Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju?

Spænska nafnið á eyjaklasanum, sem Spánn ræður skammt undan strönd Blálands hins mikla, er Canarias, en það merkir Hundaeyjar. Dagana 30. september til 5. október 2018 tók ég þátt í ráðstefnu alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin-samtakanna, á Gran Canarias, Stóru hundaeyju. Ég tók tvisvar til máls, fyrst á morgunverðarfundi um stjórnmálaviðhorf í Rómönsku Ameríku. Sú skoðun er algeng þar syðra, að velgengni Norðurlanda sé að þakka jafnaðarstefnu. Ég vísaði því á bug. Þessa velgengni mætti aðallega skýra með traustu réttarríki, frjálsum alþjóðaviðskiptum, ríku gagnkvæmu trausti og samheldni í krafti samleitni, rótgróinna siða og langrar, sameiginlegrar sögu.

Á málstofu um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði sagði ég, að vissulega væri til frjálslynd þjóðernisstefna, sem miðaði að því að færa valdið nær fólki og reist væri á sterkri þjóðernisvitund. Norðmenn hefðu sagt skilið við Svía 1905, af því að þeir væru Norðmenn, ekki Svíar. Íslendingar hefðu ekki verið og vildu ekki vera Danir með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu þjóð, og þess vegna hefðu þeir stofnað fullvalda ríki 1918. Hins vegar þyrfti þjóðernisvitundin að dómi frjálshyggjumanna að vera sjálfsprottin frekar en valdboðin. Þjóðin skilgreindist umfram allt af vilja hóps til að deila hlutskipti. Hún væri dagleg atkvæðagreiðsla, eins og franski rithöfundurinn Ernest Renan hefði sagt. Ég vitnaði í því sambandi líka í þá athugasemd breska stjórnmálahugsuðarins Edmunds Burkes, að land þyrfti að vera elskulegt, til þess að íbúar þess gætu elskað það.

Dæmi um eðlilega og æskilega þjóðernisvitund eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistlendingar, Lettar og Litháar. Þeir eru ekki og vilja ekki vera Rússar. Norðurálfan er full af þjóðarbrotum, sem hafa ekki unað sér vel innan um stærri heildir. Eins og fyrri daginn væri lausn frjálshyggjumanna að færa valdið nær fólkinu. Íbúar Álandseyja hefðu nú sjálfstjórn og væru hinir ánægðustu innan Finnlands, þótt þeir töluðu sænsku. Ítalir hefðu síðustu áratugi komið svo langt til móts við íbúa Suður-Týrols, sem slitið var af Austurríki 1918, að fáir hefðu þar lengur áhuga á aðskilnaði. Þessi fordæmi kynnu að vera gagnleg Skotum og Katalóníumönnum, ef þeir vildu ekki ganga alla leið eins og Norðmenn 1905, Íslendingar 1918 og Slóvakar 1993.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband