Guðríðar saga

Furðulegur nöldur- og vanmetatónn er í sumu fólki þessi misserin. Til dæmis vitnar Egill Helgason með velþóknun á bloggi sínu í einhvern kynjafræðing, sem sagði á ráðstefnu:

Landafundirnir eiga sérstaklega að vera söluvænn atburður, 1000 ára gömul ímynd sem engir Íslendingar kannast við á neinn hátt. Guðríður Þorbjarnardóttir er allt í einu orðin ofsaleg þjóðhetja, fyrsta konan sem eignaðist hvítt barn í Ameríku. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt á þessa konu minnst.

Þetta er haft eftir fræðimanni og sett á bók! Takið ekki aðeins eftir tóninum, heldur líka hinu klúra götumáli: „ofsaleg“. Hér talar einstaklingur, sem kann að vera skólagenginn, en er ekki menntaður.

Ég man vel eftir flugvélinni Guðríði Þorbjarnardóttur, sem Loftleiðir ráku og skírðu í höfuðið á þessari hetju. Og allir þeir, sem lesið hafa Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, og það eiga allir Íslendingar að hafa gert, vita, hver Guðríður Þorbjarnardóttir var.

Raunar hafa sumir fræðimenn sagt, að Eiríks saga rauða hefði frekar átt að heita Guðríðar saga Þorbjarnardóttur (eins og Laxdæla hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur).

Sýnt hefur verið með fornleifarannsóknum á Anse-aux-Meadows á norðurodda Nýfundnalands, að norrænir menn höfðu þar búsetu. Frásagnir Guðríðar sögu Þorbjarnardóttur og Grænlendinga sögu hafa því verið staðfestar að einhverju leyti, þótt auðvitað megi ekki taka sögurnar bókstaflega um allt.

Það var merkilegt afrek að sigla alla þessa leið á litlum farkostum. Í hinni bráðskemmtilegu bók, Ævisögu þorsksins, eftir Mark Kurlansky segir, að fornmenn hafi getað þetta vegna þorsksins: Hann varðveitti næringargildi sitt betur en annar fiskur.

Einnig verður að hafa í huga, að um árið 1000, þegar Guðríður og hennar fólk sigldu vestur um haf, var miklu hlýrra en síðar varð. Það er fyrst nú, sem er að verða jafnhlýtt og var fyrstu öldina eftir landnám.

Og ef satt er, að Guðríður hafi líka gengið suður (sem merkir aðeins eitt, að fara í pílagrímsför til Rómar), þá var hún svo sannarlega víðförlasta kona í heimi um langan aldur. Það er í frásögur færandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband