Dráp Kambans

1440221Á dögunum birti Guðmundur Magnússon sagnfræðingur fróðlega grein í Morgunblaðinu um dráp íslenska skáldsins Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn vorið 1945. Er þar í fyrsta skipti upplýst um drápsmanninn. Hann var Egon Alfred Højland, sem hafði ungur gerst róttækur og barist með lýðveldishernum í spænska borgarastríðinu (sjá Aktuelt 18. júlí 1986). Síðan var Højland virkur í samtökum jafnaðarmanna, þar á meðal andspyrnuhópnum Hringnum, Ringen. Þegar þýski herinn í Danmörku gafst upp aðfaranótt 5. maí 1945, skálmuðu Højland og aðrir andspyrnuliðar um vopnaðir og handtóku þá, sem þeir töldu hafa aðstoðað nasista á hernámsárunum. Voru um 25 manns skotnir til bana þann dag. Kamban var drepinn, af því að hann neitaði að fara með andspyrnuliðunum. Højland var skiltamálari að atvinnu, og þegar Erhard Jakobsen klauf Jafnaðarmannaflokkinn árið 1973 og stofnaði eigin flokk, fylgdi Højland honum og sat á danska þinginu í tvö ár.

Á stríðsárunum drap andspyrnuhreyfingin um 400 manns, sem áttu að hafa verið flugumenn nasista (stikkers). Hefðu þeir sagt til andspyrnuliða og verið drepnir í sjálfsvörn (notað var feluorðið „likvideret“ eða eytt). Í ljós hefur hins vegar komið, að fæstir voru raunverulegir uppljóstrarar, heldur áttu einstakir andspyrnuliðar eitthvað sökótt við hina drepnu (sjá bækurnar Stikkerdrab eftir Steffan Elmkjær og Efter drabet eftir Peter Øvig Knudsen). Það var rangt, sem forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar sögðu síðar, að það hefði aðeins verið að vandlega athuguðu máli, sem drápin hefðu verið ákveðin. Tilviljun réð iðulega. Eftir stríð sömdu forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar við dönsk stjórnvöld um, að drápsmenn úr hreyfingunni yrðu ekki sóttir til saka, og rannsakaði andspyrnuhreyfingin sjálf sum mál, lögreglan önnur, en önnur voru aldrei rannsökuð. Í skjölum dönsku lögreglunnar kemur ekkert fram um, að Kamban hafi verið nasisti eða flugumaður þeirra. Hann var drepinn saklaus, myrtur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. september 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband