Prag 1948

Árið 2006 kom út kennslubók í sögu Íslands og umheimsins, Nýir tímar, ætluð framhaldsskólum. Höfundarnir voru sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson. Líklega eiga þeir vanmæli (understatement) allra tíma, þegar þeir segja á bls. 227, að Stalín hafi framkvæmt samyrkjustefnu sína „í óþökk mikils hluta bænda“. Sannleikurinn er sá, að Stalín knúði bændur til samyrkju með því að svelta til bana sex milljónir manns í Úkraínu og Suður-Rússlandi, og fjöldi bænda og skylduliðs þeirra var líka fluttur nauðugur til Síberíu.

Þeir Gunnar og Sigurður segja á bls. 267 frá valdaráni kommúnista í Tékkóslóvakíu fyrir sjötíu árum: „Snemma árs 1948 viku fulltrúar samstarfsflokka kommúnista úr ríkisstjórn og kommúnistar mynduðu stjórn með nánum samherjum sínum. Þessi umskipti komu illa við marga á Vesturlöndum því að þau þóttu staðfesta að landið væri nú á óskoruðu áhrifasvæði Sovétmanna.“ Þetta er annað vanmælið. Kommúnistar fengu í samsteypustjórn eftir stríð í sinn hlut innanríkis- og varnarmálaráðuneytin og með því yfirráð yfir lögreglu og her landsins. Hófu þeir miklar hreinsanir í lögreglunni. Þegar þeir neituðu að fara eftir samþykkt meiri hluta ríkisstjórnarinnar um að ráða aftur ýmsa lögregluforingja, sem þeir höfðu rekið, og hótuðu valdbeitingu, sögðu samráðherrar þeirra af sér í febrúar 1948.

Vopnaðar sveitir kommúnista lögðu þá í skyndingu undir sig ráðuneyti hinna fyrrverandi ráðherra og hröktu burt embættismenn, sem þeir töldu sér ekki hliðholla. Kommúnistar mynduðu stjórn og tóku allt vald í sínar hendur, héldu áfram hreinsunum í lögreglu og öðrum opinberum stofnunum og breyttu Tékkóslóvakíu á nokkrum mánuðum í einræðisríki. Fjöldi manns flýði land. Í ævisögu Halldórs Kiljans Laxness segi ég frá dapurlegum örlögum tveggja tékkneskra Íslandsvina, Zdeneks Nemeceks og Emils Walters.

Sagt er að sigurvegararnir skrifi jafnan söguna. Það á ekki við á Íslandi. Þótt kalda stríðinu lyki með sigri vestrænna lýðræðisríkja yfir kommúnismanum eru íslenskir kommúnistar látnir skrifa þá sögu sem framhaldsskólanemar læra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.)


Hvað sagði ég í Ljubljana?

IMG_9520Ég sótti ráðstefnu í Ljúbljana, höfuðborg Slóveníu, dagana 13.-15. nóvember. Hún hét „Skuggahlið tunglsins“ og var um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld. Fyrirlestur minn var um, hvernig raddir fórnarlambanna fengju að heyrast. Eins og Elie Wiesel sagði, drepur böðullinn alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Ég benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Ég reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstrimönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki sé minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit birst í þeirri ritröð. Á þessu ári koma út þrjú rit, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946-1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950-1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. nóvember 2018.)


11. nóvember 1918

Á sunnudag eru hundrað ár liðin frá því að fulltrúar Þýskalands, Frakklands og Bretlands undirrituðu samning um vopnahlé í Compiègne-skógi í Norður-Frakklandi. Norðurálfuófriðnum mikla, sem staðið hafði frá hausti 1914, var lokið eftir óskaplegar mannfórnir. Áður en stríðið skall á, hafði verið friður í álfunni í heila öld. Menn gátu ferðast án vegabréfa um álfuna þvera og endilanga nema til Rússaveldis og Tyrkjaveldis. Ríkisvaldið virtist þá vera lítið annað en vingjarnlegur lögregluþjónn á næsta götuhorni. Allt þetta breyttist í ófriðnum. Mannkynið virtist heillum horfið. „Mér blæddi inn,“ sagði ungur, íslenskur rithöfundur, sem getið hafði sér orð í Danmörku, Gunnar Gunnarsson.

Segja má, að til séu tvær hugmyndir um söguna. Hún sé eins og drukkin könguló, sem flækist milli þráða í neti sínu, eða eins og járnbrautarlest, sem renni á teinum frá einum stað á annan. Fyrri hugmyndin virðist eiga vel við um Norðurálfuófriðinn mikla. Hann var stórslys, alls ekki óhjákvæmilegur. Kveikjan að honum var, að 28. júní 1914 myrtu serbneskir þjóðernissinnar ríkisarfa Austurríkis og konu hans í Sarajevo, sennilega að undirlagi serbnesku leyniþjónustunnar. Banatilræðið hefði ekki þurft að takast. Margt hefði getað komið í veg fyrir það.

Vissulega þráðu Frakkar hefnd eftir ósigur sinn fyrir Þjóðverjum 1871 og stukku á fyrsta tækifærið. Ef til vill voru Rússar líka svo skuldbundnir Serbum, að þeir urðu að liðsinna þeim, þegar Austurríki og bandamenn þess vildu hefna morðsins á ríkisarfanum. En hvers vegna í ósköpunum fór Stóra-Bretland í stríðið? Það voru reginmistök. Ef einhver svarar því til, að Bretar hafi verið skuldbundnir Belgíu (sem Þjóðverjar réðust á í sókn sinni til Frakklands), þá má benda á, að Bretar voru líka skuldbundnir Póllandi 1939 og sögðu Ráðstjórnarríkjunum þó ekki stríð á hendur, þegar Rauði herinn réðst inn í Pólland 17. september. Hefðu Bretar ekki farið í stríðið 1914, þá hefðu miðveldin, Austurríki og bandamenn þess, ekki verið lengi að sigra Frakka og Rússa. Stríðið hefði orðið stutt. Þess í stað var það ekki til lykta leitt, fyrr en Bandaríkjamenn gerðu sömu mistök og Bretar á undan þeim og fóru í stríðið. Afleiðingarnar urðu alræði kommúnista og nasista í Rússlandi og Þýskalandi. Vorið 1940 voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Norðurálfunni, Stóra-Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og áttu undir högg að sækja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.)


Í köldu stríði

Árið 2014 sendi Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, frá sér bókina Í köldu stríði, þar sem hann sagði frá baráttu sinni og Morgunblaðsins í kalda stríðinu, sem hófst, þegar vestræn lýðræðisríki ákváðu að veita kommúnistaríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu viðnám. Íslendingar gengu þá til liðs við aðrar frjálsar þjóðir, sem mynduðu með sér varnarbandalag, Atlantshafsbandalagið. En hér starfaði líka Sósíalistaflokkur, sem þáði verulegt fé frá Moskvu og barðist fyrir hagsmunum Kremlverja. Hélt hann úti dagblaðinu Þjóðviljanum og átti talsverðar húseignir í Reykjavík.

Styrmir hafði njósnara í Sósíalistaflokknum, sem gaf honum skýrslur. Ein skýrslan hefur ekki vakið þá athygli sem skyldi (bls. 123). Hún er frá janúar 1962. Segir þar frá fundi í einni sellu Sósíalistaflokksins, þar sem ónafngreindur námsmaður í Austur-Þýskalandi talaði, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi verið Guðmundur Ágústsson, sem seinna varð formaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur.

„Skýrði hann frá því að hann stundaði nám við skóla þar sem kennd væri pólitík og njósnir en hann mun hafa annað nám að yfirvarpi. Rétt er að geta þess að áður en [Guðmundur] byrjaði að tala spurði hann deildarformann, hvort ekki væri óhætt að tala opinskátt. Formaður hélt það nú vera. [Guðmundur] skýrði einnig frá því, að í fyrra hefði ekki verið nægilegt fé fyrir hendi til þess að standa straum af kostnaði við þá Íslendinga sem dveldust í Austur-Þýskalandi á vegum flokksins hér og þess vegna hefðu verið tekin inn á fjárlög austurþýska ríkisins (þó ekki þannig, að beinlínis hafi komið fram) 180 þúsund austurþýsk mörk til þess að standa straum af útgjöldum íslenska kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi.“ Enn segir í skýrslunni: „Þá sagði [Guðmundur], að meðal kommúnista í Austur-Evrópu ríki mikil ánægja með Þjóðviljann, sem talið væri eitt besta blað kommúnista á Vesturlöndum.“

Það er merkilegt, að sósíalistarnir á sellufundinum virðast hafa látið sér vel líka uppljóstranir námsmannsins unga. Ekki er síður fróðlegt að kommúnistar í Austur-Evrópu skyldu hafa talið Þjóðviljann „besta blað kommúnista á Vesturlöndum“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband