Nýmæli um loftslagsbreytingar

Tvær merkilegar greinar hafa birst nýlega í Wall Street Journal um loftslagsbreytingar. Aðra skrifaði Steven E. Koonin 19. september. Hann var aðstoðarvísindamálaráðherra í stjórn Baracks Obamas og áður eðlisfræðiprófessor í Caltech, Tækniháskólanum í Kaliforníu. Hann bendir á, að auðvitað er loftslagið að breytast. Það er alltaf að breytast. Það er hins vegar miklum vafa undirorpið, hverjir helstu áhrifaþættirnir eru og hvernig bregðast skuli við þeim, enda þarf mikla nærsýni til að halda því fram, að loftslagið hér og nú sé hið eina æskilega, og mikla trú á mætti mannanna til að fullyrða, að við getum valið okkur loftslag í stað þess að bregðast við. Hina greinina skrifaði dr. Matt Ridley, 7. september. Ridley, sem situr í lávarðadeild Bretaþings, var á sínum tíma vísindaritstjóri Economist og er höfundur margra alþýðlegra fræðirita um vísindi, aðallega erfðafræði. Hann lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla. Ridley spyr, hvað orðið sé um hlýnun jarðar. Hún hefur ekki hlýnað frá 1998! Hann svarar síðan fullum hálsi þeim, sem gagnrýndu hann fyrir þessa grein. Ég er sammála báðum þessum höfundum, Koonin og Ridley, um, að menn hljóta nú á dögum að hafa einhver áhrif á umhverfið, jafnvel veruleg, þar á meðal á hitastigið. Kenningin um gróðurhúsaáhrifin er skiljanleg og sennileg og jafnvel sönnuð (hvað sem af því verður síðan ályktað). En náttúrlegir þættir ráða líka miklu, eins og þeir hafa alltaf gert. Ridley skýrir málið betur út í bókinni Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), sem brátt er væntanleg á íslensku.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband