Útfarir á Þingvöllum

jonasfrahriflu_1066227.jpgJónas Jónsson frá Hriflu var kappsamur, að hverju sem hann gekk. Eitt helsta áhugamál hans upp úr 1940 var að stofna þjóðargrafreit fyrir merkismenn á Þingvöllum, og hafði hann í huga, að ýmsir frægir Bretar eru jarðsettir í Westminster-kirkju í Lundúnum. Tókst Jónasi að sjá um, að Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson væru grafnir á Þingvöllum. Þótti Jónas raunar svo áhugasamur um grafreitinn á Þingvöllum, að frægðarmenn óttuðust að sögn gárunganna kviksetningu þar.

Hvað sem því líður, hitti Jónas Halldór Kiljan Laxness á förnum vegi um þær mundir, er deilt var hvað harðast um grafreitinn. Sagði Jónas við Kiljan: „Þú verður grafinn á Þingvöllum.“ Kiljan svaraði: „Já, en þú verður grafinn í Svínahrauni.“

Í Atómstöðinni, sem kom út 1946, skopaðist Kiljan að útför Jónasar Hallgrímssonar á Þingvöllum, sem fram fór haustið 1946, um svipað leyti og Ólafur Thors gerði Keflavíkursamninginn svokallaða við Bandaríkjastjórn. Kallaði hann Jónas þar „blýgráa sorglega manninn sem hafði gefið út blaðið“.

Jónas hafði gefið út blaðið Landvörn til stuðnings frekari varnarsamstarfi við Bandaríkjastjórn, en því voru stalínistar eins og Kiljan afar andvígir, eins og vænta mátti.

Í Atómstöðinni beitti Kiljan sama stílbragði og oft fyrr og síðar, að láta eina sögu bergmála aðra og magna hana með því: Þjóðin horfði á eftir skáldinu niður í jörðina og sjálfstæðinu út í buskann (að dómi Kiljans). „Selja land, grafa bein.“

Því var raunar haldið fram, að líkamsleifarnar, sem jarðsettar voru á Þingvöllum haustið 1946, væru ekki af Jónasi, heldur dönskum bakara. Séra Bjarni Jónsson, sem talaði yfir moldum hins látna, var maður gamansamur. Á meðan á athöfninni stóð, sagði hann í hálfum hljóðum við Ágúst, son sinn: „Ætli það sé nú ekki vissara, að ég segi hér nokkur orð á dönsku.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2011 og er sóttur í Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út eftir mig fyrir jólin 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband