Á að leggja sjávarútveg á landsbyggðinni í rústir?

Átta framkvæmdastjórar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja skrifa í Morgunblaðið 20. apríl grein undir fyrirsögninni „Forsætisráðherra, hví þessi fjandskapur?“

Benda þeir á, að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra virðist fjandskapast við arðsamasta atvinnuveg á Íslandi, sjávarútveg. Eins og Þráinn Eggertsson prófessor og margir fleiri hafa bent á, hefur Íslendingum tekist fárra þjóða að reka skilvirkan sjávarútveg. Víðast annars staðar eru fiskveiðar reknar með tapi, baggi á hverju þjóðarbúi.

Ástæðan til þess, að þetta hefur tekist hér, er einföld. Hagsmunir sjávarútvegs og þjóðar fara saman. Forsvarsmenn í sjávarútvegi hafa í höndum ótímabundnar og framseljanlegar aflaheimildir og geta þess vegna skipulagt veiðar sínar skynsamlega. Þeir geta hugsað til langs tíma, hagrætt í rekstri án ónauðsynlegrar óvissu.

Þessum aflaheimildum var fyrst úthlutað í árslok 1983, en kerfið sjálft komst á vorið 1990, og stóðu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon bæði að því, enda bæði þá stjórnarþingmenn.

Það er þögult kraftaverk, sem þessir átta framkvæmdastjórar í íslenskum sjávarútvegi benda á í grein sinni, að Íslendingar gátu minnkað veiðar sínar úr þorskstofninum á Íslandsmiðum úr 450 þúsund lestum árið 1981 niður í 160 þúsund lestir um þessar mundir, án þess að allt færi hér á hvolf.

Til þess er hins vegar einföld ástæða, að Jóhanna beinir nú spjótum sínum að sjávarútvegi. Það hefur löngum gefist lýðskrumurum vel að reyna að sameina fólk gegn einhverjum ímynduðum óvini. Kommúnistar gátu kennt borgarastéttinni um allt, sem miður fór, nasistar gyðingum. Hér á Íslandi hefur Jóhanna valið „sægreifana“ í þetta hlutverk blórabögguls, fórnarlambs.

En það eru engir sægreifar lengur í sjávarútvegi. Þeir hættu allir veiðum, seldu kvóta sinn, fóru í land. Eftir standa hagsýnir og duglegir menn, sem keyptu nánast allan sinn kvóta fullu verði. Á að refsa þeim fyrir að halda áfram sjávarútvegi, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar?

Í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur gætir líka lítilsvirðingar á því fólki, sem býr úti á landsbyggðinni. Ef reynt verður að gera arðinn í sjávarútvegi upptækan, þá mun hann ekki aðeins minnka verulega frá því, sem nú er, heldur felur það í sér stórkostlega millifærslu fjármuna frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Auðlindaskattur eða fyrningarleið er ekkert annað en skattur á landsbyggðina.


Sjávarútvegur á landsbyggðinni verður að verja sig

Jóhanna Sigurðardóttir og lið hennar ræðst nú af offorsi á þann atvinnuveg, sem mestu máli skiptir um endurreisn Íslands, sjávarútveginn á landsbyggðinni. Í stað þess að hlynna að þessum atvinnuvegi á að mynda um hann óvissu, torvelda langtímahugsun í honum, leggja hann í raun í rúst.

Þetta lið segist ætla að taka kvótana af sægreifunum. En sægreifarnir eiga ekki lengur neina kvóta. Þeir hafa fyrir löngu selt þá og farið í land. Um og yfir 90% af kvótunum hafa verið keypt fullu verði. Hvers vegna í ósköpunum á að refsa þeim, sem eftir urðu í greininni, svipta þá möguleikum til að skapa arð sjálfum sér og allri þjóðinni til góðs?

Ef kvótarnir verða gerðir upptækir, þá merkir það aðeins, að stórkostleg tekjutilfærsla verður frá sjávarútvegi til ríkisins, frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. En gallinn er síðan sá, að í sjálfri tilfærslunni munu tekjurnar rýrna. Verr verður af stað farið en heima setið. Allir tapa að lokum.

Sjávarútvegurinn á landsbyggðinni greiðir þegar tekjuskatt og raunar líka auðlindagjald. Þjóðin nýtur góðs af því, en aðallega nýtur hún óbeint góðs af því, að sjávarútvegur er hér arðsamur ólíkt því, sem gerist í flestum öðrum löndum.

Kosturinn við núverandi kerfi, þar sem kvótar eru framseljanlegir og ótímabundnir, er, að fólkið í greininni öðlast langtímahugsun. Það hefur sjálft hag af því, að arðurinn af auðlindinni verði hámarkaður til langs tíma litið.

Dr. Þráinn Eggertsson prófessor, sem er einhver virtasti fræðimaður okkar Íslendinga og hefur í rannsóknum sínum sérstaklega lagt fyrir sig stofnanir og leikreglur, segir í viðtali við Frjálsa verslun:

En nú í miðri kreppunni er rætt um að kalla inn kvótana og selja þá aftur til útgerðanna. Flestir þeir sem fengu kvótana upphaflega hafa framselt þá til aðila sem nú stunda veiðar. Að innkalla og endurselja kvótana er í raun ómerkilegur þjófnaður. Ríkisvaldið hyggst knýja þá sem keypt hafa kvótana fullu verði til að kaupa þá aftur. Getur þjóðarsálin veikst? Umræðan á Íslandi um kvótakerfið er óheilbrigð þráhyggja. Í miðri stórkreppu er það stefna ríkisstjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarútveginum sem er helsti lykillinn að efnahagsbata.

Sjávarútvegurinn á landsbyggðinni verður að verja sig gegn hinum hrokafullu menntamönnum í Reykjavík, sem vilja leggja hann í rústir, af því að þeir telja ranglega, að flytja megi arðinn óskiptan frá útgerðarfyrirtækjum í ríkissjóð og að þeir muni sjálfir ætíð ráða úthlutunum úr ríkissjóði.

Þess vegna var eðlilegt og sjálfsagt, að Samtök atvinnulífsins setti það skilyrði fyrir samningum, að ekki yrði haldið áfram að ráðast á undirstöður atvinnulífsins.


Kong Hans Kælder

Eftirlætisveitingastaður minn í Kaupmannahöfn heitir Kong Hans Kælder, en því miður leyfa prófessorslaun ekki margar heimsóknir þangað. Klaus Rifbjerg, einn orðsnjallasti rithöfundur Dana, segir:

I vort protestantiske fædreland er der nærmest dom for, at al beskæftigelse med den sensuelle side af tilværelsen, herunder indtagelsen af god mad og vin, er en synd. Man kan også synes, at det er synd, at ikke mange flere under sig den oplevelse, det er at sætte et godt måltid til livs og derved måske komme i kontakt med områder i verden og i sig selv, der hidtil har været upåagtede eller ligget i dvale. Generøsitet handler om at være god mod sig selv, for er man ikke det, kan man heller ikke være god mod andre.

Þetta á við um þennan góða stað. Minnist ég margra ánægjulegra stunda þar með vinum mínum, meðal annars einu sinni með Gísla Marteini Baldurssyni, nú borgarfulltrúa, og í annað skipti með þeim Sigurði heitnum Einarssyni útgerðarmanni og Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni.


Uppnefni og viðurnefni

Íslendingar hafa löngum haft gaman af því að uppnefna fólk eða auðkenna það með viðurnöfnum. Stundum hafa menn gefið tilefni til þess sjálfir. Til dæmis skrifaði Sigurður Kristjánsson, ritstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðið 5. apríl 1931, þegar framsóknarmenn utan af landi flykktust til Reykjavíkur á flokksþing sitt: „Þeir þvo sér úr sápu og strjúka fiðrið af tötrunum og mosann úr skegginu.“ Þetta mæltist að vonum misjafnlega fyrir í sveitum, en höfundur orðanna var eftir þetta jafnan kallaður „Sigurður mosi“.

Eftir að Björn Jónsson, ritstjóri og síðar ráðherra, birti í misgáningi ljósmynd af Gatkletti við Arnarstapa á Snæfellsnesi í Sunnanfara 1901, sagði hann vera Dyrhólaey og vildi síðan ekki viðurkenna mistök sín, kallaði keppinautur hans á blaðamarkaðnum, Hannes Þorsteinsson ritstjóri, hann „Dyrhólagatistann“. Enn sárari broddur var í þessu uppnefni vegna þess, að Björn hafði löngu áður gengið frá prófi í Kaupmannahöfn.

Einar Benediktsson skáld gat verið orðljótur og uppnefndi óspart andstæðinga sína. Hann kallaði til dæmis Pál Eggert Ólason sagnfræðiprófessor „Mokstrar-Pál“, af því að honum þóttu gæði skrifa hans ekki í samræmi við afköstin. Og Jón Magnússon forsætisráðherra kallaði Einar „hálfhringinn“, af því að hann hallaði stundum á aðra hliðina, þegar hann gekk.

Sigurður Jónasson var kunnur maður í Reykjavík á öndverðri tuttugustu öld. Hann fylgdi ýmsum flokkum að málum og var umsvifamikill fésýslumaður, drykkfelldur og sérkennilegur í háttum. Um skeið sat hann í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn og var þá áhugasamur um virkjun Sogsins. Reyndi hann jafnvel að semja sjálfur við erlenda aðila um málið. Einn þeirra, umboðsmaður þýska fyrirtækisins A. E. G. í Kaupmannahöfn, sendi þá bæjaryfirvöldum í Reykjavík skeyti: „Er Byraadsmedlem Sigurdur Jonasson seriøs?“ Er Sigurði Jónassyni bæjarfulltrúa full alvara? Eftir þetta var Sigurður jafnan kallaður „Sigurður seriös“.

Eftir að Freymóður Jóhannsson, listmálari og textahöfundur, hóf herferð gegn klámi, kölluðu gárungarnir hann iðulega „Meyfróð“. Alkunna er einnig, að Guðni Guðmundsson, sem var rektor Menntaskólans í Reykjavík í minni tíð þar, var oft kallaður „Guðni kjaftur“, en þeir, sem töldu viðurnefnið óvirðulegt, lögðu til, að hann yrði kallaður „Guðni munnur“.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 16. spríl og er sóttur á ýmsa staði í bók minni, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir síðustu jól, en er tilvalin fermingar- og útskriftargjöf.)


Bjartur í Sumarhúsum í túlkun Illuga og Egils

Þessa dagana setja þeir fóstbræður Illugi Jökulsson og Egill Helgason af nokkrum þótta ofan í við þá, sem vitna máli sínu til stuðnings í Bjart í Sumarhúsum, söguhetju Laxness. Minna þeir fóstbræður á það, sem er auðvitað dagsatt, að Laxness ætlaði sér með Bjarti að skapa andhetju. Tilgangur hans í Sjálfstæðu fólki var öðrum þræði að gagnrýna ýmislegt í fari þjóðarinnar, svo sem kotbúskap í stað samyrkju, tregðuna til samstarfs við aðra og fastheldni við gamla, vonda siði.

Megintilgangur skáldsins var hins vegar að segja sögu. Laxness var nógu mikið skáld til þess, að söguhetjur hans eru ekki aðeins dauft bergmál úr blaðaleiðurum, heldur tala þær eigin röddum. Bjartur í Sumarhúsum öðlast sjálfstætt líf, gengur út úr sögu Laxness, og þá sjá menn, að hann er margræður maður með kosti og galla. Hann hefur suma eiginleika, sem þjóðin dáist að, eins og þolgæði, þrautseigju og tortryggni gagnvart blíðmálum yfirstéttarmönnum, en líka aðra eiginleika, sem flestu fólki fellur miður, svo sem tillitsleysi við sína nánustu.

Þetta sést ef til vill enn betur, þegar andlegur arftaki Bjarts í sögum Laxness, Jón Hreggviðsson, er skoðaður. Hann er líka alþýðumaður, sem hefur alls ekki um allt sömu skoðanir og Laxness sjálfur, en er tortrygginn gagnvart þeim stóru, eins og hann kallar yfirstéttarmenn. Það eru ýmsar tilfinningar þeirra Bjarts í Sumarhúsum og Jóns Hreggviðssonar, sem komu í ljós í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl síðast liðinn, en reykvískir kaffihúsaspekingar eiga erfitt með að skilja.

Hver getur til dæmis andmælt þessum orðum Bjarts í Sumarhúsum? „En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.“ Og tortryggni Bjarts á rétt á sér, þótt hún eigi ef til vill ekki við um allt: „Það er góður siður að trúa aldrei nema helmíngnum af því sem manni er sagt og skifta sér ekki af afgánginum. En fara aldrei eftir öðru en því sem maður segir sér sjálfur.“

Jón Hreggviðsson kemur orðum að svipaðri hugsun: „Ég hef aungva trú á öðru réttlæti en því sem ég frem sjálfur.“ Og á öðrum stað segir hann: „Ég hræki á Þá Stóru þegar þeir dæma rángt.“ Og hann bætir við: „Og þó hræki ég enn meira á þá þegar þeir dæma rétt, því þá eru þeir hræddir.“

Harmsaga Bjarts í Sumarhúsum fólst í því, að hann var haldinn sjálfsblekkingu um raunverulega hagsmuni sína. Hann sáði í akur óvinar síns. (Ég benti á það í bók minni um Laxness, sem áður hafði ekki verið vitað, að Laxness tók þá líkingu frá norska skáldinu Johan Bojer.) Það breytir engu um, að Bjartur átti sínar lofsverðu hliðar, eins og margir erlendir lesendur sögunnar sjá vel.

Raunar má segja, að jámenn á Íslandi, eins og Illugi Jökulsson, hafi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl ætlað að sá í akur óvinar síns, Bretans, en sem betur fer hafði meiri hluti þjóðarinnar vit fyrir þeim. Jámenn höfðu það úr fari Bjarts í Sumarhúsum, sem síst er gott til eftirbreytni, sjálfsblekkinguna, en neimennirnir höfðu hitt að leiðarljósi, holla tortryggni gagnvart blíðmálum yfirstéttarmönnum.


Framsaga á fundi ungra sjálfstæðismanna

Ég hafði framsögu á fundi ungra sjálfstæðismanna fimmtudagskvöldið 14. apríl um eftirmál þjóðaratkvæðagreiðslunnar ásamt þeim Sigurði Kára Kristjánssyni alþingismanni og Sigríði Andersen, lögfræðingi og einum forystumanni Advice-hópsins.

Ég rifjaði upp nokkur óhappaverk núverandi vinstri stjórnar og benti á, að hún hefði rofið grið í íslenskum stjórnmálum með framkomu sinni við tvo fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins: Annan hrakti hún úr Seðlabankanum, hinn leiddi hún fyrir rétt af stjórnmálaástæðum, en ekki vegna einhverrar sakar.

Ég fór einnig nokkrum orðum um Icesave-málið, og var það mjög í sama dúr og ég hef skrifað síðustu daga í Evrópuútgáfu Wall Street Journal og danska viðskiptablaðið Børsen.

Ég kvað margt fleira sameina sjálfstæðismenn en sundra þeim og taldi fullvíst, að núverandi forysta flokksins myndi læra af þessu máli. Verkefnið framundan væri að þétta raðirnar og stöðva þau skemmdarverk, sem núverandi vinstri stjórn væri að vinna á atvinnulífinu.

Draugar frá nítjándu öld gengju hér ljósum logum, til dæmis hugmyndir Karls Marx um stighækkandi tekjuskatt og Henrys Georges um innheimtu sérstakrar rentu af auðlindum.

Ég gerði sérstaklega að umtalsefni raddir tveggja framúrskarandi fræðimanna, sem nýlega hefðu hljómað: Dr. Þór Whitehead prófessor hefði fyrir síðustu jól birt stórfróðlega bók um Sovét-Ísland. Óskalandið. Enn hefðu þær hugmyndir, sem gömlu, íslensku kommúnistarnir börðust fyrir, ekki verið kveðnar niður, þótt ótrúlegt mætti virðast. Dr. Þráinn Eggertsson prófessor hefði síðan í nýlegu og yfirgripsmiklu viðtali í Frjálsri verslun útskýrt, hversu mikilvægar margar stofnanir væru hverri þjóð. Íslendingar hefðu til dæmis myndað eina skilvirka kerfið, sem til væri í fiskveiðum, kerfi ótímabundinna og framseljanlegra aflaheimilda.


Grein mín í Børsen

Margir Íslendingar kannast við danska blaðið Børsen, sem er aðalviðskiptablað Dana og mjög áhrifamikið og virt. Fimmtudaginn 14. apríl 2011 birti ég grein í því undir heitinu „Derfor sagde Islændingene Nej“, þar sem ég skýrði út, hvers vegna íslenska þjóðin hafnaði í annað sinn samningum stjórnar sinnar við bresk og hollensk stjórnvöld.

Ég skrifaði greinina ekki síst til að andmæla Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sem segir opinberlega í Danmörku, að auðvitað eigi Íslendingar að greiða skuldir sínar, en velta þeim ekki á herðar breskra og hollenskra skattgreiðenda.

Ég benti á, að þetta væri engin skuld Íslendinga, heldur flýttu bresk og hollensk stjórnvöld sér í miðri lánsfjárkreppunni að greiða innstæðueigendum Icesave-reikninga út fé úr Landsbankanum, af því að ella kynni að verða gert áhlaup á alla aðra banka. Innstæðurnar voru tryggðar í hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp eftir evrópskum reglum.

Ég vakti athygli á því í greininni í Børsen, að Arne Hyttnes, forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp eftir nákvæmlega sömu reglum og hinn íslenski, hefur vísað því á bug, að ríkisábyrgð væri á þeim sjóði.

Ég sagði:

Derfor tager Uffe Ellemann-Jensen fejl, når han beskriver sagen, som om islændingene simpelthen afviste at betale en gæld, de skylder den britiske og den hollandske regering. Der var ingen gæld.

Ég tók fram, að sennilega fengju breskir og hollenskir innstæðueigendur megnið af því fé, sem stjórnvöld í löndum þeirra hefðu í skyndi og óumbeðið lagt út fyrir þá, því að verið væri að selja þrotabú Landsbankans, og andvirðið rynni til þeirra, sem ættu forgangskröfur í búið.

Íslendingar hefðu hins vegar ekki viljað skrifa upp á óútfyllta ávísun. Þeir hefðu ekki viljað greiða skuldir óreiðumanna. Eins og ég orðaði það:

Nej-sigerne spørger: Hvorfor skal vi betale hensynsløse finansfolks gæld? Hvorfor taler Uffe Ellemann-Jensen deres sag i stedet for at tage parti for sine islandske venner?

Ég lauk greininni eins og þeirri, sem ég skrifaði svipaðs efnis í Wall Street Journal á mánudag, 11. apríl, á því, að hinir íslensku sigurvegarar kosninganna væru Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins.


Hafa vinstri menn gleymt Laxness?

Sú var tíð, að snjöllustu setningar Halldórs Kiljans Laxness voru jafnan á vörum vinstri manna, þar sem þeir sátu að tímafreku skrafi sínu á kaffihúsum og þóttust spakir. Ekki hafa þeir þó vitnað oft í slíkar setningar í Icesave-deilunni um það, hvort Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna.

Ein lýsing Laxness í Íslandsklukkunni á þó vel við um það þolgæði, sem lítið land eins og Ísland verður að sýna í deilu við voldugri granna eins og Breta og Hollendinga:

Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.

Tíminn vinnur með okkur í Icesave-deilunni. Við skulum ekki vænta okkur hjálpar, þótt tröll það, sem kallar sig Evrópusambandið, komi með blíðskaparbragði og segist skulu frelsa okkur. Smám saman greiðir þrotabú Landsbankans út forgangskröfur, þar á meðal kröfur, sem bresk og hollensk stjórnvöld gera fyrir hönd innstæðueigenda í löndum sínum, vegna þess að þau hafa þegar greitt út það, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta átti að reiða af höndum, en gat ekki. Vonandi nægir það fyrir höfuðstól kröfunnar, en vexti eigum við auðvitað ekki að greiða, enda var „lán“ Breta og Hollendinga ekki veitt að okkar frumkvæði.

Raunar eru orð eiginkonu hins íslenska bókasafnara Íslandsklukkunnar ekki alveg út í bláinn um þá fræðimenn í Háskóla Íslands, sem spáðu því, að Ísland yrði ýmist Kúba Norðursins eða ný Norður-Kórea, ef Icesave II samningurinn yrði ekki samþykktur (sá samningur, sem Bretar og Hollendingar vildu síðan bæta um litla 200 milljarða króna):

Þesskonar fólk sem íslenskir kalla lærða menn og spekínga eru hér í Danmörk kallaðir landsbýsidjótar og bannað með lögum að þeir komi útfyrir sinn kaupstað.

Ég tók hins vegar eftir því, að hægri mennirnir í Advice-hópnum vitnuðu óspart í Bjart í Sumarhúsum um eitt:

En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.

Það skiptir ekki máli, í hvaða samhengi Laxness setti þessar setningar sínar sjálfar, því að þær geyma í sér algildan sannleika um mannlífið, utan og ofan við dægurmálin, sem hann skipti sér sjálfur af með misjöfnum árangri.


Þriðji heimurinn

Stundum er orðasambandið „þriðji heimurinn“ notað um fátækar þjóðir í suðri. Franski félagsfræðingurinn Alfred Sauvy, sem uppi var frá 1898 til 1990, smíðaði það. Hann skrifaði grein undir fyrirsögninni „Þrír heimar, ein jörð“ í L’Observateur 14. ágúst 1952. Þar segir: „Því að loksins vill þessi Þriðji heimur, vanræktur, arðrændur, fyrirlitinn, eins og Þriðja stétt, líka vera eitthvað.“

Fyrsti heimurinn var samkvæmt kenningu Sauvys þróuð iðnríki Vesturlanda, sem bjuggu við kapítalisma og lýðræði. Annar heimurinn var kommúnistaríkin, en þriðja heiminn mynduðu aðrar þjóðir.

Sauvy vísaði með þessu hugtaki beint til frægra orða franska ábótans og byltingarmannsins Emmanuels Josephs Sieyès, sem gaf út bækling í janúar 1789, þar sem sagði: „Hvað er þriðja stétt? Allt. Hvað hefur hún verið fram að þessu í stjórnmálum? Ekkert. Hvað vill hún verða? Eitthvað?“

Þriðja stétt Frakka á átjándu öld var það, sem við nútímamenn myndum kalla miðstétt, kaupmenn, lögfræðingar, embættismenn og aðrir slíkir. Eins og allir vita, skiptist stéttaþingið franska, sem Lúðvík XVI. kallaði saman 1789, í aðalsmenn, klerka og borgara. Má kalla frönsku stjórnarbyltinguna uppreisn borgaranna gegn aðli og klerkum, þriðju stéttar gegn hinum tveimur.

Þýski sósíalistinn Ferdinand Lassalle talaði síðan um það á síðari helmingi nítjándu aldar, að „fjórða stétt“, verkalýðsstéttin, væri líka til og ætti heimtingu á mannsæmandi tilveru.

Hvað sem því líður, hafa fræðimenn bent á, að þriðji heimurinn sé lítt nothæft hugtak. Til þess er ekki aðeins sú ástæða, að „annar heimurinn“ er nánast horfinn úr sögunni, heldur líka, að löndin í þessum svokallaða þriðja heimi eru gerólík. Sum hafa skipað sér á bekk með þróuðum iðnríkjum, til dæmis Suður-Kórea og Taívan. Sum eru örsnauð, svo sem Nepal, en önnur vellauðug, til dæmis Kúvæt. Sum eru risastór, Kína, Indland og Brasilía, en önnur mjög lítil, meðal annars eylönd í Karíbahafi og Kyrrahafi.

Því er við að bæta, að forseti tékkneska lýðveldisins, Vaclav Klaus, heldur því fram, að þriðja leiðin, sem sumir segja til milli kapítalisma og sósíalisma, sé leiðin beint inn í Þriðja heiminn!

(Þessi fróðleiksmoli eftir mig birtist í Morgunblaðinu 9. apríl og er sóttur í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún fæst í öllum bókabúðum og er tilvalin fermingar- eða útskriftargjöf, og árita ég hana með ánægju.)


Grein mín í Wall Street Journal í gær

Wall Street Journal birti eftir mig grein í gær, sem nefnist „Íslendingar segja nei“. Þar reyni ég að skýra, hvers vegna Íslendingar sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-samningana og hverjar afleiðingarnar verða utan lands og innan.

Íslendingar sögðu nei, af því að þeir vildu ekki greiða skuldir óreiðumanna. Kapítalistar eru velkomnir til Íslands, en þeir hljóta að taka ábyrgð á eigin gerðum eins og við hin. Hvergi er bókstafur um það í alþjóðlegum samningum eða samevrópskum reglum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem hér var settur upp. Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér til að afstýra áhlaupi á aðra banka í löndum sínum að snara út fé fyrir innstæðum á Icesave-reikningum.

Afleiðingarnar af neituninni verða, að talsmenn breskra og hollenskra stjórnvalda tala illa um Ísland í nokkra daga, en gera fátt. Þeir senda væntanlega ekki fallbyssubáta hingað eins og Bretar gerðu, þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir munu hika við að sækja skaðabætur fyrir dómstólum, því að það er flókið mál og getur snúist gegn þeim. Þrotabú Landsbankans mun hvort sem er vonandi nægja að mestu leyti fyrir öllum forgangskröfum, þar á meðal kröfum breskra og hollenskra innstæðueigenda. Lánsfjárhæfi Íslands mun augljóslega aukast til langs tíma litið, því að landið skuldar minna við það, að Icesave-samningarnir taka ekki gildi.

Afleiðingarnar innan lands eru einkum þrjár. Hin veika ríkisstjórn veikist enn. Aðild að Evrópusambandinu verður ólíklegri, því að ESB beitti sér hart gegn Íslendingum í þessari deilu. Og þeir tveir gömlu og reyndu stjórnmálamenn, sem lögðust gegn samþykkt samningsins, Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum og Davíð Oddsson í Morgunblaðinu, styrkjast báðir.

Mér til mikillar ánægju sé ég síðan, að Wall Street Journal birti ritstjórnargrein í dag, þar sem tekið er undir sjónarmið Íslendinga í deilunni, og þykist ég vita, hvaða ritstjóri blaðsins situr þar við lyklaborð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband