Fjórði sjálfboðaliðinn

finsenofl.jpgSpænska borgarastríðið 1936–1939, þar sem við áttust lýðveldissinnar og þjóðernissinnar, kom róti á hugi margra Norðurálfumanna. Eftir að Stalín ákvað að styðja lýðveldissinna, sendi Kommúnistaflokkur Íslands þrjá sjálfboðaliða í stríðið. Þeir höfðu allir fengið nokkra þjálfun í svokölluðu Varnarliði verkalýðsins, sem þrammaði um götur Reykjavíkur í einkennisbúningum 1932–1938, og einn þeirra, Hallgrímur Hallgrímsson, hafði auk þess hlotið hernaðarþjálfun í Moskvu í tæp tvö ár. Hallgrímur barðist hraustlega á vígstöðvunum frá desember 1937 til október 1938, þegar lýðveldisstjórnin sendi alla erlenda sjálfboðaliða heim. Hinir Íslendingarnir tveir, Björn Guðmundsson og Aðalsteinn Þorsteinsson, komu of seint til að geta barist.

En fjórði sjálfboðaliðinn tók þátt í borgarastríðinu, þótt hann sé sjaldnar nefndur, enda aðeins hálf-íslenskur, Gunnar Finsen. Faðir hans, Vilhjálmur Finsen, var stofnandi Morgunblaðsins og fyrsti ritstjóri, starfaði eftir það sem blaðamaður í Noregi og gekk síðan til liðs við íslensku utanríkisþjónustuna. Móðir Gunnars var norsk, og ólst hann að mestu upp í Noregi, en var íslenskur ríkisborgari. Gunnar lauk læknisprófi frá Háskólanum í Osló 1935 og starfaði eftir það fyrir norska herinn. Hann fór sem sjálfboðaliði til Spánar í mars 1937 og sinnti þar lækningum á hersjúkrahúsi, sem norsk og sænsk verkalýðsfélög ráku fyrir lýðveldissinna í þorpinu Alcoy suðvestur af borginni Valencia.

Gunnar lenti í ýmsum ævintýrum á leiðinni suður og líka á Spáni, og er heill kafli um hann í norskri bók, Tusen dager. Norge og den spanske borgerkrigen 1936–1939, sem kom út 2009. Gunnar hafði fengið berkla ungur og dvalist á Spáni sér til heilsubótar, svo að hann talaði spænsku og var kunnugur í landinu. Hann starfaði á sjúkrahúsinu í Alcoy fram í september 1937. Hann notaði tækifærið eftir það og fór í margra mánaða ferð umhverfis jörðina, áður en hann tók aftur við læknisstarfi í Noregi.

Gunnar var ekki kommúnisti, heldur rak hann áfram ævintýraþrá og samúð með alþýðu Spánar. Hann gerðist sjálfboðaliði í her Finna í Vetrarstríðinu svonefnda 1939–1940, þegar Stalín réðst á Finnland, eftir að þeir Hitler höfðu skipt mið- og austurhluta Evrópu upp á milli sín með griðasáttmálanum í ágúst 1939. Eftir hernám Noregs var hann í norska útlagahernum, sem barðist gegn nasistum, en hann starfaði síðan lengi sem röntgenlæknir í Osló. Hann lést 1986 og lét eftir sig fjölda ljósmynda og annarra gagna úr spænska borgarastríðinu. Sonur hans, Vilhjálmur Finsen, er læknir í Þrándheimi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2015. Á myndinni er Gunnar annar frá hægri.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband