Jólasveinarnir

Jolly-old-saint-nickHvers vegna eru íslensku jólasveinarnir þrettán svo gerólíkir jólasveininum alþjóðlega, góðlega, rauðklædda og hvítskeggjaða, sem fer með himinskautum og gefur þægum börnum gjafir? Íslensku jólasveinarnir eru hrekkjóttir og þjófóttir og koma ofan úr fjöllum, einn af öðrum, og móðir þeirra, Grýla, á það til að éta óþæg börn. Alþjóðlegi jólasveinninn er hins vegar ættaður frá heilögum Nikulási, sem var biskup í borginni Myra í Rómarríki, nú Demre í Tyrklandi. Hann var uppi á fjórðu öld eftir Krist og kunnur að gjafmildi og örlæti. Nafn hans afbakaðist í Sinterklaas í hollensku og Santa Claus á ensku (Papa Noel á portúgölsku).  

Ég leyfi mér að setja fram þá tilgátu, sem getur ekki verið frumleg, að munurinn stafi af gerð og björgum þjóðskipulagsins. Allir þeir, sem gætt hafa ungra barna, vita, hversu erfitt er að fá þau til að hlýða boðum og bönnum, svo að þau hlaupi ekki þangað, sem hættur leynast. Þá þarf ýmist að veifa framan í þau vendinum eða gulrótinni, óttanum eða voninni. Ísland er land djúpra dala, hárra fjalla, margra mánaða myrkurs og hættulegra lækja, fljóta og vatna. Allt var opið, engar girðingar sem heitið gæti. Hætt var við, að börn færu sér að voða nálægt sveitabæjum í skammdeginu. Þess vegna voru þeim sagðar sögur til að hræða þau til gætni, og þær voru af Grýlu og jólasveinunum, sem gæti hrifsað burt allt góðgætið til jólanna, hámað í sig skyr, krækt sér í bjúgu og hangikjötslæri. Þau yrðu að haga sér vel, fara ekki út fyrir túnfótinn, hlýða, svo að þau færu ekki í jólaköttinn.

Úti í Norðurálfunni mátti hins vegar beita voninni sem stýritæki í stað óttans. Þegar börnin höguðu sér vel, þá gátu þau treyst því, að jólasveinninn kæmi með gjafir handa þeim. Flest lönd Norðurálfunnar voru miklu ríkari en Ísland, þar var bjartara í jólamánuðinum og auðveldara fyrir foreldra að fylgjast með börnum sínum. En hér á Íslandi útrýmdi rafmagnið myrkrinu og flest börn komast ekki út fyrir girðingar. Þess vegna á alþjóðlegi jólasveinninn miklu betur við nú. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir þrettán eru fyrirbæri liðinnar tíðar. Vonin um gjafir fyrir hlýðni er áhrifameiri en óttinn við Grýlu og jólasveinina þrettán.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband