Saga sem Saga vill ekki segja

Ég fékkst við það árin 2006–2009 ásamt öðru að þýða Svartbók kommúnismans á íslensku og ritstýra íslensku útgáfunni. Bókin kom út 31. ágúst 2009. Um leið og ég fékk eintak úr prentsmiðjunni, sendi ég Sigrúnu Pálsdóttur, ritstjóra Sögu, tölvuskeyti og spurði, hvort ég ætti að senda henni Svartbókina til umsagnar. Ég fékk svar um hæl 3. september 2009 í tölvuskeyti: „Varðandi nýju bókina þína, sem ég óska þér til hamingju með, þá er það þannig að Saga birtir ekki ritdóma um þýðingar.“ Mér þótti þetta svar einkennilegt af tveimur ástæðum. Eitt helsta ágreiningsefnið í íslenskum stjórnmálum mestalla tuttugustu öld, að minnsta kosti frá 1930, var afstaðan til Ráðstjórnarríkjanna og annarra kommúnistaríkja. Vandað alþjóðlegt fræðirit eins og Svartbókin, sem studdist við nýjar heimildir um heimshreyfingu kommúnista, ætti að hafa verulegt gildi í umræðum um sögu Íslands. Í öðru lagi hafði  Saga árið 2007 — tveimur árum áður en ég fékk þetta svar — birt 13 blaðsíðna og mjög neikvæða, jafnvel fjandsamlega, umsögn um bók, sem var þá verið að þýða og hafði ekki einu sinni verið gefin út, Maó: Sagan sem aldrei var sögð, eftir Jung Chang og Jon Halliday. Umsögnin var eftir dr. Geir Sigurðsson, sem hafði lagt stund á kínverska heimspeki (ekki sagnfræði). Nám hans í Kína 2001–2003 var fyrir styrk frá kínverskum stjórnvöldum. Árið 2007 var Geir forstöðumaður Asíuseturs, sem Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri ráku saman, en ári síðar varð hann forstöðumaður Konfúsíusarsetursins Norðurljósa, sem starfar við Háskóla Íslands og er kostað af kínverskum stjórnvöldum. Gegndi hann því starfi í nokkur ár. Í öðru tölvuskeyti til mín tók Sigrún Pálsdóttir undir þá hugmynd, að ef til vill ættu tveir sagnfræðingar með ólík sjónarhorn að ræða um Svartbókina í Sögu, en ég heyrði aldrei neitt frekar frá henni um það.

Með öðrum orðum: Saga flýtti sér 2007 að birta langa og mjög neikvæða umsögn um ævisögu Maós, sem þá var verið að þýða, en var óútkomin. Höfundur umsagnarinnar var menntaður í heimspeki, ekki sagnfræði, og með náin tengsl við stjórnvöld í Kína, en þar var og er bókin bönnuð. Tveimur árum síðar tilkynnti ritstjóri Sögu (sem var að vísu þá orðinn annar) þýðanda og ritstjóra Svartbókar kommúnismans, að Saga birti ekki umsagnir — og því síður ítardóma — um þýdd rit eins og Svartbókina, sem er raunar líka bönnuð í Kína. Ég ákvað að skoða nánar þessa umsögn Geirs Sigurðssonar, sem þótti svo tímabær, að ekki var einu sinni beðið eftir útkomu umsagnarefnisins. Ég komst þá að því, að athugasemdir hans voru flestar eða allar sóttar í umsagnir um ævisögu Maós eftir Alfred Chan, Gregor Benton, Steve Tsang og Andrew Nathan. Síðar var þeim öllum safnað saman í bók, sem Gregor Benton og Lin Chun ritstýrðu og kom út hjá Routledge í Lundúnum 2010, Was Mao Really a Monster? The academic response to Chang and Halliday’s Mao: The Unknown Story. Stundum vitnaði Geir samviskusamlega í þessa heimildarmenn sína, en annars staðar ekki. Til dæmis vitnaði hann hvergi í neinn um þessi orð (bls. 189): „Mao talaði vissulega kínversku með staðbundnum hreim en ef hann hefði einungis talað Shaoshan-mállýskuna hefðu ekki margir skilið hann í Beijing.“ En Gregor Benton og Steve Tsang segja (Was Mao Really a Monster? bls. 45): „Mao did speak Putonghua — though with a very strong accent. Had he spoken only his local dialect, no one outside Shaoshan would have understood him.“ Dómur Geirs Sigurðssonar um bók þeirra Changs og Hallidays er í fæstum orðum (bls. 194), að „fyrir þá sem fýsir að öðlast skýrari og fyllri mynd af uppgangi, stjórnartíð og áhrifum kommúnismans í Kína — og þætti Mao Zedongs í því margbrotna ferli — hefur Sagan óþekkta fátt til brunns að bera.“

Þetta var ótrúlega ósanngjarn dómur um þrekvirki þeirra Changs og Hallidays. Ég gaf mér loks tíma til þess árið 2012 að skrifa um þetta. Fyrst flutti ég fyrirlestur í Háskóla Íslands 2. nóvember 2012 og auglýsti áður, að ég myndi svara athugasemdum Geirs Sigurðssonar við bókina. Hann lét ekki sjá sig á fyrirlestrinum. Síðan sendi ég Sögu 11 blaðsíðna ritgerð, tveimur blaðsíðum styttri en sú, sem Geir Sigurðsson hafði fengið inni með um óútgefna bók, og svaraði athugasemdum hans lið fyrir lið. Verður til dæmis talið, að kínverski kommúnistaflokkurinn hafi verið stofnaður 1920 eða 1921? Gögn eru til, sem styðja bæði ártölin. Urðu smáskærur á Luding-brú 1935 eða var þar háð orrusta? Báðar lýsingar styðjast við heimildir. Nýlega hefur raunar Zbigniew Brzezinski haft eftir kínverskum ráðamönnum ummæli, sem styrkja lýsingu Changs og Hallidays. Talaði Maó venjulega kínversku með sterkum hreim eða afbrigði af mállýskunni í heimahéraði sínu? Hvoru tveggja má halda fram. Og svo framvegis. Hitt verður ekki hrakið, að Maó var miskunnarlaus fjöldamorðingi, sem bar ábyrgð á dauða að minnsta kosti sjötíu milljóna manna. Sífellt fleiri heimildir eru að koma í ljós um þetta, til dæmis í bókum Franks Dikötters. Chang og Halliday eru vissulega óvinveitt Maó, eins og flestir ævisagnaritarar Hitlers og Stalíns eru óvinveittir þeim kauðum. Þau Chang og Halliday taka sér stöðu með fórnarlömbunum, ekki böðlunum. En þau eru ekki verri sagnfræðingar fyrir það.

Hins vegar veitti Sigrún Pálsdóttir mér ekki endanlegt svar um þessa ritgerð fyrr en 3. október 2013 — um sama leyti og leikrit, sem eiginmaður hennar hafði samið um mig og mér til háðungar, kolféll í Þjóðleikhúsinu. Sigrún sagði þá í tölvuskeyti til mín, að flestar athugasemdir mínar snerust um aukaatriði og sum um túlkunaratriði. Þar er ég hjartanlega sammála henni. Það er einmitt lóðið í ritgerð minni: Geir Sigurðsson reyndi að vísa stórvirki Changs og Hallidays á bug með þóttafullum athugasemdum um nokkur umdeilanleg og smávægileg atriði, um leið og hann horfði fram hjá þeim fjársjóði nýrra upplýsinga, sem þau höfðu safnað saman í fjögur hundruð viðtölum og hundruðum gagna, sem áður höfðu ekki verið tiltæk. „Grein Geirs fjallar einkum um vinnubrögð C[hangs] og H[allidays] og ég get ekki séð að hann horfi með því móti fram hjá þeirri staðreynd að Maó hafi verið illmenni og níðingur. Allar vangaveltur um að Maó hafi verið jafnvondur og Stalín og Hitler, svo og siðferðilegar umvandanir þínar til sagnfræðinga um mikilvægi þess að þeir taki sér stöðu með lýðnum og fórnarlömbunum gegn böðlinum, eiga auk þess ekkert erindi í ritrýnt fræðitímarit,“ segir Sigrún í tölvuskeyti sínu. „Ég skal þó viðurkenna að mér finnast lokaorð hans kannski full sterk en aðalatriðið er samt þetta: Í mínum huga þyrfti grein þín að vera einhver meiriháttar afhjúpun svo réttlæta mætti birtingu hennar sem svar við ítardómi sem birtist fyrir 6 árum síðan.“ Hér fyrir aftan er ritgerð mín óbreytt, eins og ég sendi hana Sögu fyrir tveimur árum. Lesendur geta sjálfir dæmt.

[Formáli greinarinnar í nýútkomnum Þjóðmálum. Greininni og formálanum má hlaða niður hér.]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband