Bankahrunið: Svartur svanur

Í dag eru tíu ár liðin frá bankahruninu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið „svartur svanur“, eins og líbanski rithöfundurinn Nassem Taleb kallar óvæntan, ófyrirsjáanlegan atburð, sem er engum að kenna, heldur orsakast af því, að margt smátt verður skyndilega eitt stórt.

Það fór saman, að sölu ríkisbankanna lauk í árslok 2002 og að þá fylltist allur heimurinn af ódýru lánsfé vegna sparnaðar í Kína og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans. Jafnframt nutu íslenskir bankar hins góða orðspors, sem íslenska ríkið hafði aflað sér árin 1991-2004, svo að þeim buðust óvenjuhagstæð lánskjör erlendis. Þrennt annað lagðist á sömu sveif. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu bankarnir fengið aðgang að innri markaði Evrópu; nýir stjórnendur þeirra höfðu aldrei kynnst mótvindi og gerðu því ráð fyrir góðu veðri framvegis; og eigendur bankanna áttu langflesta fjölmiðla og bjuggu því ekki við aðhald. Afleiðingin af öllu þessu varð ör vöxtur bankanna við fagnaðarlæti þjóðarinnar. Þeir uxu langt umfram það, sem hið opinbera hafði tök á að styðja í hugsanlegum mótvindi.

En útþensla íslensku bankanna olli gremju keppinauta þeirra í Evrópu og tortryggni evrópskra seðlabankastjóra, sem töldu hana ógna innstæðutryggingum og litu óhýru auga, að íslensku bankarnir nýttu sér í útbúum á evrusvæðinu lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu eins og aðrir evrópskir bankar utan evrusvæðisins (til dæmis breskir) gerðu. Ákveðið var í fjármálakreppunni að veita Íslandi enga aðstoð. Við þetta bættist stjórnmálaþróunin í Bretlandi. Þar óttaðist Verkamannaflokkurinn uppgang skoskra þjóðernissinna, sem fjölyrtu um „velsældarboga“ frá Írlandi um Ísland til Noregs og sjálfstætt Skotland framtíðarinnar færi undir. Stjórn Verkamannaflokksins ákvað í fjármálakreppunni að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, á meðan hún jós fé í alla aðra banka landsins. Þetta leiddi til falls Kaupþings. Stjórnin bætti síðan gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum að þarflausu gegn Íslendingum og siga á þá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Velsældarboginn breyttist í gjaldþrotaboga, eins og Alistair Darling orðaði það síðar.

Bandaríkjastjórn sat aðgerðalaus hjá, enda var Ísland nú ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í hennar augum. Íslands óhamingju varð allt að vopni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.)


Bloggfærslur 7. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband