Forsetakjör í Brasilíu

Ríkisútvarpið sendi fréttamann til Rio de Janeiro vegna forsetakjörsins nú í dag. Það er undarlegt. Brasilía er höfuðborgin og São Paulo stærsta borgin. Rio de Janeiro er hins vegar auðvitað skemmtilegasta borgin, eins og ég get trútt um talað, því að ég hef undanfarin ár búið í nokkra mánuði á ári í Rio de Janeiro og tala portúgölsku. Ég hef því haft betri skilyrði en margur annar til að fylgjast með stjórnmálum í Brasilíu. Mér blöskrar, af hvílíkri vanþekkingu talað er um þau á Íslandi, ekki síst í Ríkisútvarpinu. Eru líkur á, að Jair Bolsonaro sigri í forsetakjörinu í dag, en Fernando Haddad tapi. Aðalskýringin á því er, að Verkamannaflokkur Haddads hefur orðið uppvís að ótrúlegri spillingu. Forsetinn 2002–2010, Lula, situr í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur. Eftirmaður hans, Dilma Rousseff, var sett úr embætti fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar um fjármál flokks síns. Haddad heimsækir reglulega Lula í fangelsið og þiggur hjá honum ráð! Þessir menn kunna ekki að skammast sín. Varaforsetaefni hans er úr brasilíska kommúnistaflokknum. Ef Bolsonaro verður forseti, þá er það aðallega vegna þess, að menn eru að kjósa á móti Verkamannaflokknum. En aðalráðgjafi hans í efnahagsmálum er mjög skynsamur maður, Paulo Guedes. Hér segir frá því, hvaða ráð ég gaf Brasilíumönnum aðspurður í São Paulo á fjölmennri stúdentaráðstefnu:

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum.


Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju?

Spænska nafnið á eyjaklasanum, sem Spánn ræður skammt undan strönd Blálands hins mikla, er Canarias, en það merkir Hundaeyjar. Dagana 30. september til 5. október 2018 tók ég þátt í ráðstefnu alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin-samtakanna, á Gran Canarias, Stóru hundaeyju. Ég tók tvisvar til máls, fyrst á morgunverðarfundi um stjórnmálaviðhorf í Rómönsku Ameríku. Sú skoðun er algeng þar syðra, að velgengni Norðurlanda sé að þakka jafnaðarstefnu. Ég vísaði því á bug. Þessa velgengni mætti aðallega skýra með traustu réttarríki, frjálsum alþjóðaviðskiptum, ríku gagnkvæmu trausti og samheldni í krafti samleitni, rótgróinna siða og langrar, sameiginlegrar sögu.

Á málstofu um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði sagði ég, að vissulega væri til frjálslynd þjóðernisstefna, sem miðaði að því að færa valdið nær fólki og reist væri á sterkri þjóðernisvitund. Norðmenn hefðu sagt skilið við Svía 1905, af því að þeir væru Norðmenn, ekki Svíar. Íslendingar hefðu ekki verið og vildu ekki vera Danir með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu þjóð, og þess vegna hefðu þeir stofnað fullvalda ríki 1918. Hins vegar þyrfti þjóðernisvitundin að dómi frjálshyggjumanna að vera sjálfsprottin frekar en valdboðin. Þjóðin skilgreindist umfram allt af vilja hóps til að deila hlutskipti. Hún væri dagleg atkvæðagreiðsla, eins og franski rithöfundurinn Ernest Renan hefði sagt. Ég vitnaði í því sambandi líka í þá athugasemd breska stjórnmálahugsuðarins Edmunds Burkes, að land þyrfti að vera elskulegt, til þess að íbúar þess gætu elskað það.

Dæmi um eðlilega og æskilega þjóðernisvitund eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistlendingar, Lettar og Litháar. Þeir eru ekki og vilja ekki vera Rússar. Norðurálfan er full af þjóðarbrotum, sem hafa ekki unað sér vel innan um stærri heildir. Eins og fyrri daginn væri lausn frjálshyggjumanna að færa valdið nær fólkinu. Íbúar Álandseyja hefðu nú sjálfstjórn og væru hinir ánægðustu innan Finnlands, þótt þeir töluðu sænsku. Ítalir hefðu síðustu áratugi komið svo langt til móts við íbúa Suður-Týrols, sem slitið var af Austurríki 1918, að fáir hefðu þar lengur áhuga á aðskilnaði. Þessi fordæmi kynnu að vera gagnleg Skotum og Katalóníumönnum, ef þeir vildu ekki ganga alla leið eins og Norðmenn 1905, Íslendingar 1918 og Slóvakar 1993.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018.)


Ein stór sósíalistahjörð

Dagana 30. september til 5. október 2018 sat ég þing Mont Pelerin samtakanna á Stóru hundaeyju (Gran Canarias) undan strönd Blálands hins mikla, en eyjuna þekkja Íslendingar af tíðum suðurferðum. Friedrich Hayek, Milton Friedman, George Stigler, Maurice Allais og fleiri frjálshyggjumenn, aðallega hagfræðingar, stofnuðu Mont Pelerin samtökin í Sviss vorið 1947, og heita þau eftir fyrsta fundarstaðnum. Tilgangur þeirra er sá einn að auðvelda frjálslyndu fræðafólki að hittast öðru hvoru og bera saman bækur sínar.

Nú voru rifjuð upp fræg ummæli austurríska hagfræðingsins Ludwigs von Mises, sem stóð upp á einni málstofunni á fyrsta þinginu og sagði: „Þið eruð allir ein stór sósíalistahjörð!“ (You are all a bunch of socialists!) Gekk hann síðan á dyr og skellti á eftir sér. Hafði Friedman gaman af að segja þessa sögu, enda gerðist það ekki oft, að þeir Hayek væru kallaðir sósíalistar.

Tilefnið var, að einn helsti forystumaður Chicago-hagfræðinganna svonefndu, Frank H. Knight, hafði látið í ljós þá skoðun á málstofunni, að 100% erfðafjárskattur gæti verið réttlætanlegur. Rökin voru, að allir ættu að byrja jafnir í lífinu og keppa síðan saman á frjálsum markaði. Einn lærisveinn Knights, félagi í Mont Pelerin samtökunum og góður vinur minn, James M. Buchanan, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986, aðhylltist raunar sömu hugmynd.

Ég hygg, að Mises hafi haft rétt fyrir sér í andstöðunni við 100% erfðafjárskatt, þótt auðvitað hafi Mont Pelerin samtökin hvorki þá né nú verið „ein stór sósíalistahjörð“. Einkaeignarrétturinn og fjölskyldan eru hornsteinar borgaralegs skipulags og stuðla að langtímaviðhorfum: Menn taka þá framtíðina með í reikninginn. Það er jafnframt kostur, ekki galli, ef safnast saman auður, sem runnið getur í áhættufjárfestingar, tilraunastarfsemi, nýsköpun. Eitt þúsund eignamenn gera að minnsta kosti eitt þúsund tilraunir og eru því líklegri til nýsköpunar en fimm manna stjórn í opinberum sjóði, þótt kenndur sé við nýsköpun. Og ríkið hefur nógu marga tekjustofna, þótt ekki sé enn einum bætt við.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. október 2018.)


Bankahrunið: Svartur svanur

Í dag eru tíu ár liðin frá bankahruninu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið „svartur svanur“, eins og líbanski rithöfundurinn Nassem Taleb kallar óvæntan, ófyrirsjáanlegan atburð, sem er engum að kenna, heldur orsakast af því, að margt smátt verður skyndilega eitt stórt.

Það fór saman, að sölu ríkisbankanna lauk í árslok 2002 og að þá fylltist allur heimurinn af ódýru lánsfé vegna sparnaðar í Kína og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans. Jafnframt nutu íslenskir bankar hins góða orðspors, sem íslenska ríkið hafði aflað sér árin 1991-2004, svo að þeim buðust óvenjuhagstæð lánskjör erlendis. Þrennt annað lagðist á sömu sveif. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu bankarnir fengið aðgang að innri markaði Evrópu; nýir stjórnendur þeirra höfðu aldrei kynnst mótvindi og gerðu því ráð fyrir góðu veðri framvegis; og eigendur bankanna áttu langflesta fjölmiðla og bjuggu því ekki við aðhald. Afleiðingin af öllu þessu varð ör vöxtur bankanna við fagnaðarlæti þjóðarinnar. Þeir uxu langt umfram það, sem hið opinbera hafði tök á að styðja í hugsanlegum mótvindi.

En útþensla íslensku bankanna olli gremju keppinauta þeirra í Evrópu og tortryggni evrópskra seðlabankastjóra, sem töldu hana ógna innstæðutryggingum og litu óhýru auga, að íslensku bankarnir nýttu sér í útbúum á evrusvæðinu lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu eins og aðrir evrópskir bankar utan evrusvæðisins (til dæmis breskir) gerðu. Ákveðið var í fjármálakreppunni að veita Íslandi enga aðstoð. Við þetta bættist stjórnmálaþróunin í Bretlandi. Þar óttaðist Verkamannaflokkurinn uppgang skoskra þjóðernissinna, sem fjölyrtu um „velsældarboga“ frá Írlandi um Ísland til Noregs og sjálfstætt Skotland framtíðarinnar færi undir. Stjórn Verkamannaflokksins ákvað í fjármálakreppunni að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, á meðan hún jós fé í alla aðra banka landsins. Þetta leiddi til falls Kaupþings. Stjórnin bætti síðan gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum að þarflausu gegn Íslendingum og siga á þá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Velsældarboginn breyttist í gjaldþrotaboga, eins og Alistair Darling orðaði það síðar.

Bandaríkjastjórn sat aðgerðalaus hjá, enda var Ísland nú ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í hennar augum. Íslands óhamingju varð allt að vopni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.)


Falsfrétt frá Össuri Skarphéðinssyni

Nú er mikið talað um falsfréttir. Eitt dæmi um slíkar fréttir er í nýlegri Facebook-færslu Össurar Skarphéðinssonar. Hann skrifar:

Brynjar Níelsson segir að tíu ára afmæli hrunsins sé notað í pólitískum tilgangi. Í frægri skýrslu Hannesar Gissurarsonar um hrunið er ein af niðurstöðunum þessi: “Ábyrgðina ætti því ekki að finna hjá Oddssyni heldur gömlum andstæðingum hans í pólitík…” - Taka þessi orð ekki af tvímæli um að Brynjar Níelsson hefur rétt fyrir sér að þessu sinni?

Össur slítur orð mín úr samhengi og rangfærir. Þau hljóða svo í skýrslunni (SIC er Rannsóknarnefnd Alþingis):

While the SIC in its Report confirms many of the unequivocal warnings that the CBI governors uttered in confidential meetings with government ministers in the year preceding the bank collapse, in its general discussion it faults one of them, David Oddsson, for being a former politician so that old political opponents tended to dismiss his advice. The SIC complains of “a certain degree of distrust and cooperation problems” between Oddsson and leading Social Democrats. But whether or not Oddsson distrusted the Social Democrats as much as they may have distrusted him seems of little relevance because the issue was that he was warning them and that they were ignoring his warnings. It was not that they were proposing something which he was dismissing for his own personal reasons. The fault therefore should have been found not with Oddsson, but with his old political opponents who apparently could not set aside old grievances in the face of an approaching danger for the Icelandic nation of which he was warning them.

Ég bæti síðan við:

In the second place, this criticism by the SIC also may be regarded as a formal error: There were three CBI governors, in addition to Oddsson Eirikur Gudnason and Ingimundur Fridriksson. If Gudnason and Fridriksson, both of them economists with long experience in central banking and not with any known political affiliation, had disagreed with Oddsson, then he would not have been able to speak on behalf of the CBI. But the two other CBI governors had become convinced, with Oddsson, of the imminent danger. If old foes of Oddsson did not want to listen to him because of his past political career, then they should at least have taken his two colleagues seriously.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband