Á gangi í miðbænum

Ég gekk í dag, sunnudaginn 8. nóvember 2009, fram hjá Hótel Borg, og þá varð mér hugsað til þess, hversu sögufrægur sá staður er, enda var hann lengi eini raunverulegi samkomustaðurinn í höfuðborginni, sem stóð undir nafni. Þar greiddu
Tómas Guðmundsson og aðrir fastagestir atkvæði um það í upphafi fjórða
áratugar, hvort veita ætti þeldökku fólki aðgang að staðnum. Tómas var
sem vænta mátti eindreginn stuðningsmaður þess, og þá varð til hið
fræga kvæði hans um, að hjörtunum svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Raunar var aftur fest upp spjald þar laugardagskvöldið 10. maí
1952: „We do not cater for colored people here.“ (Hér fær þeldökkt fólk
ekki afgreiðslu.) Daginn eftir reif Sigurður Magnússon, kennari og
blaðafulltrúi Loftleiða um skeið, spjaldið niður, eins og Alþýðublaðið
sagði frá 13. maí, og urðu engin eftirmál. Það var á Hótel
Borg, sem Árni Pálsson prófessor sagði, þegar vinur hans kom þangað
grúttimbraður og pantaði sér sódavatn: „Þetta kalla ég illa farið með
góðan þorsta.“ Það var á Hótel Borg, sem Kjarval sagði við
þjóninn: „Ég hef nú ekki peninga til að borga yður með, en ég get boðið
yður dús. Er það ekki nóg?“ (Þessa sögu skilur unga kynslóðin sennilega
ekki.) Það var líka á Hótel Borg, sem Agnar Bogason ritsjóri sagði, að Akureyringar væru bestir klukkustundu fyrir rismál. Og
það var á Hótel Borg, sem þeir sátu iðulega að skrafi Doddi kúla
(Þórður Albertsson) og Tómas skáld. Eitt sinn barst í tal
vísuhelmingur, sem kenndur er Marteini Lúther með vafasömum rétti, að
sá væri glópur allt sitt líf, sem ekki elskaði sönginn, vín og víf.
Doddi kúla sagði: „Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum
vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir
að velja á milli víns og kvenna?“ Tóms svaraði með sinni venjulegu
hægð: „Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.“ Í
annað skipti vitnaði Doddi kúla í þau frægu orð Oscars Wilde, að kona
með fortíð ætti sér enga framtíð. Tómas sagði þá: „En þeir, sem slíkri
konu kynnast, hljóta að gera sér vonir um, að sagan endurtaki sig.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband