Íslendingar geta litið stoltir um öxl

Eftir bankahrunið komst í tísku, sérstaklega í hópi menntamanna, að gera lítið úr Íslendingum, sjálfstæðisbaráttu þeirra og þjóðernisvitund. Það er jafnfráleitt og þegar menn voru fyrir bankahrunið að tala um Íslendinga sem snjöllustu þjóð í heimi. En Íslendingar þurfa þrátt fyrir allt ekki að skammast sín. Hér er tiltölulega friðsamlegt: Morð á hver tvö hundruð þúsund íbúa eru um tvö í Evrópu að meðaltali, eitthvað innan við tíu í Bandaríkjunum (en raunar aðeins tvö, ef aðeins er miðað við fólk af evrópskum uppruna), en hér á landi 0,3. Þjóðin er í góðum álnum og hefur mikla möguleika, ef við nýtum rétt öll þau tækifæri, sem okkur bjóðast, höldum uppi hinu skynsamlega skipulagi fiskveiða, löðum ferðamenn að landinu, seljum útlendingum orku og gætum hófs í opinberum útgjöldum og álögum. Það er fróðlegt að lesa í Hagskinnu, sem er bók með tölum frá liðnum tíma, að frá 1870 til 1940 voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar á við Dani í tekjum (vergri landsframleiðslu á mann). Eftir það höfum við staðið þeim jafnfætis um margt, þar á meðal velmegun. En á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, Háskólans og lýðveldisins er hollt að hafa í huga, að besta vegarnestið inn í framtíðina er það atvinnufrelsi, sem Jón Sigurðsson mælti fyrir.

(Skrifað 17. júní 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband