Í nýju ljósi

Það er aðalsmerki frumlegra höfunda, að þeir sjá hlutina í nýju ljósi. Þegar við lesum verk þeirra, verður okkur að orði við okkur sjálf: Já, þetta hafði ég ekki hugsað út í! Einn slíkur höfundur var þýski rithöfundurinn Georg Christian Lichtenberg, sem uppi var 1742–1799. Skemmtilegt er að fletta ritsafni hans, Schriften und Briefe, Ritverk og sendibréf, sem til er á Þjóðarbókhlöðunni.

Þar leggur Lichtenberg á einum stað út af fleygum ummælum í Leikritinu Don Carlos eftir Schiller, þar sem Filippus II. Spánarkonungur er látinn segja: „Sólin hnígur ekki til viðar í veldi mínu.“ Spánverjar réðu þá mestum hluta Vesturheims og miklum löndum í Austurálfu.

Við þessu segir Lichtenberg: „Það skiptir ekki máli, hvort sólin sest aldrei í ríkjum einhvers konungs, eins og frægt var forðum um Spán, heldur hvað hún fær að sjá á gangi sínum um slík ríki.“

Því má raunar bæta við, að hugsunin að baki hinum fleygu ummælum Schillers er miklu eldri. Gríski sagnritarinn Heródótos skrifaði í Sögu Persastríðanna, sem samin var á fimmtu öld fyrir Krist, að Xerxes Persakeisari hefði talað við herforingja sína um, að sólin myndi ekki hníga til viðar neins staðar handan veldis síns, eftir að Persaher hefði lagt undir sig Grikkland.

Karl V., faðir Filippusar II., á að hafa sagt, að í veldi sínu hnigi sólin ekki til viðar. Ítalska skáldið Giovanni Guarini skrifaði í formála leikritsins Il pastor fido 1585, að Katrín, dóttir Filippusar II., ætti föður, sem ríkti yfir löndum, þar sem sólin hnigi ekki til viðar, þótt nótt væri.

Rússneski herforinginn Konstantín Petrovítsj Kauman lýsti einnig veldi keisara síns með þessum frægu orðum, þegar hann hélt 1878 ræðu yfir emírnum af Afganistan.

Önnur frumleg athugasemd Lichtenbergs er: „Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn.“ Í því sambandi má rifja upp hin fleygu orð, sem höfð eru eftir Óskari Wilde: „Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 5. mars 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband