Kamban, Kress og Lowrie

Sveinn Einarsson skrifar um skáldsöguna Ragnar Finnsson á bls. 187 í nýútkominni bók um Guðmund Kamban, sem Mál og menning gefur út: „Helga Kress hins vegar nánast ber upp á Kamban ritstuld, þegar hún ber saman brot úr sögu hans og skáldsöguna My Life in Prison (Fangelsisár mín) eftir Donald Lowrie. Því er ekki að leyna að í tilvitnunum hennar eru sláandi líkindi. Allir þekkja hvernig höfundar viða að sér efni og hefur margoft verið bent á hvernig jafnólíkir höfundar og Shakespeare og Halldór Laxness eigna sér frásagnir og atburði, án þess að stuld megi kalla. Sennilega hefur Kamban þó lesið umrædda bók.“

Öðru vísi mér áður brá. Ég notaði marga kafla úr æskuminningum Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans 2003 og umritaði þá, vann nýjan texta úr gömlum. Ég leyndi því hvergi, enda þekkti öll þjóðin þessar æskuminningar. Fyrir þetta var ég ásakaður um ritstuld og hörð hríð gerð að Háskólanum fyrir að reka mig ekki úr starfi. Meðal þeirra sem kröfðust þess að ég yrði rekinn var aðalyfirlesari Máls og menningar, Guðmundur Andri Thorsson, en það fyrirtæki gefur einmitt út bók Sveins. Munurinn á mér og þeim Kamban og Laxness var hins vegar, að ég reyndi hvergi að halda því fram eins og þeir, að þessir textar mínir væru sjálfstætt sköpunarverk. Ekki man ég til þess, að Sveinn Einarsson hafi komið mér til varnar. Öðru nær.

Sveinn Einarsson segir nú hinn hógværasti, að sennilega hafi Kamban lesið bók Lowries. En lauslegur samanburður sýnir vel, að heilu kaflarnir í Ragnari Finnssyni eru sóttir í bók Lowries. Helga Kress benti á þetta í bók um Kamban. En eins og hinn ágæti bókmenntamaður Sveinn Skorri Höskuldsson benti á í ritdómi um bók Helgu, var athugasemd um þessi rittengsl á milli Lowries og Kambans í aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Taldi hann Helgu seka um það, sem kallað er rannsóknarstuldur. Hún léti eins og hún hefði eftir sjálfstæða rannsókn komist að niðurstöðu, sem henni hefði verið bent á.

Helga mótmælti því harðlega, að hún hefði vitneskju sína um þessi rittengsl úr aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Og allir, sem þekkja Helgu, vita, að hún hefur gaman af ritum um þjáningar fanga, svo að ekkert er líklegra en hún hafi af sjálfsdáðum lesið bók Lowries og séð á augabragði rittengslin við bók Kambans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2014.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband