Á fyrirlestri gegn kapítalisma

331741.jpgÉg fór á fyrirlestur í dag, sem Félags- og mannfræðideild Háskóla Íslands efndi til og var furðulegur frekar en fróðlegur. Hann flutti prófessor í félagsfræði í Wisconsin-háskóla í Madison, Erik Olin Wright, um, hvernig ætti að vera andstæðingur kapítalismans á okkar dögum. Wright tilkynnti áheyrendum í byrjun, að hann væri aðallega kominn til Íslands til að tala yfir landsfundi Vinstri grænna. Hann sagði síðan, að kapítalisminn ylli stórkostlegum skaða. Fjórar leiðir væru til að vinna gegn honum: að mölva hann, beisla, yfirgefa eða veikja (erode). Fyrsta leiðin hefði ekki gefist vel á 20. öld, en hinar þrjár leiðirnar væru allar færar og jafnvel allar í einu. Taldi hann samvinnufélög verkamanna, almenningsbókasöfn og Wikipediu góð dæmi um andkapítaliska hegðun. Tryggja ætti öllum lágmarkstekjur án nokkurra skilyrða, og þá myndu andkapítalísk samtök og fyrirtæki blómgast og dafna.

Ég hugsaði margt, á meðan ég hlustaði á boðskapinn. Af hverju hafa samvinnufélög verkamanna þá ekki sigrað í samkeppninni við einkafyrirtæki? Hverjir eiga að framleiða bækurnar, sem lánaðar eru út á almenningsbókasöfnum? Hefði Wikipedia verið möguleg án þess kapítalisma, sem skapaði Netið og tómstundir fólks til að skrifa og lesa á Wikipediu?

Þegar ég stóð hins vegar upp og kvaddi mér hljóðs, gerði ég tímans vegna aðeins eina athugasemd og bar fram eina spurningu. Athugasemdin var, að Wright hefði nefnt, að kapítalisminn ylli meðal annars skaða á umhverfinu. Nú væri Wright væntanlega sammála mér um, að kapítalismi fæli í sér einkaeign á framleiðslutækjum, þar á meðal auðlindum. Leiða mætti sterk rök að því, að umhverfisspjöll væru vegna þess, að ekki væri eignarréttur á auðlindum. Menn menga það, sem enginn á og enginn gætir því. Þeir menga ekki það, sem aðrir eiga, því að þá lenda þeir í vandræðum. Vernd krefst verndara; umhverfisvernd krefst umhverfisverndara.

Spurning mín var, hvort ekki mætti líta á kapítalismann sem kerfi til að velja. Ef menn vildu sósíalisma, samkennd, jafna tekjudreifingu og svo framvegis, þá gætu þeir stofnað til byggða innan kapítalismans, þar sem þetta væri iðkað. Gott dæmi væri kibbutzinn í Ísrael, samyrkjubú. Um 6% landsmanna kysu að búa þar. Það væri góð mæling á andkapítalisma. Hvers vegna þyrftu andstæðingar kapítalismans að neyða þessu vali sínu á þau 94%, sem vildu frekar kapítalisma?

Svör Wrights voru umhugsunarefni. Hann sagði, að kapítalismi væri ekki aðeins einkaeign á framleiðslutækjunum, heldur líka vald fjármagnseigenda. Í heimi, þar sem menn gætu ekki valdið öðrum kostnaði (utanaðkomandi kostnaði eða externalities), væri auðvitað ekki um umhverfisspjöll að ræða, en kapítalistar vildu menga, því að það væri ódýrt fyrir þá.

Wright virtist ekki skilja, að stuðningsmenn kapítalismans, að minnsta kosti við frjálshyggjumenn, eru ekki hlynntir því, að menn valdi öðrum kostnaði með gerðum sínum. Aðalatriðið er að minnka slíkan kostnað eða gera að engu. Menn skiptist á vöru eða þjónustu, án þess að aðrir gjaldi þess eða skaðist á því. Hann virtist ekki heldur skilja, að vald fjármagnseigenda er sáralítið í samanburði við vald ríkisins og annarra aðila, sem beita ofbeldi. Fjármagnseigendurnir þurfa að ávaxta fjármagn sitt, og til þess þurfa þeir að vaka og sofa yfir þörfum neytenda, tækniþróun og tíðaranda, hlaupa hraðar en keppinautarnir.

Eini hugsuðurinn, sem Wright vitnaði í, var Marx, og vitnaði hann oft í hann. Ég dreg eina ályktun af þessum furðulega fyrirlestri:

Vofa kommúnismans gengur ljósum logum — en ekki yfir Evrópu, heldur aðeins yfir vestrænum háskólum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband