Hann vildi rýmka reglurnar!

Ég hef undanfarið átt orðastað við tvo unga og hrokafulla hagfræðinga, Jón Steinsson og Gauta B. Eggertsson, um útlán Seðlabankans til viðskiptabankanna í aðdraganda bankahrunsins. Þeir halda því fram, að Seðlabankinn hafi verið ógætinn í þessum útlánum. Ég hef bent á fjögur atriði bankanum til varnar:
  • Seðlabankinn fylgdi sömu reglum um slík útlán og veð fyrir þeim og Evrópski seðlabankinn, nema hvað reglur Seðlabankans voru strangari, því að hann tók aðeins veð í kröfum, sem skráðar voru á markaði.
  • Seðlabankinn varð að treysta á upplýsingar, sem er í verkahring Fjármálaeftirlitsins að meta, um eigið fé viðskiptabankanna. Hann gat ekki tekið að sér hlutverk Fjármálaeftirlitsins.
  • Hefði Seðlabankinn hætt útlánum sínum fyrr eða hert um þær reglur, þá hefði bankahrunið orðið fyrr, en allir vonuðu auðvitað, að lánsfjárkreppunni linnti, og þá hefðu hugsanlega einhverjar bankanna haldið velli.
  • Annars staðar í heiminum færa seðlabankar nú til bókar stórkostlegt tap af björgunaraðgerðum stjórnvalda í lánsfjárkreppunni. Munurinn var sá, að tapið hlaut að verða stærra á Íslandi, þar sem bankarnir hrundu og höfðu auk þess verið miklu stærri hlutfallslegra en annars staðar.

Ég hef einnig minnt á, að ekki megi rugla saman björgunaraðgerðum vegna hrunsins annars vegar (eins og Seðlabankinn sá um samkvæmt lögum) og orsökum bankahrunsins hins vegar (sem voru margar og flóknar).

En hvað sögðu hinir ungu og hrokafullu hagfræðingar fyrir hrun? Þeir vöruðu ekki við því, eins og formaður bankastjórnar Seðlabankans gerði hvað eftir annað. Öðru nær. Jón Steinsson sagði einmitt opinberlega, að Seðlabankinn ætti að rýmka reglur sínar og auka útlán til viðskiptabankanna! Á heimasíðu Jóns við Columbia-háskóla getur að líta þessa greiningu frá 27. september 2008 undir fyrirsögninni „Seðlabankinn sefur“. Þar mælir hann fyrir stóraukinni aðstoð Seðlabankans við viðskiptabankana með útgáfu ríkistryggðra bréfa:

„Stór útgáfa ríkistryggðra bréfa myndi líklega hafa aukaverkanir í för með sér hvað varðar lau[s]afjárstöðu bankanna í krónum. En Seðlabankinn á að geta leyst þann vanda með því að rýmka reglur um veðhæfar eignir í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann.“

Jón sagði svipað í viðtali við Markaðinn í Fréttablaðinu 19. ágúst 2008. Maðurinn, sem kvartar nú undan því, að reglur Seðlabankans um útlán til viðskiptabankanna hafi ekki verið nógu strangar, vildi fyrir hrun rýmka þessar reglur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband