Myndir af mér í Séð og heyrt

hhgfjo_776_gurra_a_769_ra.jpgNokkrar myndir eru af mér í nýjasta hefti Séð og heyrt frá því, áður en ég lauk stúdentsprófi. Hér er ein, sem birtist á Facebook-síðu tímaritsins af mér fjögurra ára, þegar ég bjó á Óðinsgötu 25. Faðir minn hafði unnið á Keflavíkurflugvelli, en hann var rekinn þaðan, af því að hann var kommúnisti! Þetta þætti mörgum ef til vill einkennilegt núna, en þessir tímar voru öðru vísi. Eftir það útvegaði tengdafaðir hans, afi minn og nafni (Hannes Pálsson frá Undirfelli), honum starf við eftirlit með sérleyfishöfum. Þar vann hann með Vilhjálmi Heiðdal, sem var eindreginn sjálfstæðismaður og, ef ég hef tekið rétt eftir, faðir hins harðskeytta og ofstækisfulla kommúnista Hjálmtýs Heiðdals. Afi minn, Kristinn Guðbjartsson, átti allt húsið. Hann var vélstjóri og hafði efnast vel, meðal annars fyrir tilstilli Jóns Þorlákssonar borgarstjóra, sem vildi efla smábátaútgerð í Reykjavík. Ég man, að á Keflavíkurflugvelli keypti faðir minn rauðan bíl handa mér, sem ég ók um og knúði áfram á fótstigi, pedölum, á meðan ég talaði við sjálfan mig, trallaði og söng hástöfum. Ég bjó við afar gott atlæti í bernsku. Móðir mín var kennari að mennt, hafði nægan tíma til að sinna mér og gerði það svo sannarlega af miklu ástríki. Ég varð snemma fróðleiksfús, spurull og gagnrýninn og vildi komast að eigin niðurstöðu um mál. En stundum var ég gabbaður. Þegar mér fannst maturinn vondur hjá móður minni, fór ég yfir til Maju, fósturmóður minnar, sem bjó í hinni íbúðinni á ganginum á annarri hæð á Óðinsgötu (Maríu Haraldsdóttur). Stundum laumaðist móðir mín þá með matinn hjá sér yfir og Maja setti hann á diskinn minn, án þess að ég vissi, og ég hámaði hann í mig af bestu lyst. Þessar tvær elskulegu konur vissu, að maturinn hjá Maju væri í mínum huga alltaf betri en maturinn heima. Þessar tvær konur voru einstakar. Það er ekki þeim að kenna, hversu illa hefur ræst úr mér miðað við alla Icesave-spekingana, samkennara mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband