Gyðingahatur

Einfaldasta skilgreiningin á Gyðingahatri er, þegar lagður er allt annar mælikvarði á Gyðinga en aðra jarðarbúa, svo að þeim leyfist ekki að verja sig af sömu hörku og öðrum. Dæmigerð eru ofsafengin viðbrögð við því, þegar Ísraelar svöruðu villimannslegri árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á þá frá Gaza 7. október 2023 með gagnárás í því skyni að stöðva hryðjuverk Hamas. Hvað áttu Ísraelar að gera? „Ef Arabar leggja niður vopn, þá verður friður. Ef Ísraelar leggja niður vopn, þá verður Ísrael útrýmt,“ sagði Golda Meir. Tvær milljónir Araba eru ríkisborgarar í Ísrael og njóta þar fullra réttinda.

Íslensk tónskáld vilja, að Ísraelar sæti sömu meðferð og Rússar í alþjóðlegri söngvakeppni. En munurinn er sá, að Rússar réðust á Úkraínu, en Hamas á Ísrael. Hér er lagður allt annar mælikvarði á Ísraela en Rússa. Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru Gyðingar. Horft er síðan fram hjá því, að erfitt er að gera greinarmun á Palestínumönnum á Gaza og Hamas. Þeir kusu yfir sig Hamas og virðast flestir styðja þessi viðbjóðslegu hryðjuverkasamtök, sem hafa það yfirlýsta markmið að útrýma Ísrael. Ekkert tillit er heldur tekið til þess, að Hamas skýtur sífellt eldflaugum á óbreytta borgara í Ísrael, tók gísla í árásinni 7. október og notar eigin konur og börn sem lifandi skildi. Hamas ber ábyrgð á því, þegar konur og börn falla í Gaza. Hvers vegna beinist reiðin ekki að þeim? Vegna þess að þeir eru ekki Gyðingar.

Gyðingar hafa alltaf skorið sig úr. Í Rómarveldi voru þeir ofsóttir, af því að þeir trúðu á einn Guð og þvertóku fyrir að dýrka keisarana. Á miðöldum kenndu sumir kristnir menn Gyðingum um krossfestingu Krists, og skyldu syndir feðranna koma niður á börnunum. Nú á dögum virðist helsta skýringin á Gyðingahatri vera, að þeir skara fram úr. 214 Gyðingar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í vísindum, þrír Arabar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband