Hitt drápið

dh003608Tveir Íslendingar voru drepnir í Kaupmannahöfn, eftir að þýska hernámsliðið í Danmörku gafst upp 5. maí 1945, rithöfundurinn Guðmundur Kamban, sem margt hefur verið skrifað um, og sautján ára drengur, Karl Jón Hallsson. Er sagt frá drápi Karls Jóns í Berlínarblús eftir Ásgeir Guðmundsson. Faðir hans, Gunnar Hallsson, útgerðarmaður í Esbjerg, og bróðir hans, Björn, voru báðir nasistar. Karl Jón hafði að vísu gengið í ungliðasamtök danska nasistaflokksins þrettán ára, en sagt sig úr þeim tveimur árum síðar. Vorið 1945 stundaði hann menntaskólanám í Kaupmannahöfn. Andspyrnuliðar gripu hann á götu 5. maí og fluttu í bráðabirgðafangelsi, þar sem hann var geymdur í röskan sólarhring. Síðdegis næsta dag var hann rekinn upp í pall á vörubíl, sem átti að flytja hann og fleiri í venjulegt fangelsi. Var fyrst ekið hægt um borgina, svo að fólki gæfist kostur á að hrópa að föngunum, hrækja á þá og grýta í þá öllu lauslegu. Karl Jón varð órólegur, og tók einn andspyrnuliðinn það til bragðs að skjóta hann. Drengurinn særðist og féll niður á pallinn. Þá var hann skotinn aftur og nú í höfuðið, svo að hann lést strax.

Síðar kom í ljós, að Karl Jón hafði verið tekinn í misgripum fyrir bróður sinn. Faðir hans og bróðir fengu báðir dóma fyrir samstarf og þjónustu við hernámsliðið. Dönsk stjórnvöld gerðu ekkert til að upplýsa drápið, en sjónarvottar sögðu síðar frá því, að Leifur Gunnlögsson verslunarmaður, sem var af íslenskum ættum, hefði hleypt af fyrra skotinu, en danskur vörubílstjóri, P. O. Nielsen, hinu seinna. Er þetta dráp enn eitt dæmi þess, hversu mikilvægt er að halda uppi lögum, hvað sem á dynur. Í nokkrar vikur í stríðslok var Danmörk stjórnlaus. Margir voru þá teknir af lífi án undangenginnar rannsóknar. Eflaust voru ýmsir þeirra sekir, en aðrir höfðu ekki framið nein refsiverð brot, þótt hegðun þeirra hefði ef til vill verið ámælisverð. Alkunnur hrottaskapur nasista afsakaði ekkert. Danmörk var ekki Nasista-Þýskaland.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband