Enn hljóp Jón á sig

Á dögunum birtist röng frétt á Netinu um, að Morgunblaðið hefði neitað bandaríska sendiherranum um að birta grein. Hið rétta var, að fyrir mistök birtist greinin ekki á föstudegi, eins og óskað hafði verið eftir. Sendiherrann birti þá greinina á Snjáldrusíðu sinni. Flestir héldu ró sinni, því að þeir sáu, að þessi netfrétt gat varla verið rétt. En Jón Steinsson hagfræðingur hljóp strax til og skrifaði á Snjáldrusíðu sína:

Mogginn birtir ekki grein eftir sendiherra Bandaríkjanna (sem vitaskuld áréttar það að refsiaðgerðirnar eru hluti af stefnu NATO þótt varðhundar LÍÚ á Íslandi telji það henta sér að tala um aðgerðirnar sem uppátæki ESB). Vá ... hægri armur Sjálfstæðisflokksins er virkilega kominn út í móa í hagsmunagæslu sinni fyrir LÍÚ. Ég held að það sé fátt mikilvægara fyrir langtíma framtíð Íslands en það að gjafkvótinn verði afnuminn til þess að þessari svakalegu rentusókn LÍÚ linni.

Þessi athugasemd Jóns er auðvitað fáránleg.

Hann heldur áfram að hlaupa á sig. Ekki verður annað sagt en hann hafi æfinguna.

Rifjum upp, hvað gerðist fyrir bankahrun. Í úrskurði Landsdóms í máli Geirs H. Haardes kemur fram, að Jón hafi 20. mars 2008 sent Geir (sem hann tengdist sem fjölskylduvinur) tölvubréf, þar sem hann hafi varpað því fram, „hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði“. Jón vildi með öðrum orðum ausa gjaldeyrisforðanum í bankana!

Þegar bankahrunið var síðan að skella á í októberbyrjun 2008, skrifaði Jón Geir H. Haarde annað tölvubréf, þar sem hann sagði „bráðnauðsynlegt að ríkið og Seðlabankinn ykju aðgang bankanna að lausu fé í krónum með því að víkka veðheimildir í Seðlabankanum“ (Skýrsla RNA, 20.3.7). Jón vildi með öðrum orðum prenta krónur til að halda bönkunum á floti!

Jón gerðist síðan forsprakki sérstaks starfshóps, sem sinnti einhvers konar sjálfboðastarfi til hliðar við Seðlabankann (og jafnvel á móti honum). Leiðarljós hópsins var, að dæla þyrfti fé í bankana, en ekki gera þá upp. Skoðun Seðlabankans var hins vegar, að aðalatriðið væri að bjarga íslenska ríkinu frá greiðslufalli og síðan að róa innstæðueigendur til að koma í veg fyrir áhlaup á banka og upplausnarástand. Þess vegna þyrfti að slá varnarhring um Ísland (ring-fencing), en láta erlenda kröfuhafa um að innheimta skuldir sínar hjá búum bankanna. (Auðvitað hefði verið æskilegt að bæta úr lausafjárskorti bankanna, en það var ekki hægt að gera án erlendrar aðstoðar, og Íslandi var neitað um hana. Þetta skildi Jón Steinsson bersýnilega ekki.)

Í heila viku í október 2008 var tekist á um þetta í stað þess að framkvæma strax tillögu Seðlabankans. Ráðherrar Samfylkingarinnar og minni spámenn eins og Jón Steinsson voru blindaðir af hatri á þáverandi stjórnendum Seðlabankans. Loks varð Seðlabankinn að fá hinn snjalla og þaulreynda enska fjármálasérfræðing Michael Ridley hjá J. P. Morgan við þriðja mann til að sannfæra ríkisstjórnina um, að bjarga yrði ríkinu og tryggja hag sparifjáreigenda. Bankarnir væru fallnir vegna lausafjárskorts.

Jón Steinsson átti sinn þátt í, að nauðsynlegar björgunaraðgerðir töfðust um viku með ómældum kostnaði. Hann var í algeru uppnámi þessa daga. Síðan hafði hann hin verstu orð um Geir H. Haarde við rannsóknarnefnd Alþingis. Hann kvað Geir hafa verið „á barmi taugaáfalls“, eins og segir í skýrslu nefndarinnar. Sannleikurinn er sá, að þessi orð lýsa Jóni sjálfum best, eins og hann flumbraðist um á þessum örlagatímum. En það hefur hingað til ekki verið talið drengilegt að snúa baki við velgjörðarmanni og fjölskylduvini eins og Jón gerði gagnvart Geir H. Haarde í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.

Þótt Jón Steinsson hafi lokað þeim netsíðum, sem til voru um málflutning hans fyrir og í bankahruninu, getur hann ekki lokað heimasíðum Rannsóknarnefndar Alþingis eða Landsdóms. Hin fljótfærnislega færsla hans á Facebook stendur líka. Raunar tók Hringbraut hana sérstaklega upp með velþóknun!

Jón Steinsson ætti nú auðvitað að biðja Morgunblaðið afsökunar. En líklega hefur hann ekki siðferðilegt þrek til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband