Fróðleiksmoli um kynbundna kúgun

Föstudagsmorguninn 6. júní 2014 flutti ég fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Kúgun karla“. Tilvísunin er í rit enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills um Kúgun kvenna, sem hefur komið tvisvar út í íslenskri þýðingu. Ég er að sjálfsögðu sammála Mill um það, að kynin tvö eigi að njóta fullra réttinda til sjálfsþroska og þátttöku í opinberu lífi. Konur voru því miður löngum kúgaðar. En eru þær það lengur á Vesturlöndum? Hefur þetta ef til vill snúist við? Í því sambandi kynnti ég niðurstöður ýmissa nýrra rannsókna.

Á meðan ég var að semja fyrirlesturinn, rifjaðist upp fyrir mér, þegar Helga Kress flutti það, sem hún kallaði „jómfrúrfyrirlestur“ sinn sem prófessor í Háskóla Íslands 10. október 1991. Fyrirlesturinn nefndist „Skassið tamið“ og var um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af ruddaskap og yfirgangi karla við konur. Benti Helga á ýmis dæmi um þetta, sem farið hefðu fram hjá körlum í röðum bókmenntaskýrenda vegna kynlægrar einsýni þeirra. Eftir fyrirlesturinn svaraði hún spurningum. Ég bar fram eina. Hún var, hvað Helga segði um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af misjafnri framkomu kvenna við karla, til dæmis Gunnhildar konungamóður við Hrút Herjólfsson og griðkonunnar, sem gerði lítið úr Gretti, svo að ekki sé minnst á allar þær konur, sem eggjuðu feður, bræður eða syni sína til hefnda.

Helga var snögg til svars: Þá var það textinn, sem kúgaði. Þennan texta hefðu karlar sett saman konum til hnjóðs, oft kvenhatarar í klaustrum. Þetta svar Helgu var afar fróðlegt. Hún tók mark á textanum, þegar sagði frá kúgun karla á konum, en þegar í textanum sagði frá kúgun kvenna á körlum, var hann orðinn enn eitt dæmið um kúgun karla á konum. Kenning Helgu var með öðrum orðum óhrekjanleg. Hún geymdi í sér skýringar á öllum frávikum frá sér. Hún var alltaf rétt. Slíkar kenningar kenndi ensk-austurríski vísindaheimspekingurinn Karl Popper við gervivísindi, en tvö dæmi um þau taldi Popper vera marxisma og freudisma. Ef fræðimaður hallaðist að borgaralegum skoðunum, þá var hann að sögn marxista leiguliði borgarastéttarinnar. Ef hann hallaðist að skoðunum marxista, þá var hann sannur fræðimaður. Kenningin var alltaf rétt.

Því miður get ég hins vegar ekki lofað því, að í fyrirlestri mínum hafi ég sett fram kenningu, sem verði alltaf rétt.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 24. maí 2014, lítillega breyttur.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband