Merkilegt skjal úr Englandsbanka

Á netinu eru birt ýmis fróðleg skjöl um bankahrunið. Eitt er fundargerð bankaráðs Englandsbanka 15. október 2008, réttri viku eftir að stjórn breska Verkamannaflokksins lokaði tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, um leið og hún kynnti 500 milljarða aðstoð við alla aðra breska banka, jafnframt því sem stjórnin beitti hryðjuverkalögum á Landsbankann (og um skeið á Seðlabankann, Fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið).

Bankaráðið kemst að þeirri niðurstöðu að hin alþjóðlega fjármálakreppa hafi ekki aðeins verið vegna lausafjárþurrðar, heldur líka ónógs eigin fjár fjármálafyrirtækja. Þess vegna hafi hið opinbera víða orðið að leggja slíkum fyrirtækjum til hlutafé. Þetta gerðist á Íslandi í septemberlok 2008, þegar ríkið keypti 75% í Glitni. Bankaráðið bendir líka á að aðallega skorti lausafé í Bandaríkjadölum. Englandsbanki fékk í gjaldeyrisskiptasamningum nánast ótakmarkaðan aðgang að dölum. Veitti hann síðan fjármálafyrirtækjum lán gegn veðum, og var losað um reglur um slík veð, til dæmis tekið við margvíslegum verðbréfum. Hér gekk Englandsbanki enn lengra en Seðlabankinn, sem var þó eftir bankahrunið óspart gagnrýndur fyrir lán til viðskiptabanka.

Fundargerðin er ekki aðeins merkileg fyrir það að Englandsbanki var að gera nákvæmlega hið sama og Seðlabankinn íslenski. Í fundargerðinni víkur sögunni að aflöndum og fjármálamiðstöðvum, og segir þar: „Fækka þarf þeim smáríkjum sem kynna sig sem fjármálamiðstöðvar. Ísland var mjög skýrt dæmi. Vakin var athygli á því að Seðlabankinn íslenski hafði snemma árs sent menn til Englandsbanka. Þeim hafði verið sagt að þeir ættu hið snarasta að selja banka sína. Efnahagsreikningur Íslands væri of stór.“

Bretarnir töluðu að vísu eins og það hefði verið á valdi Seðlabankans að minnka bankakerfið, sérstaklega á tímabili þegar eignir seldust langt undir markaðsverði. En sú er kaldhæðni örlaganna að bankakerfið á Íslandi var svipað að stærð hlutfallslega og bankakerfin í Skotlandi og Sviss. Þeim var bjargað í fjármálakreppunni með því að leggja þeim til pund og dali. Ella hefðu þau hrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. maí 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband