Jón S. Guðmundsson

jonsgudmundssonJón Sigurður Guðmundsson er rammíslenskt nafn, og íslenskukennarinn, sem bar það og kenndi í Menntaskólanum í Reykjavík í hálfa öld, var rammíslenskur maður. Hann mótaði málfar marga kynslóða með leiðréttingum sínum víð skólastíla og leiðbeiningum, sem allar hnigu í átt að vönduðu, eðlilegu og þó blæbrigðaríku máli, þar sem sneitt væri hjá dönsku- og enskuslettum, tuggum og tilgerð. Hann kenndi mér íslensku í þrjá vetur af fjórum í Menntaskólanum í Reykjavík, og man ég enn fyrsta skólastílinn, sem ég fékk mér til mikillar undrunar útkrotaðan frá honum í rauðu haustið 1968. Ég hafði til dæmis skrifað „Mexico City“, en Jón benti á, að ég ætti annaðhvort að nota íslenska heitið Mexíkóborg eða hið spænska nafn borgarinnar, Ciudad Mexico. Auðvitað! Hann brýndi fyrir okkur að hafa fleiri orð um ýmsar framkvæmdir en sögnina ofnotuðu „að byggja“. Við leggjum vegi, reisum hús, smíðum brýr og hlöðum stíflur. Í stað annars ofnotaðs orðs, „uppbyggingar,“ mátti iðulega setja myndun, mótun, þróun, vöxt eða skipulagningu. Jón varaði okkur líka við nafnorðahröngli að enskri fyrirmynd. Mig grunar, að hann hafi í íslenskunámi sínu í Háskólanum aðallega mótast af tveimur ólíkum fræðimönnum, Birni Guðfinnssyni málfræðingi og Sigurði Nordal, bókmenntaskýranda og skáldi, og vitnaði hann oft til þeirra í kennslustundum.

Jón var einnig glöggur prófarkalesari. Hann las til dæmis öll þrjú bindin af ævisögu Laxness fyrir mig í handriti af stakri prýði. Fróðlegt var að fara yfir athugasemdir hins gamalreynda íslenskumanns og sjá, hvernig textinn batnaði og varð liprari með tiltölulega litlum breytingum. Jón hafði ekki alist upp við mikil efni, en brotist til mennta. Hann var gæfumaður, því að hann var í starfi, sem átti afar vel við hann. Jón var kennari af Guðs náð, unni sér ekki hvíldar, flutti mál sitt vel og skörulega og hreif nemendur með sér, þegar lesnar voru íslenskar bókmenntir, Egils saga, Hávamál, Völuspá, Passíusálmarnir, Reisubókin og mörg fleiri afbragðsverk, sem festust í minni nemenda fyrir tilstilli hans. Þegar Jón S. Guðmundsson féll frá, var svo sannarlega skarð fyrir skildi.

Minningargrein í Morgunblaðinu (þar örlítið stytt) 20. apríl 2008. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband