Óþarfar skattahækkanir

Því betur sem ég hef skoðað skattamál, því sannfærðari hef ég orðið um, að langtímaafleiðingar af skattahækkunum eru miklu verri en skammtímaafleiðingarnar, þótt þær séu slæmar. Margar þessar langtímaafleiðingar blasa ekki við, en eru engu að síður raunverulegar. Ef bætt er við þrepi í tekjuskatt, þá munu allir til dæmis reyna að hagræða tekjum sínum, skipta þeim á milli sín og annarra í sömu fjölskyldu eða skipta þeim á milli tímabila, til þess að lenda ekki á skatthærra þrepinu. Þá minnkar líka verkaskipting í atvinnulífinu, því að það hættir að borga sig að vinna lengur sjálfur (og lenda á skatthærra þrepinu) og ráða aðra til að veita margvíslega þjónustu. Þá verður áhætta kostnaðarsamari en áður, því að takist fjárfesting, lendir afrakstur hennar á skatthærra þrepinu, en mistakist hún, lendir hann á skattlægra þrepinu. Og svo framvegis. Hækkun fjármagnstekjuskatts er einnig óheppileg, því að með henni er refsað fyrir sparsemi. Fjármagnstekjur myndast af því fé, sem menn hafa lagt til hliðar í stað þess að eyða. Þær eru tekjur af húsaleigu, hlutabréfasölu, arði og vöxtum. Með hækkun fjármagnstekjuskatt hefur eyðsluklóin sigrað búmanninn.

Hið sorglega er, að þessar skattahækkanir eru allar óþarfar. Sömu mennirnir og mæla nú fyrir þeim (Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson), mæltu fyrir slíkum skattahækkunum í góðærinu forðum. Þeir eru ekki að reyna að fullnægja fjárþörf ríkissjóðs, heldur að neyða eigin hugmyndum um „réttláta“ tekjuskiptingu upp á aðra. Brúa hefði mátt bilið, sem skattahækkanirnar eiga að gera, með því að selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun. Ég tel mig hafa heimildir fyrir því, að lífeyrissjóðirnir hefðu verið fúsir til slíkra kaupa, og hefði verðið verið reitt fram í tveimur afborgunum á jafnmörgum árum, þá hefði það numið svipuðum upphæðum og afla á með skattahækkununum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband