Dofnað yfir gáfnaljósi?

 

herganga_kommu_769_nista_1277661.jpg

Vegna rannsóknarverkefnis, sem ég hef tekið að mér fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, hef ég lagt mig eftir að lesa ýmislegt, sem skrifað er um íslensk stjórnmál á ensku. Margt er þar furðulegt. Ég rakst til dæmis á ritgerð eftir Jóhann Pál Árnason, félagsfræðiprófessor (emeritus) í Ástralíu, sem þótti eitt sinn skærasta gáfnaljósið í Sósíalistaflokknum gamla. Birtist hún í bók, sem heitir Leiðir Norðurlandaþjóðanna til nútímans (Nordic Paths to Modernity) og kom út 2012.


Þar segir Jóhann Páll um sinn gamla flokk: „Loks skapaði sameining kommúnista við vinstri væng Alþýðuflokksins 1938 fyrsta raunverulega Evrópukommúnistaflokkinn, og hann var sá eini, sem fylgdi þeirri stefnu tiltölulega lengi. Ólíkt kommúnistaflokkunum í Vestur-Evrópu (að franska kommúnistaflokknum undanteknum á níunda áratug) tók flokkurinn í Kalda stríðinu þátt í tveimur samsteypustjórnum.“

Þetta er allt rangt. Evrópukommúnisminn var viðleitni nokkurra kommúnistaflokka í Suður-Evrópu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að losa um tengslin við kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna. En Sósíalistaflokkurinn íslenski var alla tíð, frá því að hann var stofnaður 1938 uns hann var lagður niður 1968, trúr Kremlverjum. Ekki er til eitt einasta dæmi um það, að hann hafi gagnrýnt orð þeirra eða verk, enda þáði hann stórfé í styrki frá Moskvu, eins og kom í ljós eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna, þegar skjalasöfn opnuðust þar eystra.

Sósíalistaflokkurinn var helst sambærilegur við Lýðræðisbandalagið í Finnlandi, sem kommúnistar mynduðu með nokkrum jafnaðarmönnum eftir seinna stríð. Sá flokkur var að vísu hollur Kremlverjum, en ekki eins þröngt afmarkaður og dæmigerðir kommúnistaflokkar. Lýðræðisbandalagið finnska hraktist úr stjórn 1948, en var aftur í stjórn 1966–1971.

Í Kalda stríðinu sat Sósíalistaflokkurinn hins vegar ekki í stjórn á Íslandi. Alþýðubandalagið, ekki Sósíalistaflokkurinn, átti aðild að samsteypustjórnunum 1956–1958 og 1971–1974. Einn af tveimur ráðherrum Alþýðubandalagsins í fyrri stjórninni kom að vísu úr Sósíalistaflokknum og báðir ráðherrar flokksins í hinni seinni, en þá hafði Sósíalistaflokkurinn verið lagður niður.

Hefur eitthvað dofnað yfir gáfnaljósinu?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. janúar 2016. Teikningin er úr Morgunblaðinu 1956 og eflaust eftir Halldór Pétursson. Hér hefur verið leiðrétt, að Jóhann Páll var prófessor í félagsfræði, ekki heimspeki, í Ástralíu.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband