Nokkrar vísur um mig

Ég var að taka til á skrifstofunni minni og fleygja ýmsu, en fann þá eins og gengur margt skemmtilegt. Eitt var boðsmiði á aðalfund Kaupþings 16. mars 2007. Þar var breski sagnfræðingurinn Niall Ferguson ræðumaður um efnið: „Is Globalization sustainable? Political risk, financial liquidity and the paradox of low volatility.“ Mér er fyrirlestur Fergusons í fersku minni, því að hann var eini maðurinn, sem ég heyrði spá fyrir um fjármálakreppuna, áður en hún skall á. Um hana má annars segja eins og íslenska bankahrunið, að það var ekki fyrr en eftir hana sem menn sáu hana fyrir. Ferguson sagði efnislega: „Mér þykir leitt að segja ykkur það, en það eru mörg sömu teikn á lofti nú og fyrir heimskreppuna miklu.“

Síðan fann ég tvo miða með tveimur vísum um mig. Annarri var kastað fram, þegar ég flutti erindi í leshóp FEBK (Félags eldri borgara í Kópavogi) í Gullsmára 2. mars 2004, og er hún limra:

Hannes á vitið og viljann,

þótt vont þyki ýmsum að skilj’ann.

Hann tók saman bók,

sem taugarnar skók

og tefldi fram Halldóri Kiljan.

Ekki veit ég, hver höfundurinn er. Og ekki veit ég heldur, hver orti og við hvaða tækifæri aðra vísu:

Hannes Hólmstein hérna finnum,

hans vér ætíð fögnum kynnum.

Um hann hefur áður gustað.

Á hann vil ég geta hlustað.

Hugsanlega var þetta við sama tækifæri. En mörgum árum áður var ort eftir fund á Selfossi, þar sem ég var framsögumaður:

Frjálshyggjunnar fremsta syni

færa menn hér blendið hrós.

Að hann er af kjaftakyni,

kom hér mæta vel í ljós.

Er með þessu skírskotað til alkunnrar vísu um Guðlaugsstaðakynið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband