Til er leið út úr Icesave-vandræðunum

Það sjónarmið er eðlilegt og fullgilt, að smáþjóð eins og Íslendingum er lítt vært í sífelldum deilum við stærstu viðskipta- og grannþjóðir okkar eins og Breta og Hollendinga. Auðvitað verðum við að leysa ágreiningsmál okkar friðsamlega. Það er allra hagur.

Eflaust er það þetta, sem hefur vakað fyrir nokkrum stuðningsmönnum nýgerðs Icesave-samkomulags úr stjórnarandstöðuflokkunum, þótt alls ekki væri hyggilegt af þeim að taka ábyrgð á því, sem ríkisstjórnin á ein að taka ábyrgð á, enda verður að vera skýr verkaskipting stjórnar og stjórnarandstöðu.

En sum ágreiningsmál eru þess eðlis, að betra er að fara sér hægt. Icesave-málið er slíkt mál. Furðulegt er að heyra suma spekinga segja, að erfitt sé að „hafa þetta mál yfir sér“? Gera þeir sér ekki grein fyrir, að vandræðin minnka af sjálfum sér með hverjum deginum, af því að heimtur úr þrotabúi Landsbankans verða skárri með hverjum deginum? Þess vegna á að bíða eins lengi og kostur er með að leiða málið til lykta.

Það var líka auðheyrt á aðalsamningamanni Íslendinga, Lee Buchheit, sem mun hafa unnið mjög gott starf í samninganefndinni við Breta og Hollendinga ásamt Lárusi Blöndal hæstaréttarlögmanni, fulltrúa stjórnarandstöðunnar, að hann taldi dómstólaleiðina vænlega.

Málið snýst um, hvort ríkissjóður Íslands beri að lögum ábyrgð á skuldbindingum hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var eftir lögum og reglum EES, Evrópska efnahagssvæðisins.

Íslendingar hafa haldið því fram, að ríkissjóður beri ekki slíka lagalega ábyrgð, enda er hvergi stafkrók um það að finna í evrópskum lögum og reglum, eins og Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson, prófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hafa báðir bent á.

Forstöðumaður hins norska sjóðs, sem starfar eftir nákvæmlega sömu evrópsku reglum og hinn íslenski, aftekur, að ríkissjóður Noregs beri ábyrgð á skuldbindingum hins norska sjóðs.

Hvergi var sagt opinberlega og afdráttarlaust, að ríkissjóður bæri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins, þótt auðvitað væri ekki unnt að segja hið gagnstæða skýrt á erfiðum stundum, þar sem það hefði óhjákvæmlega haft í för með sér áhlaup á íslensku bankana og raunar sennilega á fleiri banka.

Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ríkið reynt að halda bönkunum gangandi, þótt engin opinber og yfirlýst ábyrgð væri á skuldbindingum þeirra við innstæðueigendur. En kringumstæður voru ekki eðlilegar haustið 2008, enda höfðu fjármálaráðherra Hollands og aðalseðlabankastjóri Evrópu báðir lýst yfir því, að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóða banka samkvæmt reglum EES ætti ekki við, þegar fjármálakerfi heillar þjóðar væri í voða.

Það var vegna ótta við áhlaup á aðra banka sem breska og hollenska ríkið snöruðu út tryggingu til allra innstæðueigenda í útbúum Landsbankans í þessum löndum, þegar ljóst var, að Tryggingarsjóðurinn íslenski gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er þetta fé, sem þessir aðilar eru nú að krefja íslenska ríkið um.

Ein ástæðan til þess, að íslensku bankarnir voru verr staddir en ella, var, að breska ríkið hafði lokað útbúum Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi í stað þess að veita þeim neyðarlán eins og öllum öðrum bönkum, líka í eigu erlendra aðila, hafði verið veitt, auk þess sem ríkið setti Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök. Enginn vafi er á því, að með þessu felldi breska ríkið eigur bankanna stórkostlega í verði. Hver á að bera tjónið af þessari valdníðslu?

Ef Bretar og Hollendingar vilja láta reyna á kröfur sínar á hendur ríkissjóði, þá er eðlilegast, að þeir höfði mál í varnarþingi hins íslenska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þeir ættu með öðrum orðum að leggja málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. (Leggi þeir málið fyrir dómstóla í öðrum löndum, þá verða þeir að lokum að fá staðfestingu íslenskra dómstóla á úrskurðum hinna erlendu dómstóla, svo að þeir eru þar litlu að bættari.)

Málið snýst ekki um, hvort við fáum afslátt á kröfu, heldur hvort okkur beri skylda til að greiða kröfu. Hvaðan kom sú skylda?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband