Vetrarstríðið og flokkaskiptingin

Í Finnlandi skoðaði ég fyrir skömmu vígstöðvarnar við Ilomantsi, þar sem barist var í Vetrarstríðinu 1939–1940 og líka í Framhaldsstríðinu 1941–1944, en bæði stríðin háðu Finnar við Stalín og herlið hans. Ilomantsi er austasti bær Evrópusambandinu á meginlandinu, örstutt frá rússnesku landamærunum. Svo einkennilega vill til, að Vetrarstríðið er einn fárra erlendra viðburða, sem raskað hafa flokkaskiptingu á Íslandi. Tildrög voru þau, að Stalín og Hitler höfðu með griðasáttmála í Moskvu 23. ágúst 1939 skipt Mið- og Austur-Evrópu upp á milli sín, og voru alræðisherrarnir tveir bandamenn fram að óvæntri árás þýska hersins á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941. Finnland kom samkvæmt griðasáttmálanum í hlut Stalíns. Vetrarstríðið skall á, þegar Rauði herinn hóf loftárásir á Helsinki 30. nóvember 1939 og 450 þúsund manna herlið þrammaði yfir finnsku landamærin. Á Íslandi háttaði þá svo til, að íslenskir kommúnistar höfðu nýlega fengið vinsælan jafnaðarmann, Héðin Valdimarsson, og nokkra samherja hans til samstarfs. Sameinuðust kommúnistar og þessir jafnaðarmenn haustið 1938 í nýjum flokki, Sósíalistaflokknum, en um leið var kommúnistaflokkurinn lagður niður. Héðinn var formaður hins nýja flokks, sem skyldi ólíkt kommúnistaflokknum virða lýðræði innan marka laganna.

Strax og fregnir bárust til Íslands af árásinni á Finnland, boðaði Héðinn Valdimarsson fund miðstjórnar Sósíalistaflokksins, þar sem hann gerði tillögu um að lýsa yfir samúð með finnsku þjóðinni. Hún var samþykkt með sex atkvæðum gegn fimm atkvæðum kommúnista, sem vildu ekki una þeirri niðurstöðu og skutu tillögunni til flokksstjórnar. Þar var hún felld með 18 atkvæðum gegn 14. Á meðal þeirra, sem felldu tillöguna, voru forystumenn kommúnista, stalínistarnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, en líka Halldór Kiljan Laxness, sem þá átti sæti í flokksstjórninni. Við svo búið sögðu Héðinn Valdimarsson og stuðningsmenn hans sig úr Sósíalistaflokknum. Eftir stóðu fáir aðrir en kommúnistar. Þótt Finnar fengju ekki samúðarkveðju frá Sósíalistaflokknum í desemberbyrjun 1939, vörðust þeir ofureflinu vel og drengilega, en neyddust í mars 1940 til að semja frið við Stalín og afhenda honum mikið land, um það bil tíunda hluta Finnlands. Nokkrum árum síðar lést Héðinn Valdimarsson langt um aldur fram, kalinn á hjarta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. október 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband