Leikaraskapur í stjórnmálum

Ég sá, að nokkrir samkennarar mínir í Háskóla Íslands höfðu framsögu í hádeginu miðvikudaginn 18. maí um leikaraskap í stjórnmálum. Sjálfur komst ég því miður ekki á fyrirlestra þeirra sökum anna. En ég geri ráð fyrir, að þeir hafi tekið einhver dæmi um efnið úr íslenskum stjórnmálum.

Eitt skýrasta dæmið, sem ég kann sjálfur, er frá árinu 1942. Hallgrímur Hallgrímsson, erindreki Sósíalistaflokksins, hafði fallið sviplega frá. Brynjólfur Bjarnason skrifaði eftirmæli um hann í málgagn sósíalista, Þjóðviljann, 10. desember. Þar sagði hann:

Móðir hans er Sigríður Björnsdóttir í Hafnarfirði. Af Sigríði hef ég ekki önnur kynni en þau, að ég hef lesið eftir hana örstutta blaðagrein. En þessar fáu línur eru mér næg sönnun þess, að hún er steypt úr sama skíra málminum og Hallgrímur sonur hennar var. Morgunblaðið hafði kastað hnútum að Hallgrími fyrir þátttöku hans í spánska frelsisstríðinu. Sigríður svaraði fyrir son sinn með fáum, einföldum orðum, þar sem móðurástin birtist í allri sinni tign.

Sigríður hafði skrifað blaðagrein sína 2. júlí 1938, eftir að Morgunblaðið hafði hneykslast á skrifum Hallgríms frá Spáni, þar sem hann barðist í her lýðveldissinna. Hafði blaðið látið fylgja með, að Hallgrímur hefði lært hernað í Moskvu. Sigríður andmælti því í grein sinni og sagði, að Hallgrímur hefði stundað verkamannavinnu í Ráðstjórnarríkjunum um skeið.

Þetta sagði Hallgrímur móður sinni. En sannleikurinn var annar. Hann var sá, að Hallgrímur Hallgrímsson var í þjálfunarbúðum byltingarmanna í Moskvu 1931–1933 til að læra hernað. Var hann meðal annars með Rauða hernum á heræfingum að námi sínu loknu. Nemendum í þessum þjálfunarbúðum var skipað að halda eðli námsins vandlega leyndu og segjast hafa stundað verkamannavinnu þar eystra.

Móðir Hallgríms vissi ekki betur. Hún trúði syni sínum, sem vonlegt var. En Brynjólfur Bjarnason vissi betur. Í Moskvu dvaldist Hallgrímur á vegum kommúnistaflokksins íslenska, sem starfaði 1930–1938, en þar var Brynjólfur formaður. Samt talaði Brynjólfur um móðurástina, sem birst hefði „í allri sinni tign“ í „fáum, einföldum orðum“ Sigríðar.

Brynjólfur á með þessu sennilega Íslandsmetið í leikaraskap. En hvar skyldi brjóstmynd af þessum prakkara standa? Að sjálfsögðu á pallinum framan við hátíðarsal Háskóla Íslands.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband