„Finnlandisering“ eða rússneskja?

Á áttunda áratug síðustu aldar hittumst við Davíð Oddsson og Vilmundur Gylfason um skeið reglulega á kaffihúsinu Tröð, sem var á annarri hæð í Sigfúsar Eymundssonar-húsinu við Austurstræti.

Talið barst eitt sinn að því fyrirbæri, sem nefnt var „Finnlandisierung“. Það orð hafði þýskur stjórnmálafræðiprófessor, Richard Löwenthal, smíðað árið 1966 um það, sem ýmist má kalla undirgefni Finna við ráðstjórnina rússnesku eða samstarfsvilja þeirra og sáttfýsi við hana.

Vöruðust Finnar að reita ráðstjórnina til reiði, enda höfðu þeir tvisvar á öldinni beðið lægri hlut fyrir henni í vopnaviðskiptum, fyrst í Vetrarstríðinu 1939–1940 og síðan í Framhaldsstríðinu svonefnda 1941–1944. Til dæmis voru bækur, sem ekki voru Kremlverjum þóknanlegar, fjarlægðar úr finnskum bókasöfnum, þar á meðal bók, sem þýdd hafði verið á íslensku fyrir stríð, Þjónusta, þrælkun, flótti, en hún var frásögn prests frá Ingermanlandi um vinnubúðavist í Rússlandi.

Nýjar bækur, sem ekki voru vinsamlegar ráðstjórninni, voru ekki heldur gefnar út á finnsku, svo sem Gúlageyjaklasinn eftir Aleksandr Solzhenítsyn. Því síður voru ýmsar kvikmyndir, sem ráðstjórnin taldi óhollar, sýndar í Finnlandi. Brögð voru líka að sjálfsritskoðun í finnskum fjölmiðlum.

Við Davíð og Vilmundur veltum því fyrir okkur, hvað mætti kalla þetta fyrirbæri á íslensku. Davíð stakk upp á orðinu „rússneskju“ og hafði þá í huga tvö hliðstæð orð, harðneskju og forneskju. Aldrei náði sú tillaga þó lengra.

Einn þeirra stjórnmálamanna, sem voru sammála okkur Davíð og Vilmundi um það, að önnur Evrópulönd yrðu með öflugum vörnum að forðast hlutskipti Finna, var Jón Baldvin Hannibalsson, sem kjörinn var formaður Alþýðuflokksins haustið 1984.

En Finnar spurðu eins og Jessíka í leikriti Shakespeares: „Á ég að halda ljósi að minni smán?“ Þeir voru mjög viðkvæmir fyrir orðinu „Finnlandisierung“, og þegar Kalevi Sorsa, forsætisráðherra Finna og leiðtogi finnskra jafnaðarmanna, heyrði, að Jón Baldvin hefði notað það í fjölmiðlum, neitaði hann að sitja kvöldverð, sem Alþýðuflokkurinn bauð norrænum jafnaðarmönnum til í tengslum við Norðurlandaráðsþing á Íslandi í marsbyrjun 1985.

Jón Baldvin hélt óðar blaðamannafund, 6. mars 1985, þar sem hann þvertók fyrir að hafa notað orðið. Þá var upplýst, að í sjónvarpsþætti hér heima 11. desember 1984 hafði Jón Baldvin einmitt sagt, að úrsagnir Íslands, Noregs og Danmerkur úr Atlantshafsbandalaginu gætu orðið „fyrsta skrefið að „finnlandiseringu“ Norðurlandanna“. Í bréfi til Sorsa baðst Jón Baldvin þá afsökunar og lofaði að nota orðið aldrei aftur.

Hefðu Finnar orðið eins viðkvæmir fyrir orðinu „rússneskju“?

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er sem kunnugt er vinsælt útskriftar- og afmælisgjöf, enda tilvalin til þess.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband