öðrum bönkum, líka í eigu erlendra aðila, hafði verið veitt, auk þess sem ríkið setti Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök. Enginn vafi er á því, að með þessu felldi breska ríkið eigur bankanna stórkostlega í verði. Hver á að bera tjónið af þessari valdníðslu?
Ef Bretar og Hollendingar vilja láta reyna á kröfur sínar á hendur ríkissjóði, þá er eðlilegast, að þeir höfði mál í varnarþingi hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þeir ættu með öðrum orðum að leggja málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. (Leggi þeir málið fyrir dómstóla í öðrum löndum, þá verða þeir að lokum að fá staðfestingu íslenskra dómstóla á úrskurðum hinna erlendu dómstóla, svo að þeir eru þar litlu að bættari.)
Málið snýst ekki um, hvort við fáum afslátt á kröfu, heldur hvort okkur beri skylda til að greiða kröfu. Hvaðan kom sú skylda?