10.5.2011 | 08:18
Tvö ótrúleg tónlistarmyndbönd
Minn gamli lærimeistari, Friedrich August von Hayek, á afmæli 8. maí 2011. Hann fæddist þennan dag árið 1899 í Vínarborg, þar sem þá var enn höfuðborg tvíburaríkjanna Austurríkis-Ungverjalands, barðist kornungur í her Austurríkiskeisara, en nam lögfræði og hagfræði eftir stríð. Þótti hann snjallastur og djúpsæjastur austurrísku hagfræðinganna svonefndu, sem höfðu eigin kenningar um eðli hins frjálsa hagkerfis, og var hann fenginn til að kynna þessar kenningar í Lundúnum, þar sem hann varð prófessor við hagfræðiskólann (London School of Economics) aðeins 32 ára að aldri, 1931.
Hinn kunni hagfræðingur Sir John Hicks sagði eitt sinn, að The Hayek Story eða sagan af Hayek væri ósögð. Hann átti við það, að á fjórða áratug kepptu þeir von Hayek og John Maynard Keynes um forystuhlutverk í stétt enskumælandi hagfræðinga. Hayek taldi, að heimskreppan væri vegna þess, að fjármálamarkaður hefði ekki starfað við nógu mikinn aga (eða fengið nægar upplýsingar) árin á undan og skilaboðin um arðsamar fjárfestingar því verið röng. Þess vegna hefði orðið til lánsfjárbóla, sem þyrfti að springa. Niðursveifla væri eðlileg afleiðing uppsveiflu. Markaðurinn kæmist í jafnvægi, þegar óarðbær fyrirtæki hefðu hætt starfsemi sinni og laun lækkað. Aðalatriðið væri, að einstaklingar fengju fullnægjandi upplýsingar, svo að framboð lagaði sig að eftirspurn.
Keynes var hins vegar þeirrar skoðunar, að heimskreppan væri vegna smíðagalla í kapítalismanum. Hann næði ekki alltaf jafnvægi af sjálfum sér. Þess vegna þyrfti ríkið að handstýra honum, að minnsta kosti að einhverju marki. Í stað þess að óttinn við atvinnuleysi knýði niður laun, ætti ríkið að lækka þau óbeint fyrir tilstilli gjaldmiðilsins (prenta peninga) í því skyni að tryggja sæmilegan vinnufrið. Í stað þess að hrekja fyrirtæki í gjaldþrot ætti ríkið að leggja þeim til starfsfé (prenta peninga) eða sinna sjálft stórfelldum opinberum framkvæmdum.
Ef til vill má lýsa muninum á kenningum þeirra með því að segja, að Hayek hefði litið á hagkerfið sem viðkvæman gróður, sem hlúa þyrfti að, svo að hann yxi og dafnaði eftir eigin lögmálum, en Keynes talið það vél, sem þyrfti að ræsa og tryggja eldsneyti. Hayek dró fram kosti sjálfstýringar, en Keynes taldi ekki komist hjá einhverri handstýringu. Báðir voru þeir þó frjálslyndir lýðræðissinnar, eins og skýrt kom fram í bréfi Keynes 1945 til Hayeks um hina frægu ádeilu Hayeks á sósíalisma, Leiðina til ánauðar.
Óhætt er að segja, að kenning Keynes hafi orðið ofan á eftir stríð, þótt sumir tækju upp kenningu Hayeks upp úr 1970, þegar úrræði Keynes að leysa vandann með því að fleygja í hann fé, prenta peninga virtust ekki duga. Þess má geta, að núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, skrifaði meistaraprófsritgerð sína í Cambridge-háskóla um ólíkar kreppuskýringar þeirra Hayeks og Keynes, og birtist hún 1985 í Fjármálatíðindum, sem ekki koma lengur út. Lagðist Már þar auðvitað á sveif með Keynes, sem var sjálfur frá Cambridge.
En því minnist ég á þetta allt, að á Netinu rakst ég á tvö mjög skemmtileg og vel gerð tónlistarmyndbönd, jafnvel rapparaleg, um hina ólíku sýn þeirra Hayeks og Keynes á hagkerfinu. Eru þau vitanlega leikin. Í öðru myndbandinu, Fear the Boom and Bust, syngja þeir félagar í seðlabankaveislu um kreppuna og úrræði gegn henni. Í hinu, Fight of the Century, fræða þeir bandaríska þingnefnd á skoðunum sínum og svara spurningum. Eru viðfangs- og ágreiningsefnin um margt hin sömu nú og í heimskreppunni upp úr 1930.
Þótt Keynes hafi látist 1946 og Hayek 1992, lifa kenningar þeirra beggja góðu lífi, eins og þessi ótrúlegu tónlistarmyndbönd sýna.
8.5.2011 | 07:39
Nordal og nemendur hans
Sigurður Nordal prófessor var einhver áhrifamesti ritskýrandi Íslendinga fyrr og síðar. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur og fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. Það leyndi sér ekki heldur, að hann var maður vitur, hafði jafnan þaulhugsað það, sem hann sagði.
Í Oxford sagði mér roskinn kennari í engilsaxneskum fræðum, að Nordal hefði komið þangað og haldið fyrirlestra og hefði mönnum þar þótt mikið til hans koma. Góður vinur minn var sendill hjá kaupmanninum, föður sínum, í æsku og fór þá oft með sendingar heim til Nordals á Baldursgötu. Kvað hann engan mann sér óvandabundinn hafa verið elskulegri og skemmtilegri. Gaf Nordal sér tíma til að rabba við sendilinn unga og gaf honum jafnvel bækur, sem hann taldi honum hollt að lesa.
Svo sem nærri má geta, mótaði Nordal nemendur sína í Háskóla Íslands. Kjartan Sveinsson bókavörður sagði að vísu háðslega í hinni bráðskemmtilegu bók sinni, Afbrigðum og útúrdúrum, sem kom út 2005: Hann kunni best við þá hvolpa, sem hann hafði sjálfur alið, þótt ekki fengi hann alltaf þakkir frá þeim að sama skapi.
Einn nemandi Nordals var Jón S. Guðmundsson, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla. Man ég enn vel eftir sumu því, sem hann hafði í kennslustundum eftir Nordal. Eitt var þetta: Laxdæla saga hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. En líklega hefur tíðarandinn ekki leyft, að saga væri kennd við konu.
Seinna komst ég að því, að fleiri hafa bent á þetta. Til dæmis kallaði Albert U. Bååth þýðingu sína á Laxdæla sögu, sem kom út árið 1900, Sagan om Gudrun. Breski norrænufræðingurinn Bertha S. Phillpotts sagði líka í Edda and Saga frá 1931, að Guðrún væri svo fyrirferðarmikil í Laxdæla sögu, að hún mætti heita ævisaga hennar.
Annað, sem Nordal sagði nemendum sínum og Jón S. Guðmundsson okkur, nemendum sínum: Hefur Þorgeir Ljósvetningagoði ekki verið að yrkja Völuspá undir feldinum? Hún er svo sannarlega ort á mótum heiðni og kristni.
Þórarinn Eldjárn fræddi mig síðan á því, að líklega hefði Nordal sagt nemendum sínum eitt, sem Þórarinn fann skrifað eftir honum í minniskompu föður síns, Kristjáns forseta: Það, sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.
Snjallt, skýrt, einfalt þaulhugsað.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 7. maí 2011 og er sótt í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af þjóðlegum fróðleik, fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin útskriftargjöf.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:42 | Slóð | Facebook
7.5.2011 | 09:05
Samnýtingarbölið: Fílar
Ég birti grein í 15. tbl. 29. árgangs Vísbendingar 18. apríl 2011, 2. bls., undir heitinu Samnýtingarbölið: Fílar. Fyrra orðið er þýðing mín á heiti frægrar greinar eftir bandaríska umhverfisfræðinginn Garrett Hardin í Science 1968, The Tragedy of the Commons á ensku. Þar útskýrir Hardin þann vanda, sem hlýst af því, þegar margir nýta saman einhver gæði. Þá er hætt við því, að einhver freistist til að ofnýta gæðin, því að hann hirðir einn gróðann, en kostnaðurinn skiptist á alla.
Eitt dæmi um þetta er bithagar íslenskra bænda á fjöllum, í almenningum, sem kallað var að fornu. Til að koma í veg fyrir samnýtingarbölið (að einhver bóndinn ræki fleira fé á fjall en eðlilegt var) tóku bændur upp ítölu, sem var ekkert annað en kvóti á hverja jörð: Hver bóndi mátti aðeins telja í almenninginn tiltekna tölu fjár. Hefur dr. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor skrifað um þetta athyglisverða ritgerð í virt erlent tímarit.
Í greininni í Vísbendingu beiti ég þessari greiningu hins vegar á fílahjarðir á gresjum Afríku og velti fyrir mér, hvort muni duga betur til þess að vernda fílastofna, viðskipti eða veiðibann. Hvort skyldu íbúar á slóðum fílanna verða líklegri til að vernda þá, ef þeir fá að selja skotleyfi á takmarkaða tölu þeirra og hirða af þeim fílabeinið og selja, eða ef þeim er bannað með öllu að hafa nytjar af fílunum?
Hugi Ólafsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, hefur rétt fyrir sér um það, sem gerist, ef leið viðskiptanna er tekin fram yfir lítt framkvæmanlegt veiðibann. Með þessu skapast eignarréttur yfir fílum og innfæddir sjá sér hag í að viðhalda stofninum og berjast gegn veiðiþjófum, skrifaði hann í Náttúrufræðinginn 1997.
Samnýtingarbölið er einn anginn af hinu stóra almenna verkefni, sem af því hlýst, að menn vinna við sumar leikreglur gegn almannahag, en við aðrar leikreglur að almannahag. Hvernig getum við breytt veiðiþjófum í veiðiverði með einu pennastriki? Svar mitt um fílana er í frumdráttum í Vísbendingu, en ég fæ vonandi tækifæri til að færa frekari rök fyrir því annars staðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook
6.5.2011 | 08:42
Stórfelld vanræksla stjórnvalda
Stjórnvöld hafa nú kynnt svör sín við athugasemdum ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, í Icesave-málinu. Hafa þau sem betur fer fengið nokkra snjalla lögfræðinga til þess að aðstoða sig við svörin, svo að þau eru vel samin og rökstudd.
En eins og Sigurður Kári Kristjánsson benti á í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. maí 2011 hafa stjórnvöld horft fram hjá einu. Forseti ESA, Norðmaðurinn Per Sanderud, hefur gefið mjög heimskulegar og fljótfærnislegar yfirlýsingar um málið, sem fjandsamlegar eru Íslendingum. Hann hefur jafnvel leyft sér að segja EFTA-dómstólnum fyrir verkum með því að telja víst, að hann úrskurðaði Íslendingum í óhag.
Þótt forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Arne Hyttnes, taki sérstaklega fram, að á þeim sjóði sé ekki ríkisábyrgð (en um hið sama stendur einmitt deila Íslendinga við Breta og Hollendinga), vilja norsk stjórnvöld alls ekki styggja hin bresku, enda eru Bretar ein mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna. Norsk stjórnvöld eru bersýnilega ekki í neinum vandræðum með að taka stærri hagsmuni fram yfir minni, fórna frændum fyrir viðskiptavini. Sanderud þessi tekur mið af því.
Á meðan Sanderud hefur aðkomu að Icesave-málinu, fær það ekki réttláta meðferð í ESA.
Þessi maður er algerlega vanhæfur til að fara með málið. Íslensk stjórnvöld hefðu átt að krefjast þess, að hann viki sæti í þessu mikla hagsmunamáli Íslendinga. Hann á þar hvergi að koma nærri. Ég skil ekki fremur en Sigurður Kári, hvers vegna íslensk stjórnvöld sætta sig við aðkomu Sanderuds að málinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.5.2011 kl. 12:04 | Slóð | Facebook
5.5.2011 | 08:09
Víg Osama bin Ladens
Bandaríkjamenn hljóta að vera fegnir. Þeir hafa fundið og vegið þann mann, Osama bin Laden, sem skipulagði hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september 2001, en hún er fyrsta raunverulega árásin, sem gerð hefur verið á þetta volduga ríki í vestri.
Óljóst er þó, eftir hvaða alþjóðalögum Bandaríkjamenn fara með því að senda þyrlusveit inn í Pakistan og fella bin Laden, en það læt ég eftir öðrum fróðari mér. Þeir eru í stríði við hryðjuverkamenn, og í stríði er flest leyfilegt í reynd.
Osama bin Laden var öfgasinnaður múslimi. Því er stundum haldið fram, að öll trúarbrögð séu jafnhættuleg. Ég tek ekki undir það. Mikill munur er á kristinni trú og Íslam, eins og Samuel Huntington benti á í merkri bók um árekstur menningarsvæða.
Hver er gæfumunurinn? Kristur var kennimaður, predikari. Hann var í huga okkar fallegur maður í síðri, hvítri skikkju með heiðríkju í svip og hélt fjallræðuna. Hann gerði engum mein, þótt hann brýndi fyrir lærisveinum sínum, að þeir yrðu að vera honum dyggir. Hann tók fram, að sitt ríki væri ekki af þessum heimi.
Aðspurður sagði Kristur, að menn ættu að gjalda keisarans það, sem keisarans væri, og Guði það, sem Guðs væri. Í þessum orðum felst skiptingin í veraldlegt og andlegt vald, sem miklu hefur breytt um fjölræðið á Vesturlöndum. Valdið skiptist milli keisara og páfa, og síðar skiptist hið veraldlega vald enn frekar fyrir rás viðburða og hetjulega baráttu einstakra frelsisvina.
Í Íslam er þessi skipting í veraldlegt og andlegt vald miklu óskýrari. Múhameð var ekki aðeins spámaður, heldur líka herforingi. Hann sveiflaði sverði af fráum hesti, grimmur á svip, og lagði undir sig borgir. Í reynd er Íslam því miklu óumburðarlyndari trú en hin kristna. Þar er valdið á einni hendi, ekki mörgum.
Vitaskuld eru jafnmargir ágætir menn múslimar og kristnir menn. Manngæska dreifist sennilega fremur jafnt á öll trúarbrögð. En það breytir því ekki, að Íslam er miklu hættulegra frelsinu en kristin trú, og öfgasinnað Íslam á okkar dögum er hættulegt því frelsi, sem smám saman hefur aukist á Vesturlöndum og við njótum nú. Sæmdarmorð í röðum íslamskra innflytjenda og dauðadómar í Arabaríkjum yfir rithöfundum og skopteiknurum á Vesturlöndum sýna það best.
Með vígi Osama bin Ladens hefur óvinum vestræns frelsis fækkað.
3.5.2011 | 09:11
Misjafnir dómar
Skáld og rithöfundar hafa löngum sætt misjöfnum dómum. Bandaríski háðfuglinn Dorothy Parker sagði til dæmis um skáldsöguna L'Amante del Cardinale eftir Benító Mússólíni, sem kom út í Bandaríkjunum 1928 undir nafninu The Cardinal's Mistress, Hjákona kardínálans: Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.
Þýski félagsfræðingurinn Oswald Spengler skrifaði í riti frá árinu 1933 um bók landa síns, þjóðernisjafnaðarmannsins Arthurs Rosenbergs, Mythus des XX. Jahrhunderts, Goðsögn tuttugustu aldar: Bók, þar sem ekkert er rétt nema blaðsíðutölin. Minnir þetta á það, sem bandaríska skáldkonan Mary McCarthy mælti í sjónvarpsþætti Dicks Cavetts í janúar 1980 um aðra bandaríska skáldkonu, Lillian Hellman: Hvert einasta orð, sem hún skrifar, er ósatt, að meðtöldu og og ákveðnum greini.
Einnig má rifja upp það, sem haft er eftir þýska skáldinu Gotthold E. Lessing um ónefnt rit: Það, sem er þar nýtt, er ekki gott, og það, sem er þar gott, er ekki nýtt.
Stysti og um leið einhver neikvæðasti ritdómur á íslenskri tungu er sá, sem dr. Guðmundur Finnbogason, sálfræðingur og landsbókavörður, skrifaði í Vöku 1927 um Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Kiljan Laxness: Vélstrokkað tilberasmjör. Samkvæmt þjóðtrúnni var tilberi vera, sem galdrakind sendi til að sjúga mjólk úr kúm í haga og færa sér. Tilberinn spjó feng sínum í ílát við búrglugga, og var hrært úr spýjunni smjör. Guðmundur átti við það, að Halldór hefði sogið í sig erlendar nútímabókmenntir, spúið þeim í íslenskt ílát og hrært með nútímatækni úr verk sitt.
Í sama hefti Vöku 1927 gat að líta hin frægu ummæli Kristjáns Albertssonar um skáldsögu Laxness: Loksins, loksins. Sjálfur fékk Kristján sinn skammt, þegar hann gaf út greinasafnið Í gróandanum 1955. Þá skrifaði Einar Bragi ritdóm í Birting, sem hljóðaði í heild sinni svo: Bókin er sönnun þess, að jafnvel í gróandanum getur kalviðurinn ekki laufgast. Er þetta sennilega næststysti ritdómur íslenskrar tungu.
Ekki hafa allir rithöfundar brugðist eins við gagnrýni og Jóhannes Kjarval. Skömmu eftir að hann gaf árið 1930 út ljóðabók sína, Grjót, hitti hann Jónas Jónsson frá Hriflu á förnum vegi. Mér finnst nafnið of hart, sagði Jónas. Hún hefði heldur átt að heita Leir. Kjarval svaraði snúðugt: Nú geri ég það, sem fjandinn mun aldrei gera. Gekk hann burt.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 30. apríl og er sóttur á ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er til í öllum bókabúðum og hentar vel í fermingar- og útskriftargjafir.)
1.5.2011 | 12:46
Merkilegt afmæli 30. apríl

Hinn 30. apríl 2011 eru rétt tuttugu ár frá því, að Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn, 1991. Hann stóð ekki upp af stóli forsætisráðherra fyrr en 15. september 2004, eftir þrettán og hálfs árs setu.
Tímabilið 19912004 er eitthvert mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Hagkerfið var opnað, aðgangur að mörkuðum í Evópu tryggður með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, réttur einstaklinga bættur með nýjum stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, fyrirtæki ríkisins seld, en afraksturinn notaður til að lækka skuldir ríkisins niður í nánast ekki neitt, skynsamlegt og hagkvæmt fyrirkomulag fiskveiða treyst með margvíslegri löggjöf og skattar lækkaðir með þeirri afleiðingu, að vinnusemi einstaklinga og verðmætasköpun jókst, svo að skatttekjurnar sjálfar lækkuðu ekki, af því að kakan stækkaði.
Kjör almennings bötnuðu um þriðjung þetta tímabil, sem er mikið, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að þetta mátti ekki rekja til Bretavinnu eða síldarævintýra, eins og stundum áður, heldur til eðlilegs hagvaxtar í skjóli atvinnufrelsis. Kjör almennings bötnuðu ekki heldur út af lánsfjárbólu, því að hún kom síðar til sögunnar, eftir 2004, eins og sést mjög vel á 27. mynd (103. bls.) í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, þar sem erlendar skuldir 19912007 eru sýndar í hlutfalli við verga landsframleiðslu.
Í áðurnefndri bók minni er líka sýnt, að fyrstu átta árin í forsætisráðherratíð Davíðs var aðhald í útgjöldum ríkisins. Þau jukust ekki sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá var Friðrik Sophusson fjármálaráðherra. Stóð hann sig afburðavel í því starfi.
Hinir fátækustu báru ekki skarðan hlut frá borði. Kjör þeirra bötnuðu tímabilið 19952004 tvöfalt hraðar en nam meðaltalinu í löndum OECD. Tekjur ellilífeyrisþega voru árið 2004 hinar hæstu á Norðurlöndum. Það ár var fátækt samkvæmt viðurkenndum mælingum næstminnst á Íslandi allra Evrópuríkja (og með því áreiðanlega í öllum heiminum); hún var aðeins minni í Svíþjóð. Og þar sem lífskjör voru þá nokkru betri á Íslandi en í Svíþjóð og átt var við hlutfallslega fátækt, er líklega óhætt að fullyrða, að kjör hinna fátækustu voru í krónum eða kaupmætti hin skástu í heimi.
Tekjuskiptingin hafði ekki orðið ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, þótt því væri raunar haldið fram (og þá stuðst við hreinar reikningsskekkjur). Samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins (sem sýndar eru á 29. mynd í bók minni, 110. bls.) var tekjuskipting hér jafnari en í Finnlandi og Noregi, en ójafnari en í Svíþjóð og Danmörku. Ísland skar sig því ekki úr hópi Norðurlandanna.
Davíð hafði fulla ástæðu til að vera stoltur af verki sínu, þegar hann stóð upp af stóli forsætisráðherra 15. september 2004. En í sérhverjum sigri geta leynst fræ ósigurs. Davíð hafði með sölu banka og óheftum aðgangi að Evrópumarkaði veitt duglegum og harðskeyttum einstaklingum svigrúm og tækifæri. Sumir og þá á ég aðallega við Baugsfeðga misnotuðu þessi tækifæri herfilega.
Davíð sá hættuna fljótar og skýrar en aðrir og reyndi að vera við henni. En þá höfðu þessir menn keypt upp flesta fjölmiðla í landinu og ráðið marga kænustu lögfræðinga þjóðarinnar í þjónustu sína og myndað ofurþungt almenningsálit sér í vil, svo að þeir komust upp með miklu meira en aðrir, jafnvel lögbrot og yfirgang. Í laumi tæmdu þeir bankana, sem stóðu fyrir vikið berskjaldaðir, þegar að kreppti. Í þá tíð giltu í raun önnur lög um Jón en um Jón Ásgeir. Er sú ljóta saga öllum í fersku minni og þarf ekki að rifja upp hér. Ekki tók nema fjögur ár að gera að engu hinn mikla árangur, sem náðst hafði árin 19912004.
Nú þarf hins vegar að hefjast handa við að reisa Ísland úr rústunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook
30.4.2011 | 10:22
Hver var Otto Katz?
Mér varð gengið niður í bæ á dögunum, og þá rakst ég á bók í Eymundsson, sem ég vissi ekki einu sinni, að út hefði komið, en ég keypti mér strax til að lesa. Hún er um ævintýramanninn Otto Katz, sem einnig gekk undir nafninu Andre Simone. Heitir hún The Nine Lives of Otto Katz og er eftir rithöfundinn Jonathan Miles.
Otto Katz segir dálítið við þá sögu, sem ég segi í næstu bók minni. Hann fæddist og ólst upp í Bæheimi, sonur efnaðra gyðingahjóna, sem töluðu þýsku. Hann varð snemma kvennaljómi og átti vingott við Marlene Dietrich, á meðan þau bjuggu bæði í Berlín á dögum Weimarlýðveldisins (19181933).
Í Berlín kynntist Katz líka Christopher Isherwood og er ef til vill fyrirmyndin að einhverjum söguhetjum hans (kommúnistanum Bayer?) í bókunum Mr Norris Changes Trains og Goodbye to Berlin, en í þær tvær bækur er hin kunna kvikmynd Cabaret sótt.
Raunar halda sumir því fram, að Viktor Laszlo í Casablanca, sennilega einhverri bestu kvikmynd allra tíma, sé að einhverju leyti gerður eftir Otto Katz, einnig Kurt Muller í leikriti Lillians Hellmans, Watch over the Rhine, sem samnefnd kvikmynd var tekin eftir. Katz og Hellman voru góðkunningjar.
Otto Katz var aðstoðarmaður hins fræga áróðursmeistara kommúnista, Willis Münzenbergs, sem tók á móti Hendrik Ottóssyni og Brynjólfi Bjarnasyni í Moskvu 1920 og átti nokkur samskipti við fleiri íslenska kommúnista. Münzenberg sá um, að Halldór Kiljan Laxness yrði boðið til Rússlands haustið 1932.
Um skeið vann Katz með Arthur Koestler, sem seinna varð frægur rithöfundur og lenti eins og Katz í ýmsum ævintýrum, sumum lífshættulegum, í borgarastríðinu á Spáni.
Katz þýddi úr tékknesku á þýsku skáldsöguna Anna. Das Mädchen vom Lande eftir Iwan Olbracht, sem Einar Olgeirsson tók í ritdómi um Sölku Völku Laxness 1932 sem dæmi um réttar bókmenntir, en ég benti á það við litla hrifningu Halldórseigendafélagsins íslenska, að Atómstöðin 1948 væri mjög sniðin eftir þeirri bók Olbrachts, sem Laxness hefur einmitt lesið í þýðingu Katz.
Þá gáfu íslenskir kommúnistar út eina áróðursbók Katz, sem hann skrifaði undir nafninu Andre Simone, en hún hét Evrópa á glapstigum í þýðingu Sverris Kristjánssonar.
Eftir stríð fluttist Katz til ættlands síns, Tékkóslóvakíu, og gerðist ritstjóri kommúnistablaðs, en var handtekinn í hreinsunum 1952 og hengdur. Lokaorð hans, áður en hann gekk í gálgann, voru nánast tekin orðrétt upp úr skáldsögu Koestlers, Myrkur um miðjan dag, og var Koestler sannfærður um, að hann hefði verið að lýsa yfir sakleysi sínu.
Er ótrúlegt að lesa skrif Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum um réttarhöldin yfir Katz, dr. Rudolf Margolius (sem hengdur var fyrir að gera viðskiptasamninga við Ísland) og öðrum fórnarlömbum stalínismans.
Miles, höfundur hinnar nýju bókar, hefur fengið aðgang að lögregluskýrslum, sem samdar voru austan hafs og vestan um þennan ævintýramann, svo að nokkur fróðleiksbrot bætast við vitneskju okkar um Otto Katz og hinn mikla harmleik heimsins á miðri tuttugustu öld, þar sem hann gegndi sínu hlutverki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2011 kl. 12:56 | Slóð | Facebook
28.4.2011 | 08:38
Þokulúður Morgunblaðsins
Sigurður A. Magnússon er einn orðskárasti rithöfundur landsins. Er mér minnisstætt, þegar Sverrir stormsker tók við hann útvarpsviðtal og hafði með sér rommflösku í upptökuna. Því drjúgar sem Sigurður saup af veigunum því orðljótari varð hann um ýmsa menn, aðallega þó Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og mig. Getum við eflaust þakkað fyrir að enginn verður með orðum veginn, eins og fornmenn kváðu.
Þegar Sigurður var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins varð hann fórnarlamb hrekks sem vakti þjóðarathygli. Tveir blaðamenn á Vikunni, Jakob Þ. Möller og Gylfi Baldursson, höfðu á tveimur nóttum vorið 1963 samið nútímaljóð undir heitinu Þokur og fengið þriðja mann til að bera verkið undir ýmsa bókmenntaspekinga. Var Sigurður meðal þeirra, sem luku lofsorði á kveðskapinn.
Helgi Sæmundsson, ritstjóri Alþýðublaðsins, sæmdi Sigurð umsvifalaust heitinu Þokulúður Morgunblaðsins, en Loftur Guðmundsson rithöfundur orti:
Dæmdi sig hinn dóma strangi
dárann mesta í glópa flokki.
Alltaf hefði Mera-Mangi
muninn þekkt á skeiði og brokki.
Faðir Sigurðar, Magnús Jónsson, sem gekk stundum undir nafninu Mera-Mangi, var kunnur hestamaður í Reykjavík á sinni tíð.
Raunar á hrekkur þeirra Jakobs og Gylfa við Sigurð A. Magnússon og aðra íslenska bókmenntaspekinga sér erlenda fyrirmynd. Árið 1946 höfðu tveir sænskir læknanemar, Torgny Greitz og Lars Gyllensten, samið á fimm klukkustundum bók með nútímaljóðum, sem þeir nefndu Camera obscura (Í myrkri). Höfðu þeir raðað saman orðum, nánast af handahófi. Hinn kunni útgefandi Bonniers samþykkti að gefa bókina út, og hlaut hún lof sænskra bókmenntaspekinga. Vakti málið hins vegar kátínu sænsks almennings, þegar upp komst.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 23. apríl og er sótt í ýmsa staði í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er enn sem fyrr tilvalin gjöf við fermingu eða útskrift.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook
24.4.2011 | 12:29
Bréfin sem DV þorir ekki að birta
DV hefur orðið tíðrætt um mig síðustu vikur, eins og fáir vita. Hefur blaðið birt margvíslegar fjarstæður um mig, enda lítt hirt um að sannreyna staðhæfingar sínar. Þegar ég hef svarað þeim, hefur það ekki birst. Til dæmis skrifaði Jóhann Hauksson mér eftirfarandi tölvubréf 7. apríl:
Ég hef lesið skýrslu þína og sé að nafn Stefáns Ólafssonar kemur þar mjög oft fyrir.
Ég hafði samband við hann og hann sagði meðal annars: Hannes Hólmsteinn tilkynnti mér reyndar snemma á árinu 2007 að ákveðið hefði verið á fundi að fara í víðtæka herferð gegn skrifum mínum um skatta og aukinn ójöfnuð til þess að vernda arfleifð Davíðs Oddssonar. Fyrir hönd DV spyr ég því eftirfarandi spurninga:
1. Kannast þú við að hafa sagt þetta?
2. Ef svo: Hvaða fund varst þú að tala um?
3. Ef svo: Hvernig tengist þetta arfleifð Davíðs Oddsonar ?
Mér þætti vænt um að fá svar frá þér í dag.
Ég svaraði honum klukkustund síðar (strax og ég hafði séð bréfið):
Ég kannast ekki við þetta. Ég held, að þetta sé einhver ímyndun í Stefáni. Til eru menn, sem telja sjálfum sér trú um, að aðrir hafi ekkert þarfara að gera en sitja á löngum fundum um þá. Slíkir menn eru venjulega ekki teknir ýkja alvarlega.
Ég hef hins vegar sagt Stefáni Ólafssyni það oftar en einu sinni, að ég tel það akademíska skyldu mína að upplýsa um ýmsar missagnir hans.
Þar á meðal má nefna, að hann réðst 2007 harkalega á fjármálaráðuneytið fyrir að falsa lífeyristekjur á Íslandi og segja þær of háar. Í ljós kom, að Stefán hafði deilt í heildarlífeyristekjur með fjölda manna á lífeyrisaldri, en ekki með fjölda lífeyrisþega. Þannig fékk hann aðra og lægri tölu en ráðuneytið (en ráðuneytið studdist við útreikninga norrænu tölfræðinefndarinnar). Á Íslandi hagar því svo til, að fjöldi manna (fimm þúsund manns árið 2004) eru á lífeyrisaldri, en taka ekki lífeyri og eru þess vegna ekki lífeyrisþegar.
Það er ekki ónýtt að geta lækkað tölur með því að bæta jafnan fimm þúsund við í deilarann. Olíufursti einn var kallaður Mister Five Per cent, af því að hann hirti fimm prósenta hlut úr fyrirtækjum sínum. Eins mætti kalla Stefán Ólafsson Mister Five Thousand, því að hann bætir fimm þúsund við í deilarann, þegar hann vill lækka tölu.
Annað dæmi um missagnir Stefáns Ólafssonar er, að hann reiknaði vitlaust út Gini-stuðul fyrir Ísland 2004, eins og ég hef bent á, og ofmat þannig ójafna tekjuskiptingu á Íslandi. Þetta er allt rakið vandlega í skýrslu minni. Þar er upplýst um margar fleiri missagnir hans.
Annars finnst mér, að þú sem blaðamaður ættir frekar að spyrja Stefán, hvers vegna hann brást trúnaði sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands vorið 1996 og sagði þeim Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni frá könnun, sem Hreinn Loftsson hafði látið hann gera um sigurlíkur ýmissa manna í forsetakjöri. Stefán var auðvitað bundinn trúnaði um þessa könnun. Matthías skrifaði þetta í dagbók sína, sem kunnugt er. Ritstjóri þinn, Reynir Traustason, skrifaði dálítið um það mál, eftir að dagbókarfærsla Matthíasar birtist á Netinu, en síðan dó það út.
En ég sé á þessum ímyndunum og órum, að þið Stefán Ólafsson eigið það sameiginlegt að hafa Davíð Oddsson á heilanum. Ég veit ekki, hvernig unnt er að lækna þetta heilkenni. Ég vona, að það rjátlist af ykkur með aldrinum.
Af þessu birti Jóhann aðeins fyrstu setningarnar (um að ég kannaðist ekki við þessi ummæli, sem eftir mér voru höfð) í opnugrein um mig í DV helgina 8.10. apríl.
Enn fremur skrifaði ég 11. apríl Birni Teitssyni, sem skrifaði sérstaka Nærmynd af mér í þessa opnugrein helgina 8.10. apríl:
Þú birtir Nærmynd af mér í helgarblaði DV 8.10. apríl sl. Þú leitaðir ekki til mín til að sannreyna neitt, eins og eðlilegt hefði verið, svo að ýmislegt er rangt eða ónákvæmt í frásögn þinni. Með tilvísun til 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands fer ég fram á það, að þú leiðréttir eftirfarandi.
1. Þú segir, að nýjasta hneykslið, sem mér tengist, sé samningur fjármálaráðuneytisins frá 2007 við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um rannsóknir á áhrifum skattbreytinga, sem ég hafði umsjón með. Það var ekkert hneyksli, og fréttin um samninginn er ekki ný, heldur kom fram fyrir mörgum mánuðum í svari Jóhönnu Sigurðardóttur við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Auk þess var frá þessu greint í bók minni, Áhrifum skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út árið 2009.
2. Þú segir, að bent hafi verið á stórfelldan ritstuld minn í ævisögu Halldórs Kiljans Laxness. Það er ekki rétt. Ég hlaut dóm í Hæstarétti fyrir brot á höfundarlögum, þar eð ég notaði æskuminningar Laxness á sama hátt og hann notaði sjálfur texta frá öðrum, þ. á m. dagbækur Magnúsar Hjaltasonar. Ég gerði þetta í góðri trú, en játa auðvitað, að ég hefði unnið öðru vísi úr þessum heimildum, hefði ég vitað, að ég væri að brjóta höfundarlög.
3. Þú minnist á skipun mína í stöðu lektors 1988. Það kemur ekki fram hjá þér, að tveir meðumsækjendur mínir um þá stöðu kærðu veitingu stöðunnar til umboðsmanns Alþingis og fengu fjárstyrk frá Háskólanum til að reka málið þar. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert hefði verið athugavert við veitingu stöðunnar eða vinnubrögð ráðherra. Síðan fékk ég framgang með fullu samþykki félagsvísindadeildar í stöðu dósents og prófessors.
4. Þú segir, að upphaf fræðimannsferils míns sé í raun á huldu, þar sem hvorki sé fáanleg til lestrar B. A. ritgerð mín, sem sé týnd, né cand. mag. ritgerð mín, sem sé lokuð. Þetta eru fréttir fyrir mig. Ég tel mjög einkennilegt, ef B. A. ritgerð mín, sem var um söguspeki Karls Marx, er týnd, og langt er, síðan ég leyfði afnot af cand. mag. ritgerð minni um sögu Sjálfstæðisflokksins. Hvorug ritgerðin er neitt launungarmál. Mun ég óska eftir skýringum frá Þjóðarbókhlöðu á þessu furðumáli.
5. Þú segir: Bækur Hannesar hafa ekki ratað inn á lista yfir mestu seldu bækurnar á Íslandi. Það er ekki rétt. Bókin Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða var söluhæst allra bóka fyrir jólin 1996. Hygg ég, að hún hafi selst í hátt í átta þúsund eintökum. Tvær aðrar bækur eftir mig hafa verið á metsölulistum, Jón Þorláksson forsætisráðherra 1992 og Íslenskar tilvitnanir 1994. Ég tek það þó fram, að sala bóka er ekki nauðsynlega eini mælikvarðinn á gæði þeirra.
6. Þú segir hins vegar, að kennslubækur mínar hafi selst vel, þar eð þær séu kenndar í námskeiðum mínum. Þær bækur hafa því miður selst miklu síður en þær, sem fyrr eru nefndar, svo að þetta er ekki rétt.
Ég læt þetta nægja, þótt margt megi annað segja um þessa grein þína.
DV hefur ekki enn birt þessar leiðréttingar mínar. DV-mönnum er að vísu vorkunn. Þeir eru skýrt dæmi um sannleiksgildi hins gamla málsháttar, að flas er ekki til fagnaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:33 | Slóð | Facebook