Árið 2013 gert upp

Hér eru svör mín við spurningum Eyjunnar um árið 2013:

Sigurvegari ársins 2013?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er hægt og örugglega að þokast upp á við. Hann getur sér traust og virðist vera í góðu jafnvægi. Sá erlendi þjóðarleiðtogi, sem helst vekur traust, er Angela Merkel í Þýskalandi.

Ekki sigurvegari ársins?


Jóhanna Sigurðardóttir beið mesta ósigur í kosningunum 2013, sem nokkur stjórnmálaleiðtogi á Íslandi hefur beðið. Eftir fjögurra ára stjórnarforsæti hennar féll fylgi Samfylkingarinnar úr 30% niður í 13%. Slíkt fylgishrun er einsdæmi í stjórnmálasögu Íslands og þótt víðar væri leitað.

Óvænta stjarna ársins?

Davíð Oddsson sem ræðumaður á frelsiskvöldverði RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, 7. október 2013, þegar rétt fimm ár voru liðin frá hinu fræga sjónvarpsviðtali við hann í miðju hruninu. Þegar varð uppselt á kvöldverðinn, og færa varð hann í sífellt stærra húsnæði og sífellt stærri sali, og sátu hann að lokum 141 maður.

PR-slys ársins?

Mál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabankanum, þar sem hann krafðist þess að fá hærri laun, því að um það hafi verið samið. Már var ráðinn seðlabankastjóri í skjóli nætur, og síðan launaði hann vinnuveitendum sínum með þessum málarekstri, sem varð að vísu sneypuför, því að hann tapaði málinu í Héraðsdómi og Hæstarétti. Már getur hins vegar illa predikað hófsemi í launagreiðslum eftir þetta fáránlega mál.

Það besta sem gerðist á árinu?

Dómur EFTA-dómstóllinn í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi féll Íslendingum í vil í janúar 2013. Íslenski málstaðurinn sigraði. Þetta var stórkostlegur sigur og endahnútur á Icesave-málið. Ísland varð hvorki Kúba norðursins né einhvers konar Norður-Kórea, eins og sumir háskólamenn höfðu haldið fram.

Síðan má nefna, að hagvöxtur á Íslandi fór fram úr áætlunum, eftir að hann hafði árin á undan verið minni en gert hafði verið ráð fyrir. Erlendis lítur út fyrir, að Bandaríkin og Bretland séu að rétta út kútnum. Eins og dr. Nils Karlsson frá Stokkhólmi lýsti í fyrirlestri í janúar 2013, hafa Svíar líka horfið af gömlu sænsku leiðinni, háum sköttum og víðtækri endurdreifingu tekna óháð framlagi, og eru nú feta sig inn á nýju sænsku leiðina, skattalækkanir og aukið svigrúm fyrir einkaframtak.

Það versta sem gerðist á árinu?

Hér innanlands er áhyggjuefni, hversu illa gengur að minnka umsvif ríkisins. Ótal opinberar stofnanir eru reknar, þar sem starfsmennirnir virðast ekki hafa neitt þarfara að gera en sitja fundi hver með öðrum.

Það var mikill missir að því, að Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, lést á árinu. Hún var ásamt Ronald Reagan í forystu Vesturveldanna, sem sigruðu í Kalda stríðinu. Jafnframt reisti hún Bretland úr rústum.

Hvað gerist 2014 (óskhyggja í bland við raunsæi)?

Íslendingar þurfa að taka aftur upp gott samband við Bandaríkin. Ríkisstjórnin þarf að taka upp nýja utanríkisstefnu og horfa á Atlantshafið og raunar heimshöfin sjö frekar en einblína á meginland Evrópu. Ríkisstjórnin verður að semja við kröfuhafa bankanna og létta gjaldeyrishöftunum af. Hún verður að lækka skatta til að örva atvinnulífið.

(Þessi svör birtust á gamlársdag 2013. Fróðlegt er að lesa þau sjö mánuðum síðar.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband