Ótrúlegur munnsöfnuður Stefáns Ólafssonar

Háskólamenn tala stundum um, að bæta þurfi umræðuvenjur Íslendinga. Sumir þeirra ættu að byrja á sjálfum sér. Til dæmis skrifar Stefán Ólafsson prófessor á bloggsíðu sinni sunnudaginn 26. október kl. 10.04:

Það er því miður þannig, að menn í HÍ veigra sér við að taka á Hannesi Hólmsteini þó óheiðarleg vinnubrögð hans og gróf brot á siðareglum háskólasamfélagsins blasi við - aftur og aftur. Ástæðan er einkum sú, að menn vita að hann eys yfir gagnrýnendur sína ófrægingum í gríð og erg og hættir aldrei þaðan í frá. Hirðir hvorki um staðreyndir né siðareglur. Öðrum finnst hann of ómerkilegur til að láta sig skrif hans nokkru skipta. Þeir líta á hann sem áróðursmann en ekki fræðimann. Ég tel að hann hafi þrátt fyrir það haft of mikil áhrif til ills í samfélaginu og læt mig því hafa það að reyna að leiðrétta og gagnrýna verstu afbakanirnar - og þigg óhróðurinn að launum.

Þetta eru stór orð. Hver er þessi „óhróður“ minn? Rifjum það aðeins upp:

  • Stefán hélt því fram veturinn 2006–7, í aðdraganda kosninga, að tekjudreifing á Íslandi hefði árin 1995–2004 orðið miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Ég benti á, að svo væri ekki, þegar tölur væru reiknaðar á sambærilegan hátt. Stefán hafði reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum fyrir Ísland, en ekki var reiknað með þeim í tölum fyrir Norðurlandaþjóðirnar. Þegar sambærilegar tölur voru bornar saman, reyndist tekjudreifing á Íslandi 2004 í svipuðu horfi og á öðrum Norðurlöndum, hvort sem það var lofsvert eða ekki. (Ég held, að Stefán hafi í ógáti tekið rangar tölur af vef hagstofu Evrópusambandsins, þar sem þær voru í stuttan tíma, en hann hefur aldrei hirt um að leiðrétta þetta greinilega, heldur skipt um tölur og umræðuefni.)
  • Stefán hélt því fram á útmánuðum 2003, í aðdraganda kosninga, að fátækt væri meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Ég benti á, að Stefán Snævarr hagfræðingur og aðrir hefðu reiknað út, að hún væri svipuð og á öðrum Norðurlöndum og jafnvel í minna lagi miðað við þau. Þetta var síðan staðfest af hagstofu Evrópusambandsins í viðamikilli skýrslu 2007: Árið 2003 var fátækt á Ísland næstminnst í Evrópu, minni í Svíþjóð einni. (Og fátækt á meðal lífeyrisþega var minnst á Íslandi.)
  • Stefán hélt því fram 2007, að hátekjufólki hefði verið hyglað í stjórnartíð sjálfstæðismanna, „því að skattálagning á fjármagnstekjur var færð í 10% á meðan greiða þurfti af launatekjum yfir skattleysismörkum hátt í 40%.“ Ég benti á, að fjármagnstekjuskattur væri í raun að minnsta kosti 26,2% (því að menn þurftu að greiða 18% tekjuskatt fyrirtækja, áður en þeir gátu greitt sjálfum sér út arð: 100–18=82, og 10% af því eru 8,2, en 18+8,2=26,2). Jafnframt benti ég á, að seinni tala Stefáns er líka röng, því að menn greiddu 0% af fyrstu 100 þúsundunum (um það bil), en síðan stighækkaði þetta upp í 36%, sem var í raun aðfella; menn nálguðust þetta stig, en komust aldrei alveg upp á það.
  • Stefán hélt því fram 2006, í aðdraganda kosninga, að þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, og forverar hans hefðu beitt brellu til að láta skattahækkun sýnast skattalækkun. Þeir hefðu ekki fært skattleysismörk upp með launavísitölu og þannig hækkað tekjuskatt á einstaklingum í raun. Ég benti á, að órökrétt væri að færa skattleysismörk upp með launavísitölu. Eðlilegra væri að færa þau upp með framfærsluvísitölu. En þá yrði líka að taka með í reikninginn, að lífeyrisgreiðslur urðu skattfrjálsar á tímabilinu. Útreikningar Sveins Agnarssonar hagfræðings sýndu, að þá höfðu skattleysismörk ekki lækkað, sem neinu nam, að raungildi.
  • Stefán hélt því fram vorið 2007, í aðdraganda kosninga, að þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, hefði beitt blekkingum, þegar hann segði lífeyristekjur á Íslandi hæstar á Norðurlöndum samkvæmt mælingum fyrir árið 2004. Ég benti á, að tölur þær, sem Stefán notaði gegn Árna, voru tölur um heildarlífeyrisgreiðslur, sem deilt var í með tölum um fjölda fólks á lífeyrisaldri. En þær tölur segja lítið sem ekkert á Íslandi, því að margir hér á landi taka sér ekki lífeyri, þótt þeir séu á lífeyrisaldri (til dæmis tóku 26 þús. af 31 þús. á lífeyrisaldri sér lífeyri á Íslandi árið 2004, en 5 þús. tóku sér ekki lífeyri). Þegar aðeins væri reiknað með þeim, sem tækju sér lífeyri, væri niðurstaða fjármálaráðherra rétt.
  • Stefán neitaði því, að hann hefði sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar 1996 brugðist trúnaði, þegar hann laumaði upplýsingum um skoðanakönnun, sem Hreinn Loftsson lét gera, til ritstjóra Morgunblaðsins, sem voru þá í miklu nánari sambandi við Stefán en mig. Ljóstraði Matthías Johannessen upp um þetta í dagbókum sínum á Netinu. Ég birti síðan bréf frá Hreini, sem staðfesti þetta.

Eys hagstofa Evrópusambandsins óhróðri yfir Stefán? Eða þeir Sigurður Snævarr og Sveinn Agnarsson? Eða þeir Árni Mathiesen og Hreinn Loftsson? Nei, Stefán eys óhróðri yfir sjálfan sig og engan annan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband