Skoðanakúgun í háskólum

Skoðanakúgun í háskólum fer venjulega ekki fram á þann hátt, að menn séu hrelltir eða sæti einelti. Það er til dæmis sjaldgæft, að menn hegði sér eins og Þórólfur Matthíasson eftir bankahrunið í október 2008, þegar hann spurði mig vikum saman í hvert skipti og hann rakst á mig á göngum eða kaffistofu Odda, hvort ég hefði sent afsagnarbréfið, en ég sat þá í bankaráði Seðlabankans. Eða eins og Stefán Ólafsson, sem sendi tölvuskeyti til stjórnarmanna í Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sumarið 2012 til að mótmæla því, að stofnunin væri aðili að fyrirlestri, sem vísindarithöfundurinn dr. Matt Ridley hélt um batnandi tíð í heiminum, því að hann væri „hægriöfgamaður“. Ridley er dýrafræðingur frá Oxford-háskóla, var á sínum tíma vísindaritstjóri Economist og er höfundur margra metsölubóka um vísindi, sérstaklega þróunarlögmál Darwins. Hann situr í lávarðadeild Bretaþings.

Skoðanakúgun í háskólum fer venjulega fram á þann hátt, að menn með skoðanir, sem þar eru óvinsælar, fá ekki fastráðningu, framgang eða styrki. Þeir rekast alls staðar á þykkan, ósýnilegan múr. Stundum er ekki einu sinni reynt að þagga niður í þeim, heldur heyrist rödd þeirra aðeins eins og hjáróma hvísl í samanburði við voldugan kór rétttrúnaðarins. Evrópusambandið heldur til dæmis á Íslandi uppi öflugri áróðursvél, sem kostar marga milljónatugi á ári. Það býður upp á ræðumenn, styrki og ferðir. Hvernig á að heyrast í okkur hinum, sem minni þykjum fyrir okkur og erum ef til vill hlynntir Evrópusambandinu fyrir Þjóðverja, Frakka og Eistlendinga, enda sé fjórfrelsinu víðfræga haldið þar uppi, en teljum, að margt megi betur fara innan Evrópusambandsins og Íslendingar eigi þangað ekkert erindi í bráðina? Er þó mestur hluti þjóðarinnar sammála okkur.

Annað dæmi er þróunaraðstoð. Reynslan hefur sýnt, að valið er í raun um þróun án aðstoðar (Ísland í upphafi 20. aldar; Hong Kong, Singapúr) eða aðstoð án þróunar (Ísland á 18. öld, Tansanía, Grænhöfðaeyjar). Valið er um tækifæri eða ölmusu. Á Vesturlöndum er þróunaraðstoð orðin iðngrein eða jafnvel eins konar eilífðarvél, sem snýst um sjálfa sig: Menn þiggja margir rífleg laun fyrir hana, en lítill sem enginn árangur er mælanlegur af henni til langs tíma. Fátækar þjóðir í suðri þurfa ekki þróunaraðstoð, heldur fjárfestingu og tæknikunnáttu stórra og smárra vestrænna einkafyrirtækja og umfram allt aðgang að hinum mikla markaði ríkra þjóða á Vesturlöndum. Þær þurfa fleiri tækifæri til að framleiða sig sjálfar út úr fátækt til bjargálna. En hér á Íslandi starfar Þróunarsamvinnustofnun, sem hefur veruleg fjárráð og notar talsvert af fé sínu í að auglýsa starfsemina beint og óbeint. Þegar efasemdarraddir heyrast, er oftast hlustað kurteislega, en síðan malar vélin áfram, eins og ekkert hafi í skorist.

Samt koma hinir raunverulegu öfgamenn í heimi fræðanna stundum upp um sig. Lennart Bengtsson er einn virtasti veðurfræðingur heims. Hann er af sænskum ættum, en er prófessor í Reading-háskóla í Bretlandi. Hann settist nýlega í ráðgjafarnefnd breskrar stofnunar, sem Lawson lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta (og faðir Nigellu), setti á laggir til að rannsaka opnum huga kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum og afleiðingar hennar. Eflaust eru sumir í þeirri stofnun með sömu skoðun og ég á þessu máli: að ástæðulaust sé að efast um hlýnun jarðar, að líka sé ástæðulaust að efast um, að eitthvað af henni sé af mannavöldum, en að hins vegar sveiflist loftslag líka til af náttúrlegum ástæðum, jafnframt því sem allt of mikið sé gert úr neikvæðum afleiðingum hlýnunar og raunar líka úr getu mannsins til að hafa áhrif á breytingarnar frekar en bregðast skynsamlega við þeim, þegar þær gerast. (Hvernig getum við haft úrslitaáhrif á loftslag, þegar við getum ekki einu sinni spáð fyrir um veðrið í næstu viku? Og hvers vegna hefur hlýnunin ekki orðið jafnhröð síðustu fimmtán ár og líkön, sem sett voru fram fyrir eða í upphafi þess skeiðs, sögðu fyrir um?)

Bengtsson er enginn efasemdamaður um hlýnun af mannavöldum. En hann er frjálslyndur og víðsýnn vísindamaður, sem vill rannsaka kenningar opnum huga. Eftir að hann settist í ráðgjafarnefndina, skall á honum bylgja andúðar og óvildar í heimi fræðanna. Hann var hrelltur, og honum var útskúfað. Til dæmis tilkynnti einn samstarfsmaður hans, að nú vildi hann ekki lengur skrifa með honum ritgerðir. Bengtsson er maður hniginn að aldri, og eftir tvær vikur sá hann sér þann kost vænstan að segja sig úr nefndinni. Hann kvaðst ekki þola álagið af því að sitja í henni. Hann var beygður.

Annað dæmi um það, þegar öfgamenn í háskólum fella grímuna, er, þegar sæma átti rithöfundinn Ayaan Hirsi Ali frá Sómalíu, sem flúið hafði kúgun kvenna í heimalandi sínu, en sætt morðhótunum í Hollandi, eftir að hún leyfði sér þar að gagnrýna íslam, heiðursdoktorstitli við Brandeis-háskóla. Fallið var frá því eftir mótmæli, sem kvenna- og kynjafræðingar háskólans áttu aðallega þátt í (21% undirskrifta kennara við skólann komu frá þeim). Ayaan Hirsi Ali var talin andvíg íslam (sem hún var og er tvímælalaust). En yrði einhverjum meinað við venjulegan vestrænan háskóla að taka við heiðursdoktorstitli vegna fjandskapar við kristna trú, og stendur hún þó nær Vesturlandabúum en íslam?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband