Brella Nixons á Bessastöðum

nixon-pompidou.jpgÍ bókinni Umrótsárum (Years of Upheaval) 1982 rifjar Henry Kissinger upp heimsókn þeirra Richards Nixons Bandaríkjaforseta til Íslands vorið 1973 í því skyni að sitja fund með Frakklandsforseta (bls. 172): „Fyrst urðum við að hitta leiðtoga þessa harðbýla lands grýttra freðmýra og hrikalegra fjalla. Þar býr aðdáunarverð þjóð við endalausa dagsbirtu á sumrin, en myrkur á veturna, og dregur björg af ófúsri jörð og úr miskunnarlausum sæ.“

Kissinger kvað íslensku ráðherrana hafa verið með allan hugann við þáverandi þorskastríð. Íslendingarnir hefðu hótað hernaði gegn Bretum, lokun herstöðvarinnar í Keflavík og úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Nixon hefði reynt að sefa Íslendingana. Kissinger sagðist hafa orðið forviða á að heyra fulltrúa 200 þúsund manna smáþjóðar hóta hernaði gegn Bretaveldi, en ekki síður á bandarískum ráðamönnum fyrir að reyna að tala um fyrir þeim (bls. 173). „Mér varð hugsað til aldargamalla ummæla Bismarcks um, að ósvífni væri styrkleiki hinna veikburða, en veikleiki hinna sterku væri sjálfstakmarkanir.“

Eftir að bók Kissingers kom út, vísaði Ólafur Jóhannesson því aðspurður á bug í DV, að ráðherrar hefðu hótað úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu á fundinum, sem fór fram á skrifstofu forseta Íslands í Stjórnarráðinu miðvikudaginn 30. maí. En heimildir, sem síðar birtust, taka af öll tvímæli um þetta. Samkvæmt fundargerð á ríkisstjórnarfundi 4. júní kvaðst Ólafur hafa sagt Nixon, að aðgerðaleysi Bandaríkjanna í þorskastríðinu kynni að orsaka endurskoðun á afstöðu Íslendinga til Atlantshafsbandalagsins. Til er og fundargerð í skjölum bandaríska utanríkisráðuneytisins, þar sem hið sama kemur fram.

Forseti Íslands hélt hinum tignu gestum kvöldverð á Bessastöðum fimmtudaginn 31. maí. Þar mismælti Nixon sig og bað gesti að skála fyrir Írlandi, ekki Íslandi, eins og Wilhelm Wessman veitingastjóri hefur sagt frá. Eftir matinn stóðu menn upp og fengu sér kaffi. Þá vatt Lúðvík Jósepsson sér að forsetanum og vildi enn tala um landhelgismálið. Nixon varð önugur og órólegur og lét allt í einu kaffibolla sinn falla á gólfið, þar sem hann brotnaði í þúsund mola. Þannig losnaði hann við Lúðvík.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2015. Myndin er frá NARA.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband